Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Fyrir sex árum tók ég að fjalla um rafbílavæðinguna og fannst hlutirnir gerast heldur hægt. Ég hafði „kristnast“ við kaup á fyrstu kynslóð af Nissan Leaf og nú hef ég ekið fáknum ríflega 80 þúsund kílómetra.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Fyrir sex árum tók ég að fjalla um rafbílavæðinguna og fannst hlutirnir gerast heldur hægt. Ég hafði „kristnast“ við kaup á fyrstu kynslóð af Nissan Leaf og nú hef ég ekið fáknum ríflega 80 þúsund kílómetra. Ólíkt því sem var árið 2015 upplifi ég mig ekki öðruvísi á götunum, nema ef vera skyldi fyrir það að ég á gamlan og úr sér genginn rafbíl en flestir þeysast um á nýtísku þotum á borð við Tesla 3 og Y eða Taycan frá Porsche.

Fæðingarhríðir byltinganna eru oft harkalegar og taka tíma en svo bresta flóðgáttirnar og nú sér maður varla það hús þar sem ekki er hægt að tengja bíl við rafnetið. Og ef maður rekst á mann sem fjárfest hefur í nýjum bíl sem ekki gengur að hluta til eða öllu leyti fyrir rafmagni, afsakar viðkomandi sig og í hálfum hljóðum viðurkennir hann að þetta sé ábyggilega síðasti bíllinn sem viðkomandi muni kaupa sem búinn er sprengihreyfli.

Á fimm árum hefur allt breyst og ekki er ósennilegt að næstu fimm árin feli í sér aðrar eins breytingar og jafnvel meiri. Það er allt til bóta og þróun sem við Íslendingar eigum að fagna. Þegar orkuskiptin hafa gengið í gegn á götunum þurfum við að vetnisvæða skipastólinn, einn þann glæstasta í heimi. Og þá eru það bara flugvélarnar sem eftir eru. Lengra er í að þær muni ganga fyrir rafmagni eða vetni en sá dagur kemur.

Innan tíðar verður Ísland óháð utanaðkomandi orkugjöfum að mestu og það mun styrkja stöðu landsins, efnahagslega og öryggislega.