Friðrik Pálsson
Friðrik Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Friðrik Pálsson: "...það er ekki eftir neinu að bíða."

„Það var fyrir átta árum, að ég kvaddi þig með tárum,“ er upphafið á fallegu ljóði sem flestir landsmenn kunna, eftir Tómas Guðmundsson.

Ég get ekki sagt að ég hafi kvatt gömlu jarðefnaeldsneytisbílana mína með tárum, enda var skilnaðurinn við þá ekki algjör. Hins vegar eignaðist ég minn fyrsta hreina rafmagnsbíl fyrir rúmlega átta árum. Ég var vitaskuld ekki sá eini, en við áttum nokkur sameiginlegt það áhugamál að sanna fyrir sjálfum okkur og öðrum að við hefðum ekki hent peningunum okkar í tóma vitleysu. Við trúðum því að hreinir rafmagnsbílar væru komnir til að vera, að minnsta kosti næstu áratugina, þangað til næsta tækni fyndi upp einhver önnur og enn betri úrræði.

Það voru engar hleðslustöðvar á landinu þá, en 25 metra löng framlengingarsnúra gerði sitt gagn. Reynslan af þessum fyrsta rafmagnsbíl mínum í átta ár og 165.000 kílómetra hefur verið í einu orði sagt frábær. Fleiri hreinum rafmagnsbílum hef ég kynnst í þessi átta ár og af þeim má sömu sögu segja.

Eðlilega þarf fólk að sanna fyrir sér, að ný tækni sé æskileg og varanleg til að vilja taka hana í sína þágu. Í mörg ár frá 2013 voru aðeins fáir bílaframleiðendur með hreina rafmagnsbíla. Það getur líka verið erfitt að sannfæra sig um að skipta um bílategund; við eigum það til að telja bílinn okkar bestan.

Nú er hins vegar staðan sú, að nánast allir bílaframleiðendur sem selja bíla hér á landi eru komnir með úrval af hreinum rafmagnsbílum. Og því er ekki eftir neinu að bíða.

Þá er eðlilegt að lesendur spyrji, hvað ég sé að vilja með að skipta mér af bílakaupum annarra. Ég vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að ég tel það skyldu hvers manns sem ætlar að kaupa nýjan bíl núna í lok ársins 2021 að kynna sér og prófa hreinan rafmagnsbíl áður en hann kaupir eitthvað annað.

Í fyrsta lagi eru þeir bráðskemmtilegir í akstri.

Í öðru lagi miklum mun ódýrari í rekstri og munar þar miklu.

Í þriðja lagi eru þeir umhverfisvænir, nokkuð sem margir setja í fyrsta sæti.

Svo einfalt er það.

Við skuldum öll umhverfinu að flýta fyrir rafvæðingu bílaflotans – og svo eru rafmagnsbílar frábærir.

Mér finnst einstakt að sigla milli lands og Eyja með Herjólfi á rafmagni, hef fengið að prófa rafmagnsflugvél enda er ég áhugamaður um orkuskipti og umhverfismál.

Höfundur er hótelhaldari.