Höfundurinn „Það felst nautn í því að lesa þessa bók. Hún er eins og forboðinn ávöxtur, uppfull af því sem fólk hugsar en segir ekki, sem og því sem enginn virðist hugsa, nema kannski Kristín Ómarsdóttir, höfundur bókarinnar.“
Höfundurinn „Það felst nautn í því að lesa þessa bók. Hún er eins og forboðinn ávöxtur, uppfull af því sem fólk hugsar en segir ekki, sem og því sem enginn virðist hugsa, nema kannski Kristín Ómarsdóttir, höfundur bókarinnar.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Ómarsdóttur. Benedikt, 2021. Innbundin, 198 bls.

Það er eins og sögurnar í Borg bróður míns hafi flætt beint úr hjarta höfundar og á síðurnar, algjörlega milliliðalaust. Bókin er listræn, bæði falleg og ljót. Þá getur hún bæði verið ofur auðskiljanleg og óskiljanleg, samtímis snert við einhverju sérstöku sem lesandinn vissi ekki að byggi innra með honum og skilið hann eftir algjörlega úti á túni, úr tengslum við sjálfan sig, söguna og raunveruleikann ef því er að skipta.

Borg bróður míns geymir á sjötta tug smásagna. Flestar þeirra eru í styttri kantinum og mætti jafnvel kalla nokkrar sagnanna örsögur. Sumar virðast tengjast beint og óbeint en aðrar alls ekki. Stíllinn í öllum sögunum er svipaður, fremur absúrd og blátt áfram, og er því stundum eins og um skáldsögu sé að ræða þótt það sé auðvitað blekking. Sögurnar eru flestar sveipaðar nokkurri dulúð, segja lesandanum sumt en alls ekki allt. Það virkar í meginþorra tilvika en inn á milli leynast sögur sem segja lesandanum lítið sem ekkert og mér þótti vanta töluvert sterkari botn í.

Í sögunum er bæði búinn til ævintýraheimur og snúið upp á raunveruleikann. Bókin er algjörlega laus við alla tilgerð á sama tíma og hún er gjarnan býsna háfleyg. Það felst nautn í því að lesa þessa bók. Hún er eins og forboðinn ávöxtur, uppfull af því sem fólk hugsar en segir ekki, sem og því sem enginn virðist hugsa, nema kannski Kristín Ómarsdóttir, höfundur bókarinnar.

Hún er afkastamikill höfundur sem hefur lagt mark sitt á íslenskt bókmenntalíf í áratugi. Í Borg bróður míns snertir hún á ýmsu er varðar mannlega tilveru. Ástin er fyrirferðarmikil, gjarnan slitin úr samhengi. Þegar ástin er sýnd svona utan kerfisins sem hún er venjulega geymd í verður hún einhvern veginn skýrari, sannari, hlutlægari. Þannig öðlast ástin nýja og framandi mynd á síðum Borgar bróður míns .

Sjálfar krefja sögurnar lesandann ekki um neitt sérstakt. Þær einfaldlega leggjast á blaðsíðurnar og segja: „Hér erum við. Lítið á okkur ef ykkur hugnast svo.“ Textinn er þó svo þéttur og stundum flókinn að lesandinn eiginlega neyðist til þess að veita hverri og einni þeirra athygli. Ekki skyldi lesandinn efast um að þær séu athyglinnar verðar því það eru þær. Eiga það skilið að lesandinn kljáist við þær í huganum, hjartanu, kviðnum.

Ragnhildur Þrastardóttir