Beðið eftir viðgerð á Ókindinni í leikritinu Hákarlinn er bilaður, sem nú er sýnt í London. Þar leikur Ian Shaw föður sinn Robert.
Beðið eftir viðgerð á Ókindinni í leikritinu Hákarlinn er bilaður, sem nú er sýnt í London. Þar leikur Ian Shaw föður sinn Robert. — Ljósmynd/Helen Maybanks
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndin Ókindin sló í gegn um miðjan áttunda áratuginn og hrelldi margan áhorfandann. Nú hefur sonur eins af aðalleikurunum gert leikrit um gerð myndarinnar og er sjálfur í hlutverki föður síns. Karl Blöndal kbl@mbl.is

Fyrir fimm árum leit Ian Shaw í spegil og sá fyrir sér Quint, hrjúfa sjómanninn úr kvikmyndinni Ókindinni eða Jaws. Honum hafði oft verið sagt að hann væri líkur föður sínum, leikaranum Robert Shaw, sem var frægur fyrir hlutverk sín í myndum á borð við The Sting, Með ástarkveðju frá Rússlandi og kannski einkum og sér í lagi Ókindinni þar sem hann lék Quint. Ian er líka leikari og hafði látið sér vaxa yfirskegg vegna hlutverks, sem hann var að undirbúa, og sá að hann var sláandi líkur honum. Hann grennslaðist fyrir og sá að hann var líka á svipuðum aldri og faðir hans þegar Ókindin var gerð eða 47 ára. Og honum datt í hug að hvort hann ætti að leika föður sinn, en vísaði hugmyndinni jafnharðan frá sér, enda hafði hann alltaf forðast tenginguna við föður sinn.

Þannig lýsir Ian hvernig það kom til að hann ákvað að gera leikritið Hákarlinn er bilaður (The Shark Is Broken), sem var fyrst sýnt á jaðarleikhúshátíðinni Edinburgh Fringe fyrir tveimur árum og er nú sýnt í London og verður þar á fjölunum fram í janúar hið minnsta.

Stormasöm samskipti

Í leikritinu er samskiptum aðalleikaranna þriggja í kvikmyndinni lýst, þeirra Roberts Shaws, sem lék skipstjórann Quint, Richards Dreyfuss, sem lék sjávarlíffræðinginn Hooper, og Roys Scheiders, sem var í hlutverki lögreglustjórans Brodys í smábænum á Long Island þar sem risastór hákarl gerir vart við sig í vígahug einmitt þegar mesta ferðahelgi sumarsins er fram undan. Ian leikur föður sinn í leikritinu, Liam Murray Scott leikur Dreyfuss og Demetri Goritsas túlkar Scheider.

Shaw var þeirra þekktastur þegar myndin var tekin árið 1974 á eyjunni Martha's Vineyard undan ströndum Massachusetts. Hún var byggð á samnefndri metsölubók eftir höfundinn Peter Benchley.

Ian Shaw vissi að samskipti aðalleikaranna hefðu stundum verið stormasöm. Þá gekk líka ýmislegt á við gerð myndarinnar. Hákarlinn, sem kallaður var Bruce á settinu, bilaði og urðu tafir á tökum á meðan verið var að gera við hann.

Ian lagðist í dagbækur, sem faðir hans hélt á árunum áður en Ókindin var gerð. Þar fer mikið púður í að lýsa glímu hans við áfengi. Einnig nýtti hann bókina The Jaws Log, sem handritshöfundurinn Carl Gottlieb skrifaði um gerð myndarinnar, og fleiri heimildir. Leikritið Hákarlinn er bilaður skrifaði hann ásamt gömlum vini sínum, Joseph Nixon.

Drykkjuskapur og rifrildi

Á ýmsu gekk við tökur myndarinnar. Shaw drakk mikið meðan á þeim stóð og Steven Spielberg hefur talað um að milli hans og Dreyfuss hafi verið mikill rígur að tjaldabaki.

Dreyfuss hefur einnig lýst tökunum. „Hann var voldugur persónuleiki,“ sagði Dreyfuss um Shaw. „Prívat var hann besti, blíðasti, fyndnasti náungi sem til var. Svo gengum við á tökustað og á leiðinni var eins og hann yrði andsetinn af illu trölli, sem gerði mig að fórnarlambi sínu.“ Ekki bötnuðu samskiptin þegar Dreyfuss einn daginn fékk nóg af drykkjuskapnum, hrifsaði viskíglas af Shaw og henti því út í sjó.

Shaw gerði ítrekað lítið úr Dreyfuss og reyndi að niðurlægja hann með ágengum athugasemdum rétt áður en byrjað var að taka. Hann reyndi líka að egna hann til ýmissa uppátækja og í eitt skipti klifrað Dreyfuss upp í bátsmastur og kastaði sér út í sjó að áeggjan Shaws.

Í viðtali við The Times fyrir tveimur árum rifjaði Ian upp að hann myndi eftir að hafa farið á tökustað ásamt móður sinni, Mary Ure, þegar verið var að taka Ókindina, þá fjögurra ára. „Það var bara venjulegt. Pabbi minn var í vinnunni. Það er mjög leiðinlegt á tökustað kvikmynda, maður fær bara verk í afturendann af sitja og bíða. Ég man þó eftir að hafa hitt hákarlinn og einn tæknimaðurinn sýndi mér framan í Bruce. Þá var ég hræddur.“

Missti foreldrana ungur

Móðir Ians var alkóhólisti eins og faðir hans og hún lést árið 1975, aðeins 42 ára. Hún tók ofskammt af lyfjum og drakk of mikið ofan í þau eftir frumsýningu, sem misheppnaðist hræðilega. Í ágúst 1978 lést Robert Shaw. Hann var að keyra bíl heim á leið þegar hann fékk hjartaslag. Leikarinn var 53 ára.

Ian Shaw ákvað að gerast leikari eins og foreldrar hans eftir að hann missti föður sinn og lærði leiklist. Hann hefur fengið ýmis hlutverk, bæði á sviði og í sjónvarpsþáttum, en aldrei orðið stjarna. Þegar hann eignaðist son sinn fyrir tíu árum vann hann sem bréfberi til að ná endum saman.

Eins og Hamlet þegar hann sér drauginn

Í viðtalinu við Ian í The Times kemur fram að árið 1994 hafi hann farið í prufu fyrir hlutverk Hórasar í Hamlet eftir Shakespeare í Birmingham Rep. Dreyfuss var leikstjórinn. Hann áttaði sig ekki á að ekki hefði allt leikið í lyndi milli leikstjórans og föður hans og sagði Dreyfuss hverra manna hann væri. „Hann leit út eins og Hamlet þegar hann sér drauginn,“ sagði Ian. Hann fékk ekki hlutverkið.

Í leikritinu hákarlinn er bilaður eiga leikararnir þrír að sitja í bátnum og bíða eftir að tökur geti hafist. Spennan vex og hjaðnar á milli þeirra og hefur leikritið fengið góðar umsagnir.

Heimildir: The New York Times, The Times, The Telegraph, Time Out, The Sun.