Heiða Jóhannsdóttir fæddist 9. apríl 1972. Hún lést 18. október 2021.

Útför Heiðu fór fram 1. nóvember 2021.

Vinkona mín

sem brosir

stór og falleg

hjá sólinni í apríl.

Þú ert sú sem horfir

í fegurðarátt

meðan hlýjan læðist

í augu þín og hár.

Vinkona mín á himninum

á morgun springur sólin í maí út

og gægist um endalaust hnappagatið

á blússunni þinni.

(Steinunn Sigurðardóttir)

Ljúf og kær vinkona er fallin frá. Hugur minn er hjá fjölskyldu hennar og ungum syni, Magnúsi Kolbirni. Missir þeirra er mikill og sár.

Heiða var ein af þeim manneskjum sem gera heiminn betri og fallegri. Við kynntumst fyrst á háskólaárunum í Háskóla Íslands í gegnum sameiginlega vini. Seinna var ég svo heppin að við Heiða bjuggum í London á sama tíma þegar hún var í framhaldsnámi þar. Vinabönd styrkjast þegar dvalið er fjarri heimahögunum og á ég ótal skemmtilegar minningarnar um Heiðu frá þessum tíma.

Heiða bjó yfir einstakri hlýju og glettni. Þegar við hittumst var mikið hlegið og sprellað en líka rædd alvarleg málefni og pólitík. Og auðvitað kvikmyndir og listir. Alltaf mátti treysta dómgreind Heiðu og innsæi þegar málin voru krufin til hlítar. Heiða var kjarnyrt og hafði leiftrandi frásagnargáfu. Hversdagslegir hlutir og atvik fengu á sig töfrablæ í meðförum hennar og hún sá spaugilegu hliðarnar á tilverunni.

Heiða var mér fyrirmynd að svo mörgu leyti. Hún auðgaði líf allra sem þekktu hana. Birtan sem frá henni stafaði heldur áfram að lýsa okkur fram á veginn.

Vera Júlíusdóttir.