Viðbót M/V Akranes er systurskip Mykiness og mun hefja siglingar á milli Rotterdam og Þorlákshafnar á vegum Smyril Line síðar í mánuðinum.
Viðbót M/V Akranes er systurskip Mykiness og mun hefja siglingar á milli Rotterdam og Þorlákshafnar á vegum Smyril Line síðar í mánuðinum.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Smyril Line er að bæta við þriðja flutningaskipinu til vikulegra áætlunarsiglinga milli Þorlákshafnar og hafna á meginlandi Evrópu. Vöruflutningaferjan M/V Akranes bætist í hópinn með Mykinesi og Mistral.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Smyril Line er að bæta við þriðja flutningaskipinu til vikulegra áætlunarsiglinga milli Þorlákshafnar og hafna á meginlandi Evrópu. Vöruflutningaferjan M/V Akranes bætist í hópinn með Mykinesi og Mistral. Fjórða skipið er farþega- og vöruflutningaferjan Norræna sem siglir til Seyðisfjarðar.

„Það er aukin eftirspurn eftir plássi í skipunum vegna innflutnings á vörum. Þörfin fyrir þessa tegund innflutnings og skammur flutningstími skapar síðan nýja möguleika við útflutning á ferskum og frosnum sjávarafurðum og laxi,“ segir Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi.

Siglingar hefjast 20. nóvember

M/V Akranes er RO/RO skip sem tekur 100 flutningavagna og er systurskip Mykiness sem reynst hefur vel í siglingunum til Íslands. Það siglir frá Þorlákshöfn á miðvikudagskvöldum og til baka frá Rotterdam á laugardagskvöldi.

Akranes hefur siglingar síðar í mánuðinum, fyrsta lestun í Rotterdam verður 20. nóvember. Skipin þrjú koma til Þorlákshafnar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, Mykines og Akranes frá Rotterdam og Mistral frá Hirtshals í Danmörku. Þau hafa viðkomu í Færeyjum. Akranes hefur undanfarna mánuði verið í áætlunarsiglingum með lax frá miðhluta Noregs til Rotterdam.

„Við fáum mikil og góð viðbrögð frá viðskiptavinum enda erum við að bæta við burðargetu og auka tíðni siglinga,“ segir Linda.