Gunnlaugur Stefán Gíslason fæddist í Hafnarfirði 28. júlí 1944. Hann lést á Landspítalanum 19. október 2021.

Foreldrar hans voru Vigdís Klara Stefánsdóttir frá Fitjum í Skorradal, f. 1909, d. 1999, og Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði, f. 1903, d. 1985. Systir Gunnlaugs var Þóra Eyjalín Gísladóttir, f. 1937, d. 2007.

Gunnlaugur Stefán giftist Áslaugu Jónsdóttur, f. 5. maí 1948, d. 5. apríl 1996. Þau skildu.

Hinn 22. júní 1974 kvæntist Gunnlaugur eftirlifandi eiginkonu sinni, Áslaugu Ásmundsdóttur frá Hafnarfirði, f. 23. febrúar 1950. Foreldrar Áslaugar voru Jónína Guðrún Andrésdóttir, f. 1932, d. 2010, og Ásmundur Kristinn Sigurðsson lögregluþjónn, f. 1932, d. 1961, og voru þau bæði frá Hafnarfirði.

Gunnlaugur og Áslaug eignuðust tvo syni, þeir eru: 1) Andrés Þór, f. 27. desember 1974, eiginkona hans er Sigríður Dröfn Jónsdóttir, f. 28. apríl 1976. Börn þeirra eru Þórdís Dröfn, f. 11. maí 1997, Árni Dagur, f. 3. mars 2002, Bjarki Dan, f. 16. maí 2003, og Salka Guðrún, f. 4. mars 2010. 2) Stefán Örn, f. 22. mars 1977, dóttir hans er Vigdís Klara, f. 25. apríl 2005.

Gunnlaugur ólst upp í Hafnarfirði. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan prentmyndaljósmyndun við Iðnskóla Hafnarfjarðar.

Gunnlaugur starfaði sem myndlistarmaður og einnig myndlistarkennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Myndlistaskóla Reykjavíkur og Miðstöð símenntunar í Hafnarfirði. Hann var virkur myndlistarmaður allan sinn starfsferil og hélt margar myndlistarsýningar hérlendis og erlendis. Gunnlaugur hefur einnig haldið sjálfstæð námskeið og fyrirlestra um myndlist síðustu fjóra áratugi. Hann var félagsmaður í Félagi íslenskra myndlistarmanna, Nordisk Akvarell og Akvarell Ísland.

Gunnlaugur var virkur meðlimur í Frímúrarareglunni í Hafnarfirði.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 3. nóvember 2021 klukkan 13.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Maður er dáinn en orð hans og minningar um hann lifa áfram, segir í Gestaþætti Hávamála og eiga vel við hjá okkur því það er óhætt að segja að elskulegur tengdafaðir minn skilur eftir sig góðan orðstír og góðar minningar.

Ég kynntist tengdaföður mínum þegar við Andrés byrjuðum saman, þá bæði unglingar. Hann tók mér strax vel og það var skemmtilegt hversu mikið við gátum talað saman. Við áttum margar góðar og langar stundir heima í Móbergi þar sem við töluðum um heimsmálin, vísindi, pólitík og bara lífið. Hann var skemmtilegur og fyndinn. Hann átti sitt eigið tungumál eða sín eigin orð yfir hluti sem hann notaði í gamni og við fólkið hans skildum. Hann talaði við köttinn sinn þegar hann málaði myndir og hann bakaði bestu jólaköku landsins, eldaði flottan fisk í raspi og æðislegan appelsínukjúkling. Gunnlaugur var listmálari alla sína tíð og listin var hans líf og yndi. Listin var djúp þörf innra með honum og þegar listsköpunarþörfin kom yfir hann skipti ekki máli hvað klukkan var, hvort það var dagur eða nótt. Þrátt fyrir velgengni sína í myndlistinni var hann auðmjúkur. Hann naut þess að vinna sjálfstætt en hafði þó frábæra samskiptahæfileika sem sýndi sig í því hversu auðvelt hann átti með að kynnast nýju fólki. Gunnlaugur var listrænn maður sem notaði hendur sínar og huga til sköpunar. Hann kunni að meta fegurð og fjölbreytni. Hann tók verkefni að sér með einstökum hugsunarhætti þar sem hann naut þess að vinna að list og hugsjón. Hann hafði gaman af áhugaverðu og óvenjulegu fólki, tónlist, átökum í veðri og náttúru og vísindum og hann notaði sköpunargáfu sína og ímyndunarafl til þess að túlka það í list sinni. Hann byrjaði snemma á ævinni að mála og listin kallaði sterkt á hann. Sennilega kom ekkert annað til greina en að leggja fyrir sig listina en ef hann hefði valið sér eitthvað annað hefði það sennilega verið á sviði vísinda. Gunnlaugur hafði mikinn áhuga á jarðfræði og öðrum náttúruvísindum eins og sést gjarnan á myndum hans þar sem náttúra og veður hafa verið hans viðfangsefni. Gunnlaugur var skipulagður og staðráðinn í að sjá verkefni sín verða að veruleika, það var áhugavert að fylgjast með honum mála mynd en hann lýsti því sem það væri einhver innri kraftur sem yfirtæki hann og myndin yrði bara að komast á blað.

Við kvöddum tengdapabba á sjöttu hæð Landspítalans. Þar kvaddi Gunnlaugur lífið við stóran glugga, með útsýni yfir alla borgina. Glugginn var eins og málverk þar sem fullt tunglið í allri sinni dýrð lýsti upp síðustu andartök listmálarans.

Gunnlaugur var mikill og tryggur fjölskyldumaður og ég tel mig heppna að hafa fengið að kynnast honum.

Sigríður Dröfn Jónsdóttir.

Maðurinn er forgengilegur en listaverkin lifa.

Afi gaf svo mikið af sér, ég var mjög ung þegar hann deildi ástríðu sinni fyrir listum með mér. Vinnustofan hans var alltaf opin upp á gátt. Þegar ég var í heimsókn var hún jafn mikið vinnustofan mín og hans. Með útsýni yfir allt Setbergið og ótakmarkaðan innblástur og hvatningu frá afa breyttist ég úr barni í öruggan og færan listamann um stund.

Ein af mínum eftirlætisminningum af afa er af vinnustofunni. Afi hafði sérstakt lag á því að mála himininn í tærum bláum lit sem amma kallar stundum Gunnlaugs-bláan í höfuðið á honum. En himinninn í verkum hans varð ekki einungis til fyrir tilstilli litablöndunar. Eitt af þeim skiptum sem ég varði tíma mínum á vinnustofunni deildi afi tækni sinni við að mála himininn með mér. Hann var nýbúinn að eignast pensil. Hann sýndi mér pensilinn af miklu stolti og útskýrði af hverju hann nýttist best í að kalla fram áferð himinsins og skýjanna. Smáatriðin eru týnd í minninu en pensillinn var úr glæru glerskafti með þéttan, sveigjanlegan og þykkan hárskúf. Afi hélt honum á lofti milli tveggja vísifingra og studdi við með þumlunum svo ég sæi pensilinn í heild sinni. Ég ímyndaði mér að ef þessi gersemi skylli í gólfið myndi hún brotna í þúsund litla mola. Afi lagði pensilinn í litla lófann minn og leyfði mér að mála himininn á fínasta pappírinn í vinnustofunni.

Listaverk afa eru ekki eina sköpun hans sem lifir áfram. Hann innrætti í mér og okkur öllum dyggðir og lífssýn sem er jafnvel eilífari gjöf til okkar en nokkuð annað. Umfram allt fæ ég frá honum þá vissu að ekkert sé betri leið í gegnum lífið en að fylgja hjartanu og ástríðunni.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir.

Það er bjartur og fagur dagur í dalnum okkar. Veturnætur.

Í kirkjugarðinum vefur reyniviðurinn hljóðlega sitt koparrauða laufteppi um þau sem þar hvíla. Í hlíðinni dansar margtóna lyngið við mosagræna dúðadurta og birkið er komið í mósvörtu kjólana sína. Samt er Hjálmatúnið enn þá grænt og gefandi. Neitar að sölna og geymir í sverðinum fótspor, strit og bis fjölskyldunnar öld af öld. Á engjunum er kollprúður gulvíðirinn búinn að kveðja sumarið og starirnar lagstar í dvala. Orðið langt síðan kýr ösluðu þarna upp í kvið og földu sig fyrir sporléttum Gulla kúasmala. En þá var líka heyjað á engjunum og oft þurfti pilturinn að snúast kringum það. Þetta var á 6. áratugnum og öldin önnur, en Gulla leið vel hjá ömmu Karólínu og bræðrunum þau 10 sumur sem hann var á Fitjum, frá 6 ára aldri.

Það var margt sýslið og bixið í framdalnum á þeirri tíð. Öll hús iðandi af lífi og amboðin ýmisleg, en fæst nýmóðins. Sum áttu eftir að skjótast fram ryðguð en óforgengileg á akvarellunum hans Gulla þegar fram liðu stundir.

Það var langt á milli okkar Gulla í aldri og samgangurinn lítill, lengst af. Síðar ræddum við oft, hvað frændrækni væri illa ástunduð í þessari fjölskyldu. En sem betur fer náðum við tengingu og vorið 2009 gerðum við gallerístemningu á Fitjum og kölluðum Fjósaklett. Þar sýndi Gulli sitt „malerí“ og naut sín. Meðal gesta voru forsvarsmenn Jónshúss í Köben sem hrifust og vorið eftir hélt Gulli ásamt Áslaugu sinni út með 28 verk til sýningar í því fræga húsi. Síðar það sama sumar sýndi Gulli svo á Fitjum, 13 vatnslitaverk af húsunum í Fitjasókn. Það varð hans síðasta einkasýning.

Ég man ekki lengur hvernig það byrjaði, þetta með „Húsin í sókninni“. Við töluðum svo oft um þessi yfirgefnu hús sem hann mundi svo vel, iðandi af lífi. Við söfnuðum ljósmyndum hjá brottfluttum og Gulli málaði myndir af húsunum. Eftir sýninguna gaf hann listaverkin til Fitjakirkju. Við erum mörg sem verðum honum ævinlega þakklát fyrir þá stórkostlegu gjöf. Hún hefur menningar- og sögulegt gildi fyrir framtíðina á þeim stað sem Gulli átti svo mörg mótunarsporin sem barn.

Í þættinum Lithvörf frá 2007 segir Gulli að hann hafi snemma fundið þörfina fyrir að mála það sem er yfirgefið, staði eða hluti þar sem þögnin hefur tekið yfir. „Þar eru ákveðin eliment eða hlutir sem standa eftir“ sem hann vildi fanga. Gulli hafði auga og ástríðu fyrir því sem „einu sinni var“, en líka fyrir ólgandi veðri og síbreytilegri náttúrunni. Hann var nákvæmur í tækninni þar sem hlutir og landslag, litir og skuggar draga fram það sem listamaðurinn vildi fanga. Hugmyndir og hughrif í hárfínum tónum (h)ljóma áfram um ókomna tíð í listaverkunum sem hann skilur eftir sig.

Nú er Gulli frjáls úr viðjum sjúkdómsins sem rændi hann gleðinni og öllum lífs og sálar kröftum síðustu árin. Ég sé hann fyrir mér í dag, hlýjan og sposkan á svip, svo leikandi léttan á fæti – á leið út í litagleðina, að fanga stemninguna, elska fólkið sitt og fegurðina.

Hulda frænka.