Garðabær Gunnar Ólafsson og liðsfélagar hans í Stjörnunni fá Grindavík í heimsókn í Mathús Garðabæjar-höllina í fjórðungsúrslitum bikarsins.
Garðabær Gunnar Ólafsson og liðsfélagar hans í Stjörnunni fá Grindavík í heimsókn í Mathús Garðabæjar-höllina í fjórðungsúrslitum bikarsins. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Bikarmeistarar Njarðvíkur í karlaflokki fá Val í heimsókn í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik, VÍS-bikarnum, en dregið var í fjórðungsúrslitin á Grand Hótel í hádeginu í gær.

Bikarmeistarar Njarðvíkur í karlaflokki fá Val í heimsókn í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik, VÍS-bikarnum, en dregið var í fjórðungsúrslitin á Grand Hótel í hádeginu í gær.

Fyrstudeildarlið Hauka heimsækir Keflavík sem sló KR úr leik í Blue-höllinni í Keflavík á mánudaginn í sextán liða úrslitum keppninnar. Þá tekur Stjarnan á móti Grindavík og ÍR fær Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn í heimsókn.

Í kvennaflokki heimsækja bikarmeistarar Hauka fyrstudeildarlið ÍR og þá mætast Njarðvík og Fjölnir í Ljónagryfjunni í Njarðvík í úrvalsdeildarslag fjórðungsúrslitanna.

Fjögur fyrstudeildarlið komust áfram í átta liða úrslitin kvennamegin en Hamar/Þór heimsækir Breiðablik og Stjarnan tekur á móti Snæfelli í Garðabæ.

Leikirnir fara dram dagana 11. - 13. desember.

KR hefur oftast orðið bikarmeistari í karlaflokki eða tólf sinnum og Njarðvík kemur þar á eftir með níu sigra. Kvennamegin hefur Keflavík fimmtán sinnum orðið meistari og KR kemur þar á eftir með tíu sigra.