[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Dögg Halldórsdóttir er fædd 3. nóvember 1971 á Landspítalanum, ólst upp til tíu ára aldurs í Hafnarfirði en flutti svo í Espigerði í Reykjavík. Margrét var í sveit á sumrin hjá frændfólki í Kvíarholti í Holtum.

Margrét Dögg Halldórsdóttir er fædd 3. nóvember 1971 á Landspítalanum, ólst upp til tíu ára aldurs í Hafnarfirði en flutti svo í Espigerði í Reykjavík. Margrét var í sveit á sumrin hjá frændfólki í Kvíarholti í Holtum. „Þarna kviknaði líklega bakterían að áhuganum á dýrum og síðan var þarna tækifæri til að dunda sér við dýrin og hestana. Hestamennska er í ættinni, en foreldrar mínir voru ekkert í henni.“

Margrét stundaði nám í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði en svo í Hvassaleitisskóla og lauk þaðan grunnskólagöngu. Hún lauk svo stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1992. „Ég starfaði um sumur við ýmislegt hjá Landsvirkjun í Hrauneyjafossvirkjun og við reiðkennslu barna við reiðskólann á Hrauni. Ég sat í stjórn Listafélagsins í MR og tók þátt í minni ræðukeppnum innan skólans og virkan þátt í félagslífi. Ég söng í kór við Hólaskóla og var í ræðuliði skólans.“ Margrét hóf nám í búfræði á hrossaræktarbraut við Bændaskólann á Hólum og brautskráðist þaðan 1994.

Margrét starfaði sem dýrahirðir og seinna yfirdýrahirðir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum 1994-2006. „Ég sótti þarna um eftir að ég útskrifaðist frá Hólum. Þetta var frábær tími og ég vann þarna með nautinu Guttormi og fleiri stórstjörnum. Starfið yfirdýrahirðir hét fyrst rekstrarstjóri og ég sá um daglega umsýslu, t.d. að ráða fólk og sjá um að öllum þessum dýrum væri sinnt, þau voru allt frá minkum og yfir í hreindýr og seli. Svo vorum við alltaf með verkefnið villt dýr í hremmingum sem var mjög skemmtilegt. Ég fór t.d. einu sinni á skyndihjálparnámskeið fyrir ránfugla í Bretlandi.“

Margrét hóf síðan störf í dýraheilbrigðisdeild Vistor haustið 2006 og starfar þar enn sem viðskiptastjóri. „Dýraheilbrigðisdeildin sýslar með allt sem snýr að dýralæknum, dýraheilbrigði og dýrahaldi. Við seljum landbúnaðarvörur og vörur fyrir smádýr en mest dýralæknavörur, tæki, lyf og allt milli himins og jarðar. Ég sleppi því ekki þessari dýratengingu.“

Margrét hefur sinnt ýmsum félagsmálum fyrir hestamenn og er nú formaður hestamannafélagsins Harðar, sem telur 623 félagsmenn. „Ég tók við formannsstarfinu í janúar á þessu ári og var svo endurkjörin í október en ég er búin að vera 20 ár í félaginu. Þetta er svona eins og að stýra litlu bæjarfélagi, húsfélagi og íþróttafélagi, en þarna eru margir snertifletir. Félagsmenn spanna allan aldur og eru að eldast eins og þjóðin og því að ýmsu að hyggja. Núna erum við að búa okkur undir að úthluta lóðum, það þarf að sinna æskulýðsstarfi, afreksstarfi og keppnum. Svo þarf líka að hlúa að þeim sem eru í hestamennsku sem tómstund og eru ekki að keppa. Þau þurfa líka aðstöðu, reiðvegi og mannvirki. Svo snýst þetta mikið um að virkja félagsmenn.

Þetta er 70 ára gamalt félag og var stofnað af hugsjón og það þarf að halda hugsjóninni á lofti. Það á að vera gaman í hestamennsku. Ég sjálf hef húmorinn að vopni, þyki stundum helst til of kaldhæðin, en mér er nauðsyn að sjá spaugilegar hliðar á lífinu.“ Margrét hefur sungið síðan 2013 með Brokkkórnum, kór hestamanna á höfuðborgarsvæðinu, og sat um tíma í stjórn hans. Hún situr einnig í varastjórn UMSK.

„Helsta áhugamálið er hestamennska sem ég hef stundað frá barnæsku. Ég hef tekið þátt í smærri keppnum í gegnum tíðina og náð ágætisárangri inn á milli. Ég hef einnig áhuga á hundum og hundarækt, en ég á tvo hreinræktaða hunda, border collie og parson russell terrier, en það var draumategund sem ég flutti inn frá Ameríku. Svo á ég auðvitað ketti. Seinustu ár hef ég aðeins stundað fjallgöngur, mikið með skólafélögum úr MR.“

Fjölskylda

Eiginmaður Margrétar er Jakob Ragnarsson, f. 25.6. 1958, bifreiðasmiður, starfar hjá Marel. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Foreldrar Jakobs: Hjónin Ragnar Jakobsson, f. 27.7. 1922, d. 3.10. 2001, rafvirki, starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur lengst af, og Guðbjörg Kristín Hannesdóttir, f. 22.10. 1929, húsfreyja og verkakona, búsett í Reykjavík.

Börn Margrétar og Jakobs eru Halldór Jakobsson, f. 13.11. 2000, nemi við Háskóla Íslands, og Dagbjört Hekla Jakobsdóttir, f. 12.11. 2005, nemi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Dætur Jakobs og stjúpdætur Margrétar eru Sigurrós Ásta Jakobsdóttir, f. 20.5. 1979, og Kristín Jakobsdóttir, f. 2.9. 1981.

Samfeðra systkin Margrétar eru Guðmundur Þórir, f. 3.8. 1944, Guðrún, f. 28.9. 1945, Gróa, f. 11.9. 1949, Ragnheiður, f. 8.10. 1952, og Ómar, f. 22.2. 1954.

Foreldrar Margrétar: Hjónin Halldór Eyjólfsson, f. 9.3. 1924, d. 21.11. 2000, bifvélavirki, starfaði lengst af hjá Landsvirkjun við hálendisvirkjanir, og Dagbjört Þórðardóttir, f. 25.7. 1934, lyfjatæknir, starfaði í Hafnarfjarðarapóteki og apóteki Borgarspítalans. Þau bjuggu lengst af saman í Reykjavík.