Ninna Sif Svavarsdóttir
Ninna Sif Svavarsdóttir
Eftir Ninnu Sif Svavarsdóttur: "Prestar vinna miklu fleiri tíma að jafnaði á viku. Það gera þeir á öllum tímum sólarhrings, alla daga vikunnar árið um kring."

Á nýafstöðnu kirkjuþingi var lögð fram tillaga um að afnema allar greiðslur til presta þjóðkirkjunnar fyrir svokölluð aukaverk.

Kirkjuþing er ekki viðsemjandi presta um kjör þeirra. Réttur presta til þess að innheimta vegna aukaverka er kjarasamningsbundinn. Mér er til efs að nokkur önnur stétt búi við þær aðstæður að aðili sem ekki er viðsemjandi hennar láti sér detta í hug að ætla sér einhliða að virða að engu gerða kjarasamninga og rýra laun stéttarinnar.

Þar til 1. janúar 2020 voru prestar opinberir embættismenn. Nú eru prestar starfsmenn Þjóðkirkjunnar – Biskupsstofu og sem slíkir starfsmenn á almennum vinnumarkaði með tilheyrandi réttindum og skyldum. Fyrsti kjarasamningur milli PÍ og kjaranefndar fyrir hönd Þjóðkirkjunnar – Biskupsstofu var undirritaður 1. júní sl. Í þeim kjarasamningi er kveðið á um að prestar eigi að jafnaði að vinna 36 stundir á viku. Ljóst er að prestar vinna miklu fleiri tíma að jafnaði á viku. Það gera þeir á öllum tímum sólarhrings, alla daga vikunnar árið um kring. Á stórhátíðum er vinnuálag á prestum mikið. Þannig er markmið um 36 stunda vinnuviku presta eins og er háleitt markmið og fjarlægur draumur.

Aukaverkin eru þó alls engin afgangsstærð í þjónustu presta heldur er hér um að ræða skírnir í sérathöfnum, fermingarfræðslu, hjónavígslur og kistulagningar og útfarir. Stærstu stundirnar í lífi fólks í gleði og sorg þar sem við prestar mætum fólki og leggjum okkur fram um að veita því þá þjónustu sem það óskar eftir, utan venjulegs vinnutíma, um helgar, ekki endilega í sóknarkirkjunni heldur þar sem fólk vill fá okkur til sín. Heimaskírnir eru sem dæmi séríslenskt fyrirbæri. Með því að meina prestum að þiggja laun fyrir aukavinnu á frídögum með þeim hætti sem tillagan sem lá fyrir kirkjuþingi gerði ráð fyrir er einboðið að sú fallega, íslenska hefð sem heimaskírnir eru myndi leggjast af.

Það væri ekki bætt þjónusta kirkjunnar við þau sem vilja þiggja hana.

Vissulega hefur það sjónarmið einnig verið látið í ljós innan prestastéttarinnar, að það sé óheppilegt að prestar séu settir í þá stöðu að eiga sjálfir að innheimta vegna þessara prestsverka. Prestafélag Íslands er að sjálfsögðu fúst til samtals við til þess bæra aðila um breytingar á því fyrirkomulagi og hvernig bæta mætti upp tekjutap sem af því hlytist.

Umræðan á kirkjuþingi var hins vegar þess eðlis að þau sem þar lögðu fram þessa tillögu og tóku til máls um hana ættu að biðja prestastéttina afsökunar. Það verður að teljast einsdæmi að vegið sé að einni stétt, heilindum hennar og siðferði með slíkum hætti sem þar var gert.

Höfundur er formaður Prestafélags Íslands. ninna.sif.svavarsdottir@kirkjan.is