Líf „Aldur á ekki að skipta máli nema maður sé ostur eða fiskur. Ef líf og heilsa leyfir þá er maður alltaf á besta aldri,“ segir Örn Árnason.
Líf „Aldur á ekki að skipta máli nema maður sé ostur eða fiskur. Ef líf og heilsa leyfir þá er maður alltaf á besta aldri,“ segir Örn Árnason. — Ljósmynd/Atli Þór Alfreðsson
„Sýningin átti upphaflega að vera eitt langt skemmtiprógramm, en hefur smám saman breyst yfir í það að vera mun persónulegri og ljúfsárari sýning. Mig langaði til að sækja á djúpið og hleypa fólki aðeins nær mér.

„Sýningin átti upphaflega að vera eitt langt skemmtiprógramm, en hefur smám saman breyst yfir í það að vera mun persónulegri og ljúfsárari sýning. Mig langaði til að sækja á djúpið og hleypa fólki aðeins nær mér. Það má því lýsa þessu sem nokkurs konar lífsskoðun leikara þar sem ég horfist í augu við sjálfan mig, ferilinn og ýmsa góðkunningja sem hafa fylgt mér og íslensku þjóðinni í gegnum árin, rifja upp gömul og góð kynni og horfir fram á veginn,“ segir Örn Árnason um sýninguna Sjitt ég er 60+ sem hann frumsýnir í Leikhúskjallara Þjóðleikhússins í kvöld kl. 19.

Sýningin átti upphaflega að fara á svið snemma árs 2020, en frestaðist vegna heimsfaraldursins. „Í millitíðinni er ég því orðinn 62 ára,“ segir Örn og tekur fram að auðvitað sé hann og hafi alltaf verið á besta aldri. „Mér finnst samt svolítið skrýtin tilhugsun að ég eigi aðeins fimm ár í að verða löggilt gamalmenni. Tíminn fer að styttast í annan endann til að gera eitthvað skemmtilegt, en þessi sýning er fyrst og fremst hugsuð til að skemmta sjálfum mér og gera ýmislegt sem ég hef ekki fengið að gera upp á hinu stóra sviði. Ég hef til dæmis aldrei leikið Hamlet,“ segir Örn og tekur fram að sér hafi fundist áhugavert að máta einræður Hamlets við sinn aldur. „Svo syng ég líka töluvert í sýningunni, meðal annars nýtt Eurovisionlag,“ segir Örn og tekur fram að honum til halds og trausts sé Jónas Þórir Þórisson píanóleikari, en þeir hafa unnið töluvert saman í gegnum árin.

Leikhúsið veitir næringu

„Mér finnst George Bernard Shaw hafa hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Við hættum ekki að leika okkur af því að við verðum gömul. Við verðum gömul ef við hættum að leika okkur.“ Þessi setning hefur verið leiðarljósið í þessu uppistandi mínu,“ segir Örn og tekur fram að sýningin sé bæði lausbeisluð og organísk.

„Aldur á ekki að skipta máli nema maður sé ostur eða fiskur. Ef líf og heilsa leyfir þá er maður alltaf á besta aldri,“ segir Örn. Ekki er hægt að sleppa Erni án þess að spyrja hvernig Leikhúskjallararinn henti sem sýningarrými fyrir uppistandið. „Þetta er frábært rými og gott að vera hérna. Það er líka notalegt að hafa áhorfendur svona nálægt sér,“ segir Örn en áhorfendur sitja við borð sem dreift er kringum sviðið. „Leikhúsið, það að koma fram og tala við fólk og skemmta hefur alltaf gefið mér mikla næringu. Sumum leikurum finnst erfitt að koma fram, en það hef ég aldrei upplifað. Ég kem alltaf endurnærður heim eftir leiksýningar.“ silja@mbl.is