[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Andrés Magnússon andres@mbl.is Popúlísk þjóðernishyggja er undirliggjandi þráður í stjórnmálasögu Vesturlanda, sem iðulega hefur mikil áhrif á hefðbundna stjórnmálaflokka.

Dagmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Popúlísk þjóðernishyggja er undirliggjandi þráður í stjórnmálasögu Vesturlanda, sem iðulega hefur mikil áhrif á hefðbundna stjórnmálaflokka. Það hafi komið greinilega í ljós þegar danskir jafnaðarmenn tóku upp stefnu Danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum og svipaða sögu megi segja af Emmanuel Macron Frakklandsforseta, sem nú eldi grátt silfur við Breta í von um fylgi þjóðrækinna kjósenda.

Þetta er meðal þess sem stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann hefur að segja í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins í dag, sem opið er öllum áskrifendum. Í þættinum er rætt um nýútkomna bók hans, Þjóðarávarpið , sem fjallar um þróun popúlískrar þjóðernishyggju undanfarin 50 ár og vel það.

Eiríkur telur að hið frjálslynda lýðræðiskerfi Vesturlanda hafi hopað mikið undanfarna áratugi. Lýðræðið sé enn til staðar, en frjálslyndið gefið eftir, eins og sjáist t.d. á því hvernig ýmis borgararéttindi hafi verið látin víkja fyrir völdum ríkisvaldsins í nafni þess að tryggja öryggi þegnanna, hvort heldur er vegna hryðjuverkaógnar eða sóttvarna. Slíkur jarðvegur henti þjóðernispopúlistum ágætlega, sem þá skora á valdhafa og elítuna.

Aldrei náð fótfestu hér

Eiríkur segir að öfgakennd þjóðernishyggja hafi aldrei náð neinni fótfestu á Íslandi. Þjóðrækni hafi gengið þvert á íslenska stjórnmálaflokka og verið snar þáttur í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þegar uppgjör við þjóðernishyggjuna hafi átt sér stað á meginlandi Evrópu í lok seinni heimsstyrjaldar hafi Íslendingar verið uppteknir við að stofna lýðveldi á grundvelli þjóðernis og sjálfstæðrar þjóðmenningar.

Þrátt fyrir þann þjóðlega grunn eða e.t.v. vegna hans hafi þjóðernisöfgar ekki átt upp á pallborðið hér, þótt tortryggni gegn útlendingum gæti oft.

Í seinni tíð hafi skotið upp kollinum þjóðernissinnuð framboð, en engar undirtektir fengið. Hins vegar hafi orðið mikil pólitísk og félagsleg ólga eftir bankahrun og þar hefði vel getað brugðið til beggja vona og það eigi enn við í einhverjum kimum a.m.k. Eiríkur telur að miðlun og skoðanaskipti geti ýtt undir slíkt.

Hann segir að íslenskir kjósendur virðist ekki mjög móttækilegir fyrir popúlisma, mögulega vegna þess að fáir efnilegir forystumenn hafi komið fram á þeim væng stjórnmálanna, þótt vissulega hafi allir stjórnmálaflokkar gripið til popúlískra aðferða endrum og sinnum.

Eiríkur minnir á að velflestir íslenskir stjórnmálaflokkar hafi verið þjóðlegir á sinn hátt.

„Þeir þrír flokkar, sem hafa setið hér við völd, hafa verið hallir undir þjóðernishyggju. Það var gamla Alþýðubandalagið svo sannarlega og bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa talið sig vera heimkynni þjóðernishugmynda Íslendinga.

Þessi hugmyndafræði lifir hér, en hún er svo almenn og þess vegna svo mild, að þessi árásargjarna tegund þjóðernishyggjunnar hefur ekki komið upp hér.“

Hann bendir á að erlendis hafi þjóðernisflokkar náð mestum áhrifum, þar sem þeir hafi getað stillt sér upp andspænis áberandi og framandi innflytjendahópum. Þeim hafi aldrei verið til að dreifa hér á landi.