Grúví Wo! Tríó er ný hljómsveit skipuð margreyndum tónlistarmönnum.
Grúví Wo! Tríó er ný hljómsveit skipuð margreyndum tónlistarmönnum.
Wo! Tríó treður upp í Jazzklúbbnum Múlanum á Björtuloftum Hörpu í kvöld, miðvikudag, og hefjast leikar klukkan 20.

Wo! Tríó treður upp í Jazzklúbbnum Múlanum á Björtuloftum Hörpu í kvöld, miðvikudag, og hefjast leikar klukkan 20. Tríóið er ný hljómsveit sem spilar eingöngu tónlist eftir Stevie Wonder og er skipað þeim Tómasi Jónssyni orgelleikara, Róberti Þórhallssyni sem leikur á rafbassa og trommuleikaranum Ólafi Hólm.

Í tilkynningu segir að sveitin leiki „frjálsar, spunakenndar og grúví útsetningar á lögum Wonder sem eru allt frá að vera angurvær og falleg yfir í flókin og krefjandi.“

Múlinn er nú á sínu 24. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT-sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.