Hulda Guðný Finnbogadóttir fæddist 14. október 1970 á fæðingarheimili Reykjavíkur. Hún lést 25. ágúst 2021 í Asker í Noregi.

Foreldrar Huldu Guðnýjar eru Kolbrún Sigfúsdóttir skrifstofumaður, f. 1953 á Egilsstöðum, og Finnbogi Jón Rögnvaldsson húsasmiður, f. 1952 á Sauðárkróki, d. 1995, núverandi maki Guðmundur Árnason. Systur Huldu Guðnýjar eru 1) Linda Bára Finnbogadóttir f. 1973, sambýlismaður Michael Wulfken, synir Lindu eru Finnbogi Sær og Guðjón Elfar. 2) Elfa Dögg Finnbogadóttir, maki Stefán Þór Björnsson, dætur þeirra Kolbrún Júlía og Hrafntinna Mía.

Hulda Guðný giftist 21. september 1996 í Garðabæ Helga Hólmari Ófeigssyni, f. 1966.

Börn þeirra eru: Kolfinna Ósk Helgadóttir, f. 1998, maki Christian Bacolod Wiik, og Steinar Helgi Helgason, f. 2001. Áður átti Helgi soninn Guðmund Hólmar Helgason, maki Herdís María Sigurðardóttir, synir þeirra eru Júlíus Hólmar og Eiríkur Aron.

Hulda Guðný og Helgi hófu búskap á Akureyri og síðan Kópavogi, Álftanesi, Luxemborg og Noregi.

Skólaganga hennar var í Árbæjarskóla, Flataskóla, Garðaskóla í Garðabæ, Menntaskólanum í Reykjavík og hélt hún svo til Frakklands í frönsku. Lærði hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri.

Hún starfaði alla tíð við hjúkrun á Akureyri, í Reykjavík og Noregi.

Hulda Guðný átti mörg áhugamál: Djassballet, kórstarf, langhlaup, almenna útivist, fjölskyldu og heimili.

Útför hennar fer fram frá Garðakirkju í dag, 3. nóvember 2021, klukkan 13.

Hulda Guðný var einstök manneskja – góð og hlý, kærleiksrík og hvetjandi, tilfinninganæm, frumlegur húmoristi, óstöðvandi hlaupagikkur og útivistarfrík. Hún var óvenjulega falleg og glæsileg, jarðbundin og gegnheil, listræn og flink í höndunum, matgæðingur. Hún elskaði fjölskyldu sína og vini af krafti og ákafa og vandaði sig við allt sem hún tók sér fyrir hendur – hvort sem það var að prjóna kjól eftir eigin uppskrift eða eiga í annars hversdagslegum samskiptum við vini og vandamenn. Hún var með innbyggðan áttavita sem vissi alltaf hvað skipti máli, röntgenaugu sem sáu ytra og innra byrði samferðamanna af fádæma innsæi.

Við Hulda kynntumst fyrst þegar við vorum níu ára. Við lékum okkur í einni krónu í hauströkkrinu í kringum húsin í hverfinu, vorum í teygjó og brennibolta. Seinna áttum við mis-alvarlegar samræður um lífið og tilveruna í ísköldum, rauðum og silfurlitum Trabant á leið í skólann með kassettutækið á fullu í aftursætinu. Við vorum samskóla og meira og minna í sama bekk allt til tvítugs.

Eftir stúdentspróf vorum við sjaldan á sama stað. Hún í Frakklandi, fyrir norðan, í Lúxemborg, í Noregi. Ég á Ítalíu, fyrir sunnan, í Kína, í Bretlandi. Samskiptin voru stundum bara örfáar línur á jólakorti, broskall yfir netið yfir fyrsta kaffibolla dagsins, stöku faðmlag þegar slíkum lúxus var við komið. Samt gat maður alltaf tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið síðast. Eða byrjað á nýjum þræði. Hulda var mikill pælari – alltaf að hugsa, spá og spekúlera.

Hulda Guðný gerði það að ævistarfi sínu að hlúa að manneskjum. Hún hugsaði um þá sem áttu við veikindi að stríða í starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur, hún umvafði afa sinn og ömmu ást og umhyggju þar til þau létust og ást hennar á Helga og börnunum þeirra var takmarkalaus. Ég votta fjölskyldu hennar alla mína dýpstu samúð. Minning hennar mun lifa um alla tíð hjá öllum þeim sem hún snerti.

Sigrún Harðardóttir

Vinkonur frá fæðingu. Þessi frasi, sem Hulda Guðný notaði oft, lýsir sambandi okkar svo vel.

Við áttum alltaf hvor aðra þrátt fyrir að oftast væri landfræðilega langt á milli okkar í lífinu.

Þegar við vorum litlar kom Hulda oft ein austur til okkar á sumrin og það voru einstakir dásemdardagar. Í minningunni var alltaf sól og blíða. Eins og mamma mín lýsir þessu þá kysstumst við og föðmuðumst á flugvellinum, fórum svo í kapp út í bíl, upp stigann heima og svo var rifist en alltaf voru sættir innan seilingar og ég vissi ekkert dásamlegra en að fá Huldu mína austur. Við vorum helst alltaf eins klæddar og mamma saumaði oft á okkur eins föt. Hulda kom líka með gjafir að sunnan og þá gjarnan eins föt á okkur báðar. Við lékum okkur í klettunum, sulluðum í tjörninni í garðinum og svo eyddum við löngum stundum í pínulitlu sundlauginni á Egilsstöðum. Þá var bara leyfilegt að vera þar í eina klukkustund í einu. Við reyndum fyrst að fela okkur fyrir verðinum en þegar við vorum reknar upp úr gengum við heim, sóttum okkur nýja sundmiða og fórum aftur.

Á unglingsárunum var ég í tannréttingum og þurfti oft að fara til Reykjavíkur og stundum að vera yfir nótt. Þá fékk ég alltaf að gista hjá Huldu og fjölskyldu. Kolla frænka var alltaf svo góð við mig og eldaði svo dásamlegan mat. Ég fæ enn vatn í munninn þegar ég hugsa um eplapæið hennar.

Ég öfundaði Huldu af grænu augunum og brúna liðaða hárinu hennar. Ég öfundaði hana líka af því að búa á Reykjavíkursvæðinu og geta verið í dansi, kór og fimleikum.

Við Hulda áttum djúpt vinkvennasamband sem breyttist ekki þótt oft liði langt á milli þess að við hittumst. Alltaf var eins og við hefðum hist daginn áður og alltaf jafn gott og gaman að hitta hana.

Ég hitti Huldu mína síðast í febrúar árið 2017 þegar við heimsóttum fjölskyldu hennar í Noregi. Þau tóku svo vel á móti okkur og það var svo gaman að sjá yndislega heimilið sem þau höfðu búið sér þar.

Elsku Hulda mín. Þrátt fyrir að oftast hafi verið langar vegalengdir á milli okkar þá man ég svo margt. Ég man hláturinn þinn og fallegu röddina, ég man húmorinn þinn og krúttlega prakkarasvipinn, ég man dugnaðinn og ósérhlífnina, ég man hvað þú varst stolt af fjölskyldunni þinni og ég man hvað mér hefur alltaf þótt vænt um þig.

Þín vinkona frá fæðingu

Stefanía (Stefa).

Fréttin um andlát Huldu Guðnýjar barst yfir hafið frá Noregi, blíða sumarsins var á undanhaldi og haustið farið að láta á sér kræla. Við vorum minnt óþyrmilega á hverfulleika lífsins, hvers virði það er og að við megum ekki gleyma að lifa hverja stund.

Hugurinn reikar í A-stofuna Í Menntaskólanum í Reykjavík sem var okkar í tvö ár. Við sjáum hana fyrir okkur koma inn úr frímínútum. Hún hefur náð sér í TAB að drekka og tópas með, einhver þokki í fasinu, ljós og blíða. Hún sat næstaftast og það var ekki alltaf sem allir heyrðu sposkt og skelmislegt komment fyrr en sessunautarnir sprungu úr hlátri – Hulda Guðný var hnyttin með eindæmum en fór fínt með það.

Ólíkt mörgum jafnöldrum sínum á menntaskólaárunum var Hulda Guðný harðákveðin í því hvað hún ætlaði að verða „þegar hún yrði stór“. Hún stefndi á hjúkrun og þaðan í ljósmóðurfræðin og hún bjó svo sannarlega yfir réttu eiginleikunum, þessi ómetanlega blanda af hlýju, umhyggju fyrir öðrum, húmor og yfirvegun. Hún hélt sínu striki, eftir stutta dvöl við frönskunám í Rouen, hélt hún norður á Akureyri til að fylgja draumnum og það reyndist gæfuspor. Þar fann hún lífsförunautinn Helga Hólmar, þar hófu þau að vefa sinn lífsvef sem átti eftir að teygja sig til tveggja Evrópulanda. Allt sem skólasystir okkar gerði kom frá hjartanu, hjá henni var aldrei nein sýndarmennska.

Hulda Guðný lagði sig fram um að lifa heilbrigðu lífi, góðu lífi, borða hollan mat og stunda hlaup og útivist og hún vissi að undirstaða góðs lífs fólst að næra sálina fyrst. Þannig lifði hún, nærði allt sem hún snerti á, annaðist veikt fólk í vinnunni, hugsaði um afa sinn og ömmu og hlúði að krökkunum á flakkinu milli landa. Umhyggjan, hún var alltaf hennar aðalviðfangsefni. Hulda var einfaldlega góð við alla. Líf hennar var helgað hinu góða.

Við bekkjarsystkini í 6.-A í MR 1990 vottum öllum ástvinum Huldu Guðnýjar okkar dýpstu samúð. Hennar er sárt saknað úr okkar hópi.

Fyrir hönd bekkjarsystkina í 6.-A í MR 1990,

Ingibjörg Jónsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.