Steindór Haraldsson
Steindór Haraldsson
Eftir Steindór Haraldsson: "Með þessari tillögu vonuðust flutningsmenn eftir að umræða gæti hafist við presta, með hvaða hætti mætti komast frá þessu fyrirkomulagi."

Nú er kirkjuþingi nýlokið, sem var haustþing 2021. Spennandi tímar eru fram undan í kirkjunni, sem nú heitir formlega „Þjóðkirkjan“. Mörg mál voru lögð fram á þinginu í þetta sinn og er sumum þeirra lokið.

Eitt mál vakti meiri athygli en önnur, en það var um svokölluð aukaverk presta. Í tillögunni er gert ráð fyrir að prestar hætti að taka gjald fyrir þessi aukaverk. Það sem átt er við þegar talað er um aukaverk presta eru t.d.: skírnir, fermingar, hjónavígslur og útfarir. Fram á þennan dag hafa prestar haft heimild til að taka gjald fyrir þessar athafnir. Gjaldskráin er með nýorðnum breytingum, einhliða ákveðin af kirkjuþingi, en áður af ráðherra, enda eru það sóknarbörn sem greiða fyrir þessa þjónustu, ekki launagreiðandi. Í kjarasamningum presta við Þjóðkirkjuna fyrr á þessu ári neituðu þeir, eðlilega, að þessar greiðslur væru hluti af þeirra launakjörum, en nú hentar þeim sá málflutningur ekki lengur. Þessar aukaverkagreiðslur hafa verið lengi við lýði og voru eðlilegar á meðan prestar voru mjög illa launaðir og brauðin (prestaköllin) afar misjöfn.

Umræður um allskonar sporslur og aukagreiðslur fóru fram á Alþingi um áratuga skeið. Hér er slóð á gamalt mál sem hristi vel upp í umræðunni á sinni tíð, flutt af Stefáni Jónssyni og Jónasi Árnasyni, https://www.althingi.is/altext/99/r_txt/2171.txt . Ríkisvaldið hætti aukagreiðslum til embættismanna sinna, t.d. sýslumanna, fyrir 20 til 30 árum. Rökin voru m.a. þau að þessar aukagreiðslur væru siðferðislega rangar vegna þess að embættismennirnir væru komnir með góð föst laun. Á þessum tíma var engu breytt hjá prestum þó þeir væru opinberir starfsmenn. Nú hefur orðið breyting á, því um síðustu áramót hættu prestar að vera opinberir embættismenn og fóru á launaskrá hjá Þjóðkirkjunni.

Kirkjuþing ber ábyrgð á að laga þá tímaskekkju, sem svona aukaverkagreiðslur eru. Með þessari tillögu vonuðust flutningsmenn eftir að umræða gæti hafist við presta, með hvaða hætti mætti komast frá þessu fyrirkomulagi. Sumir prestar, ekki allir, brugðust hins vegar mjög illa við þessu. Eftirtektarvert var einnig að prestar lögðu fram frávísunartillögu um málið en gengu síðan úr þingsal þegar hún var til umræðu. Þessar aukaverkagreiðslur eru barn síns tíma og hljóta að hverfa eins og hjá ríkinu. „Að þekkja sinn vitjunartíma“ er góður eiginleiki.

Höfundur er kirkjuþingsmaður.