Fjölbreytileg Hér má sjá nokkur verka Þorvaldar á sýningunni, „Kvöldferð“ (1987), „Fyrirbænastól“ (2004) og svo „Maríumyndir“ (1996).
Fjölbreytileg Hér má sjá nokkur verka Þorvaldar á sýningunni, „Kvöldferð“ (1987), „Fyrirbænastól“ (2004) og svo „Maríumyndir“ (1996). — Ljósmynd/Áslaug Íris
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í aðalsal Hafnarborgar á efri hæðinni verður á morgun, sunnudag, kl. 14 opnuð sýningin Lengi skal manninn reyna , yfirlitssýning á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson (1960-2013) í sýningarstjórn Ágústu Kristófersdóttur og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur.

Í aðalsal Hafnarborgar á efri hæðinni verður á morgun, sunnudag, kl. 14 opnuð sýningin Lengi skal manninn reyna , yfirlitssýning á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson (1960-2013) í sýningarstjórn Ágústu Kristófersdóttur og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur. Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafnið á Akureyri og eignasafn Þorvaldar Þorsteinssonar. Á sýningunni getur að líta fjölbreytt úrval verka; skúlptúra, innsetningar, málverk og myndbandsverk og fleira sem varpa ljósi á þennan fjölhæfa listamann og það hvernig hann vann verk sín í tengslum við samfélagið. Þorvaldur hefði orðið sextugur þann 7. nóvember 2020.

Helena Jónsdóttir verður með forleiðsögn um sýninguna klukkan 13.

Afkastamikill og fjölhæfur

Þorvaldur Þorsteinsson var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í listsköpun. Auk þess að fást við myndlist samdi hann skáldsögur, leikrit, ljóð og tónlist og varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991 og síðar sýnt í sjónvarpi. Skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út árið 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu sem söngleikur árið 1993. Fjórar bækur Þorvaldar um Blíðfinn hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Borgarleikhúsið setti upp leikrit hans And Björk, Of Course... árið 2002. Hann hélt fjölmargar einkasýningar, jafnt á Íslandi sem erlendis, og tók þátt í alþjóðlegum samsýningum víða um heim.

Áhersla á húmor og næmi

Í samtali í Morgunblaðinu þegar fyrri útgáfa sýningarinnar var sett upp í Listasafninu á Akureyri í fyrra sagði annar sýningarstjórinn, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, að í vali verkanna væri lögð áhersla á „húmorinn og næmi Þorvaldar á samfélagið og einstaklinginn“. Þess má geta að í Hafnarborg verða að hluta sýnd verk sem voru ekki fyrir norðan, til að mynda úrval alls kyns skissa og teikninga Þorvaldar.

Guðrún Pálína sagði aðdragandann að sýningunni hafa verið langan en skipulagning hennar hófst árið 2017 þegar setja átti upp smærri sýningu með verkum Þorvaldar.

Mikill hluti verkanna er úr eigu Helenu, ekkju Þorvaldar. „Hún kom með mikið af nýjum verkum sem ekki hafa verið sýnd hér og flest þeirra hefur enginn séð nema þau tvö,“ sagði Guðrún Pálína.

„Sýningin spannar feril Þorvaldar og sýnir fjölbreytileika hans og hugsanir. Hann hafði einstakt skopskyn og næmi fyrir staðsetningu og hlutverki einstaklingsins í samfélaginu.“ Og hún nefndi sem dæmi myndaseríuna „A-vaktina“, sem er í eigu Slökkviliðs Reykjavíkur og sýnir alla vega búninga tengda slökkviliðinu. „Hann sýnir hvað viðhorf okkar gagnvart einhverjum breytast eftir því hvort hann er í einkennisbúningi eða ekki. Hann vinnur með þetta með einstöku næmi.“

Margir kannast við titil sýningarinnar, Lengi skal manninn reyna . Þorvaldur notaði þetta orðatiltæki í Ósómaljóðum sínum sem eru þekkt í flutningi Megasar. „Þegar við þurftum að finna titil á sýninguna þá vildum við hafa eitthvað sem væri tengt einhverju sem hann hafði gert og þetta varð fyrir valinu eftir miklar vangaveltur,“ sagði Guðrún Pálína um tilurð titilsins.