[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meistaradeildin Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Enska knattspyrnufélagið Manchester United þurfti enn á ný að treysta á snilli portúgölsku stórstjörnunnar Cristiano Ronaldo þegar liðið heimsótti ítalska liðið Atalanta í 4.

Meistaradeildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Enska knattspyrnufélagið Manchester United þurfti enn á ný að treysta á snilli portúgölsku stórstjörnunnar Cristiano Ronaldo þegar liðið heimsótti ítalska liðið Atalanta í 4. umferð F-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Ronaldo skoraði bæði mörk United í leiknum þar sem hann jafnaði í tvígang í 2:2 jafntefli. Josip Ilicic kom heimamönnum í Atalanta yfir á 12. mínútu eftir góðan undirbúning Duván Zapata og hræðileg mistök David de Gea í marki United áður en Ronaldo jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir frábært samspil milli hans, Mason Greenwood og Bruno Fernandes.

Snemma í síðari hálfleik skoraði Zapata svo sjálfur eftir afleitan varnarleik Harry Maguire. Markið var fyrst dæmt af vegna rangstöðu en eftir gaumgæfilega athugun VAR-dómara var það réttilega dæmt gott og gilt þar sem Maguire spilaði Zapata réttstæðan. Þegar öll von virtist úti fyrir United fékk Ronaldo boltann á lofti frá Greenwood við vítateigslínuna og skoraði með mögnuðu skoti niður í bláhornið í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Með því að bjarga jafntefli sá Ronaldo til þess að United heldur toppsæti F-riðilsins, þar sem liðið er með 7 stig eftir fjóra leiki líkt og Villarreal, sem vann Young Boys 2:0 í gærkvöldi og er í 2. sæti. Atalanta er þó skammt undan með fimm stig og því getur enn brugðið til beggja vona hjá United, Villarreal og Atalanta er þau freista þess í síðustu tveimur umferðum riðilsins að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Naumt hjá Chelsea

Chelsea vann Malmö með minnsta mun, 1:0, í Svíþjóð í H-riðlinum í gær þar sem Hakim Ziyech skoraði sigurmarkið á 56. mínútu.

Chelsea er með 9 stig í 2. sæti, sex stigum á undan Zenit frá Sankti Pétursborg í 3. sæti, og er því svo gott sem komið áfram í 16-liða úrslitin.

Barcelona á lífi

Barcelona vann lífsnauðsynlegan sigur á Dynamo Kyiv þegar liðin mættust í Kænugarði í Úkraínu í E-riðlinum í gærkvöldi. Spænska ungstirnið Ansu Fati reyndist hetja Börsunga þegar hann skoraði sigurmarkið á 70. mínútu.

Með sigrinum fór Barcelona upp fyrir Benfica og í 2. sæti riðilsins, þar sem liðið er með sex stig að loknum fjórum leikjum.

Bayern og Juventus áfram

Í E-riðlinum mættust einnig Bayern München og Benfica í München þar sem heimamenn unnu að lokum öruggan 5:2 sigur.

Pólski markahrókurinn Robert Lewandowski var samur við sig og skoraði þrennu, auk þess sem hann klúðraði vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Serge Gnabry og Leroy Sané komust einnig á blað hjá Bæjurum. Morato og Darwin Núnez skoruðu mörk Benfica, sem er nú í 3. sæti riðilsins með 4 stig. Bayern er þar með búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar enda með fullt hús stiga, 12 talsins, eftir fjóra leiki.

Í H-riðlinum er Juventus sömuleiðis með fullt hús stiga og er því einnig búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum eftir 4:2 sigur gegn Zenit í Tórínó í gærkvöldi.

Paulo Dybala skoraði tvö mörk fyrir Juventus og Federico Chiesa og Álvaro Morata skoruðu einnig. Leonardo Bonucci skoraði sjálfsmark fyrir Zenit og Sardar Azmoun skoraði sárabótarmark í blálokin.