Tónskáld Sálmar eftir Hildigunni Rúnarsdóttur hljóma í Fríkirkjunni.
Tónskáld Sálmar eftir Hildigunni Rúnarsdóttur hljóma í Fríkirkjunni. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óperudagar hafa staðið yfir undanfarnar vikur með fjölmörgum viðburðum. Um helgina verður boðið upp á tvo viðburði. Í dag, laugardag, kl. 14 verða í Norðurljósum í Hörpu tónleikarnir „Ljóð fyrir loftslagið“.

Óperudagar hafa staðið yfir undanfarnar vikur með fjölmörgum viðburðum. Um helgina verður boðið upp á tvo viðburði. Í dag, laugardag, kl. 14 verða í Norðurljósum í Hörpu tónleikarnir „Ljóð fyrir loftslagið“. Á Óperuhátíðinni fyrir tveimur árum var sú yfirskrift meginþemað og var þá efnt til ljóðakeppni fyrir grunnskólanema. Um 400 börn sendu inn ljóð um náttúruna, loftslagið, framtíðarsýn sína og drauma og hlutu nokkur verðlaun. Í kjölfarið voru nokkur ung norræn tónskáld fengin til að semja verk við sum ljóðin. Nýju verkin verða frumflutt á tónleikunum í Norðurljósum í dag og hljóðrituð.

Tónverkið The Little Match Girl Passion eftir bandaríska tónskáldið David Lang verður síðan flutt á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík á morgun, sunnudag, kl. 17. Verkið er byggt á ævintýri H.C. Andersens um litlu stúlkuna með eldspýturnar en tónlistin er undir áhrifum af Mattheusarpassíu J.S. Bachs. Einnig verða fluttir sálmar eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Flytjendur eru Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Oddur Arnþór Jónsson barítón og Guja Sandholt mezzósópran.

Efla óperusenuna á landinu

Guja Sandholt er líka listrænn stjórnandi Óperudaga og hún segir að þar sé í mörg horn að líta, enda fjöldi viðburða á dagskrá.

„Við sjálfstætt starfandi söngvarar og samstarfsfólk okkar höfum síðan 2016 staðið fyrir Óperudögum til þess að efla óperusenuna á Íslandi og stuðla að allskyns viðburðum sem beina sjónum að starfi klassískra söngvara,“ segir Guja um markmiðið með hátíðinni.

„Okkur finnst hafa vantað vissa breidd á þessu sviði. Það er frábært að geta farið á stórar óperusýningar, eins og hjá Íslensku óperunni, en það hefur vantað einfaldari uppsetningar samhliða.

Á Óperudögum eru mjög fjölbreytilegir viðburðir, ekki bara óperur heldur vinnum við með klassíska sönglist á marga vegu. Við reynum til dæmis að tengja hana við málefni líðandi stundar, eins og með þessum viðburði núna, „Ljóð fyrir loftslagið“. Við notum sönglistina til að miðla á margvíslegan hátt.“

Guja segir aðsókn á hátíðina hafa verið mjög góða og húsfylli á flestum viðburðum. „Við erum í samstarfi við marga og ólíka aðila til að vekja athygli á starfi klassískra söngvara. Á árinu eru nærri því 60 viðburðir, í samstarfi eða á okkar vegum. Það sýnir vel hvað gróskan er mikil á þessari senu.“ efi@mbl.is