Húsið er tæplega 318 fermetrar að flatarmáli og brunabótamat er 130 m.kr.
Húsið er tæplega 318 fermetrar að flatarmáli og brunabótamat er 130 m.kr. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Öldugata 16 er nú boðin til sölu fyrir ríflega hálfan milljarð íslenskra króna. Vonast er eftir alþjóðlegum kaupendum.

Glæsihúsið Öldugata 16 í Reykjavík er auglýst til sölu á vef sænsku fasteignasölunnar Skeppsholmen Sotheby's International Realty í Svíþjóð á 4,2 milljónir Bandaríkjadala, jafngildi 545 milljóna íslenskra króna. Húsið er tæplega 318 fermetrar að flatarmáli og brunabótamat þess er rúmar 130 milljónir króna.

Í húsinu er 63,5 fm íbúð í kjallara, 106 fm íbúð á hæð og 108 fm íbúð í risi. Bílskúrinn er 40 fm. 461,3 fm lóð fylgir eigninni.

Gildandi fasteignamat eignarinnar er tæpar 144 milljónir króna og fyrirhugað fasteignamat árið 2022 er 150 milljónir króna.

Eins og nafn sænsku fasteignasölunnar ber með sér er hún rekin undir sérleyfi (e. franchise) frá hinu þekkta bandaríska uppboðsfyrirtæki Sotheby's.

Sænski fasteignasalinn Mathias Martinsson, hjá Skeppsholmen Sotheby's International Realty, segir aðspurður í skriflegu svari til ViðskiptaMoggans að húsið sé hið eina sem fyrirtækið er með í sölu á Íslandi þessa stundina. Hann segir að salan sé unnin í samstarfi við íslenskan fasteignasala sem þekki og skilji markaðinn hér heima, eins og Martinsson orðar það í tölvupósti.

Vilja nota markaðsaflið

Spurður um ástæðu þess að húsið sé boðið til sölu hjá Sotheby's segir Martinsson að eigendur hafi viljað nota alþjóðlegt markaðsafl Sotheby's til að ná til mögulegra kaupenda utan Íslands.

Spurður um mat sitt á möguleikum Íslendinga til að selja eignir sínar utan landsteinanna segist Mathias trúa því að áhugi sé til staðar, svo lengi sem eignin sé nógu „sér á báti“.

„Ég hef unnið við fasteignasölu í ólíkum löndum og málið er að heimurinn er ekki það stór og fólk er að flytja til ólíkra landa. Ég hef unnið með íslenskum kaupendum sem eru að festa kaup á húsi í útlöndum, og af hverju ætti ekki að vera hægt að snúa dæminu við [selja útlendingum íslensk hús].“

Samkvæmt fasteignaskrá er eigandi hússins Kesara Margrét Jónsson, grasafræðingur og prófessor í grasafræði og erfðafræði plantna við Háskóla Íslands.