Sigurlín Hermannsdóttir kastar fram sannkallaðri heimsfaraldurslimru: Sigfinnur hrósaði happi er hann týndi frúnni á vappi; upp rifjaði í skyndi að Ráðhildi fyndi með rakningar- frábæru appi.

Sigurlín Hermannsdóttir kastar fram sannkallaðri heimsfaraldurslimru:

Sigfinnur hrósaði happi

er hann týndi frúnni á vappi;

upp rifjaði í skyndi

að Ráðhildi fyndi

með rakningar- frábæru appi.

Þórarinn Eldjárn á einnig limru í fórum sínum:

Ekki var hollt fyrir Hassan

að hugsa svona út fyrir kassann.

Inn í kassann á ný

hann komst ekki‘ af því

hann vantaði vísa í passann.

Gunnar J. Straumland á sér hringhendan sléttubandadraum – ungan:

Straumur þungur lífi ljær

ljóðum, sungnum hlýjum.

Draumur ungur klifrar kær

kvæðið, tungum nýjum.

Eins og alkunna er má einnig lesa sléttuböndin afturábak...

Nýjum tungum kvæðið kær

klifrar ungur draumur.

Hlýjum sungnum ljóðum ljær

lífi, þungur straumur.

Í haust var Friðrik Steingrímsson mættur í Hlíðarrétt í Mývatnssveit, nema hvað. Og þar varð honum að orði:

Féð í dag var fært í rétt,

fráleitt var nú safnið þétt.

Út af því hvað féð var fátt

fengu sumir lítinn drátt.

Pétur Stefánsson yrkir falleg eftirmæli um góða vinkonu eiginkonu sinnar sem lést langt fyrir aldur fram:

Gleði alla glens og spé

gleypir dauðaskíman.

Falla lauf af lífsins tré

löngu fyrir tímann.

Bjarni Jónsson í Sýruparti á Akranesi (f. 1859 og d. 1937) orti síðasta veturinn í Reykjavík.

Ellismár um ævihaust

orkusmár má liggja

sagnafár með svikna raust

sjötíu ára og þriggja.

Honum var í nöp við róginn eins og þessi hringhenda ber vitni um:

Veldur mestu misskilning

mál er brestur sanninn

sýnir verstu sjónhverfing

sem við festist manninn.

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com