Hleypidómar Colin Firth og Jennifer Ehle.
Hleypidómar Colin Firth og Jennifer Ehle.
Á ferðum mínum um stefnumótamarkaðinn hef ég komist að því að ég virðist oftar en ekki heillast af mönnum sem eru fullir sjálfstrausts en þykja kannski heldur góðir með sig, hrokafullir jafnvel.

Á ferðum mínum um stefnumótamarkaðinn hef ég komist að því að ég virðist oftar en ekki heillast af mönnum sem eru fullir sjálfstrausts en þykja kannski heldur góðir með sig, hrokafullir jafnvel. Vinkonur mínar ranghvolfa í sér augunum þegar ég reyni að sannfæra þær um að þessir piltar séu ábyggilega ágætir inn við beinið. Ég hef velt því svolítið fyrir mér hvað ég sjái við þessa blessuðu hrokagikki en ekki komist að neinni haldbærri niðurstöðu.

Á sunnudagskvöldið, þar sem ég kúrði uppi í rúmi yfir mynd á Netflix, laust hugmynd niður í kollinn á mér: Ég er að leita að mínum eigin herra Darcy. Ég var nefnilega að horfa á kvikmyndina Pride and Prejudice frá 2005 með Keiru Knightley og Matthew Macfadyen. Þá mynd hef ég ekki séð oft en samnefnda þætti frá 1995, með Jennifer Ehle og Colin Firth, hef ég séð oftar en ég hef tölu á enda í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðgum. Herra Darcy, fyrir þá sem ekki þekkja sögu Jane Austin, virðist í fyrstu leiðinlegasti maður á jarðríki en reynist vera hið mesta gæðablóð þegar upp er staðið. Ég hef líklega alist upp við þessa trú á hið góða í manninum, sérstaklega í þessum misskildu mönnum, og hún kemur nú upp á yfirborðið og ruglar mig í ríminu.

Ragnheiður Birgisdóttir

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir