— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Lífið gengur sinn vanagang hjá Senjórítunum, kór eldri kvenna í Reykjavík. Á nýliðnum vikum hafa þær æft stíft undir stjórn Ágotu Jóo frá Ungverjalandi fyrir hausttónleikana, sem verða í Langholtskirkju næstkomandi laugardag, 6. nóvember. „Bubbi Mortens ætlar að syngja með okkur og lögin hans þarf að æfa vel, því þau eru erfið,“ segir Silja Aðalsteinsdóttir, formaður kórsins.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lífið gengur sinn vanagang hjá Senjórítunum, kór eldri kvenna í Reykjavík. Á nýliðnum vikum hafa þær æft stíft undir stjórn Ágotu Jóo frá Ungverjalandi fyrir hausttónleikana, sem verða í Langholtskirkju næstkomandi laugardag, 6. nóvember. „Bubbi Mortens ætlar að syngja með okkur og lögin hans þarf að æfa vel, því þau eru erfið,“ segir Silja Aðalsteinsdóttir, formaður kórsins.

Á undanförnum árum hafa Senjóríturnar leitað í smiðju þekktra söngvara og meðal annars hafa Raggi Bjarna heitinn og Bragi Valdimar Skúlason í Baggalúti sungið með þeim. „Við löðum að okkur fræga menn,“ segir Silja öryggið uppmálað og liggur ekki á skýringunni: „Ég held að þessum mönnum hafi fundist hugmyndin um að hafa bakraddir 60 kvenna á virðulegum aldri svolítið spennandi.“

Kórinn varð til sem afsprengi út úr Kvennakór Reykjavíkur fyrir nokkrum árum og Senjóríturnar voru síðan formlega stofnaðar 2015. Þær hafa reglulega haldið tónleika, tekið þátt í kóramótum og farið í söngferðalög, en mest sungið í einrúmi síðan kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn snemma árs 2020. En nú hafa þær tekið af sér grímurnar og horfa bjartar fram á veg. „Það er ómögulegt að syngja með grímu en við höldum að veiran sé á undanhaldi og lífið fari aftur að falla í réttar skorður,“ segir Silja.

Fyrst á sviði 1960

Enn hafa ekki allar söngkonurnar skilað sér. „Nokkrar eru kannski hræddar við smit,“ segir Silja, sem hefur verið í kórnum í sjö ár. Hún söng fyrst opinberlega með KK-sextettinum í Austurbæjarbíói haustið 1960, þegar hún tók meðal annars lagið „Everybody's Somebody's Fool“, sem Connie Francis gerði frægt skömmu áður. „Ég var lokkuð í kórinn á fölskum forsendum; að þetta væri hópur kvenna sem kæmi saman einu sinni í viku til þess að syngja, slaka á og skemmta sér,“ segir Silja um kórstarfið. „Það þótti mér mjög aðlaðandi en eftir mánuð eða tvo kom í ljós að þetta var afar metnaðarmikill kór með gríðarlega metnaðarfullan kórstjóra sem keyrði hópinn áfram af hörku. Það var ekkert sem hét að slaka á og syngja bara rútubílasöngva í laglínunni heldur var skipt í þrjár og fjórar raddir. Ég þurfti ekki aðeins að læra texta heldur líka rödd sem ég hafði ekki æft; ég hafði alltaf sungið laglínuna eins og ég væri sópran en í kórnum syng ég alt-rödd. Ég þurfti því að læra öll lög upp á nýtt en það er mjög hollt fyrir heilabúið.“

Silja hefur verið formaður kórsins undanfarin fjögur ár. „Það má ekki vera lengur en í tvö ár og kjósa verður nýjan formann á næsta aðalfundi en við höfum ekki getað haldið aðalfund í nær tvö ár.“

Dagskráin á laugardag verður fjölbreytt. Flest lögin verða eftir Bubba. „Við syngjum bæði einar og með honum,“ segir Silja. „Við syngjum líka þrjú lög eftir Braga Valdimar, lög sem við æfðum fyrir síðasta konsert, auk laga eftir aðra lagasmiði. Þetta verður allt saman mjög létt og skemmtilegt en þó snúið, því eins og ég sagði eru lögin hans Bubba ekki einföld.“