Ekki nóg Ráðherra sagði að róðurinn hefði verið hertur, en meira þyrfti til.
Ekki nóg Ráðherra sagði að róðurinn hefði verið hertur, en meira þyrfti til. — AFP
„Við þurfum að láta orkuskiptin ná til skipa og flugvéla,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún ávarpaði samkomuna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í gær, „við þurfum að gera betur í náttúrulegum...

„Við þurfum að láta orkuskiptin ná til skipa og flugvéla,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún ávarpaði samkomuna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í gær, „við þurfum að gera betur í náttúrulegum lausnum. Síðastliðin þrjú ár höfum við hert róðurinn sem nemur tvöföldun. En við þurfum meira – miklu meira,“ hélt ráðherra áfram.

Hún sagði niðurstöður vísindanna óyggjandi að sönnunargildi, loftslagsmarkmiðin samkvæmt Parísarsáttmálanum hrykkju ekki til við að halda hnattrænni hlýnun innan öryggismarka. Ísland hefði í fyrra hækkað markmið sitt um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda úr 40 í 55 prósent fyrir árið 2030.

Fékk hugljómun í geimnum

Ráðherra sagðist hafa góðar sögur í farteskinu ofan af Íslandi og nefndi 100 prósent endurnýtanlega upphitunar- og raforku auk þess sem Ísland vermdi annað sætið í heiminum í sölu umhverfisvænna bifreiða. Betur mætti þó ef duga skyldi.

Jeff Bezos, stofnandi vefsölurisans Amazon, ávarpaði einnig ráðstefnugesti í gær og kynnti áætlun sína um að verja tveimur milljörðum dala, jafnvirði 260 milljarða íslenskra króna, úr Bezos Earth-sjóði sínum til að færa aflagað landslag í fyrra horf og breyta fæðukerfum til hins betra.

Kvaðst Bezos hafa fengið hugljómun í nýlegri geimferð sinni og áttað sig á hve viðkvæm náttúra jarðar væri, en hann sætti einmitt harðri gagnrýni fyrir að sóa fé í að þvælast um geiminn í stað þess að reyna að leysa vandamál jarðarinnar. Ferðin í júlí á geimflauginni Nýja hirðinum virðist þó hafa haft sín áhrif. „Mér var sagt að maður fengi nýja sýn á veröldina við að sjá jörðina utan úr geimnum, en ég var engan veginn búinn undir hið raunverulega sannleiksgildi þeirra orða,“ sagði Amazon-jöfurinn.

atlisteinn@mbl.is