Kristjánsborgarhöll Þing Norðurlandaráðs var sett í gær. Áherslan nú er meiri á öryggis- og varnarmál en áður.
Kristjánsborgarhöll Þing Norðurlandaráðs var sett í gær. Áherslan nú er meiri á öryggis- og varnarmál en áður. — Ljósmynd/Norðurlandaráð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaupmannahöfn Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Þing Norðurlandaráðs var sett í gær í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn, en þetta er í 73. sinn sem þingið er haldið. Þingið er nú haldið með hefðbundnum hætti í fyrsta sinn í eitt og hálft ár, þar sem heimsfaraldurinn kom í veg fyrir að þingið í fyrra gæti farið fram heima á Íslandi, en þess í stað voru haldnir fjarfundir.

Kaupmannahöfn

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Þing Norðurlandaráðs var sett í gær í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn, en þetta er í 73. sinn sem þingið er haldið. Þingið er nú haldið með hefðbundnum hætti í fyrsta sinn í eitt og hálft ár, þar sem heimsfaraldurinn kom í veg fyrir að þingið í fyrra gæti farið fram heima á Íslandi, en þess í stað voru haldnir fjarfundir.

„Maður upplifir það eins og í öðrum félagsskap að það eru allir voða glaðir að hittast á ný,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, og bætir við að fjarfundir geti aldrei komið í stað funda í eigin persónu.

Varnar- og öryggismál eru fyrirferðarmikil í dagskrá þingsins að þessu sinni, en meðal annars munu þingmenn ráðsins og forsætisráðherrar ríkjanna ræða hvaða lærdóm Norðurlöndin geti dregið af kórónuveirukreppunni og hvernig samstarfið verði eflt upp frá þessu.

Sigurður Ingi segir að varnar- og öryggismál séu nú rædd á vettvangi Norðurlandaráðs meira en verið hefur, og segir hann það til bóta. Hann nefnir að norræna ráðherranefndin hafi fengið Jan-Erik Enestam til að gera úttekt á sameiginlegum öryggishagsmunum ríkjanna, og verður skýrsla hans tilbúin síðar í nóvember. „En þar verður meðal annars fjallað um sameiginlegt viðbragð til þess að auka öryggi og nokkra þætti þess, eins og til dæmis sameiginleg innkaup á bóluefni eða búnaði, vegna þess að öll löndin eru frekar smá í alþjóðlegum skilningi, líka þau sem okkur þykja stór.“

Veikleikar komu í ljós

Hann bætir við að það sé mikill vilji til að auka samstarf ríkjanna í þessum efnum. „Í alheimsfaraldrinum komu fram veikleikar í samskiptum ríkjanna, menn lokuðu landamærum. Það eru ákveðin særindi eftir það, og löngun til þess að gera betur, án þess að skerða fullveldisrétt einstakra ríkja til að verja sig,“ segir Sigurður Ingi. „Á þeirri vegferð okkar að svæðið verði bæði sjálfbærasta og samþættasta svæði heimi árið 2030 má það ekki gerast að fólk sem búi í einu landi og vinni í öðru komist ekki yfir landamærin.“

Meðal þess sem rætt var á þinginu í gær voru fjárlög Norðurlandaráðs fyrir næsta ár, sem og rammi fyrir fjárlög til næstu fjögurra ára. Það er nýjung sem Sigurður Ingi segir vera mjög til bóta. „Það hefur verið talsvert samtal á milli þingmannanna í Norðurlandaráði og svo norrænu ráðherranefndarinnar á undanförnum árum og færst vaxandi þungi í það, þar sem Norðurlandaráð, þ.e. þingmennirnir vilja hafa meiri áhrif á fjárlögin.“ Sigurður Ingi segir að verið sé að koma þessum fjárlagaramma á, þar sem verið sé að deila sömu fjárhæðum á fleiri hluti en áður. „Kannski verður áskorunin sú að það þurfi meiri fjárhæðir í þetta, þær hafa verið föst tala, en hlutfallslega farið minnkandi.“