[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lengi var ég alveg hræðilega snobbuð í lestrarvali og las helst bara merkilega löngu liðna karla.

Lengi var ég alveg hræðilega snobbuð í lestrarvali og las helst bara merkilega löngu liðna karla. Svo þegar ég var að ljúka háskólanámi, að læra fyrstu skrefin í móðurhlutverkinu og komin með leið á óþarfa háfleygni og sjálfhygli, hafði kannski öðlast einhvers konar sjálfsþekkingu, þá uppgötvaði ég mér til undrunar og allnokkurrar ánægju að ég samsamaði mig bara við skáldsögur eftir konur. Það er eiginlega enn þá þannig, þótt ég eigi það til að álpast inn í stöku bók eftir karl, og þá er það alltaf jafn mikil uppgötvun og í fyrsta skiptið, hvað bókin er dásamlega djúp, góð og skemmtileg.

Hallgrímur Helgason er líklega einn af fáum karlrithöfundum sem hefur tekist jafn vel til við kvenpersónur sínar. Nú viðurkenni ég að hafa logið hér í upphafi, ég man eftir að hafa á menntaskólaárunum skellt upp úr og hágrátið með annarri hverri persónu úr bókum hans og nú get ég ekki beðið eftir að finna ró og næði til að eiga með nýjustu bókinni hans, Sextíu kíló af kjaftshöggum . Önnur bók sem mig klæjar eftir að lesa er Merking hennar Fríðu Ísberg en ég féll kylliflöt fyrir ljóðum hennar og smásögum, Kláða , Slitförum og Leðurjakkaveðri , það er eiginlega skylda okkar allra að lesa þessi verk.

Það er mjög spennandi að sjá hvernig íslenskum raunveruleika eru gerð skil í þessari framtíðarsýn sem ég hef heyrt að Merking sé, en dystópíubókmenntir eftir kvenrithöfunda eru án efa áhugaverðasta samfélagsgreining okkar tíma. Og nú verð ég bara að segja frá sjálfri drottningu dystópíanna, Octaviu Butler (1947-2006) og bók hennar The Parable of the Sower frá árinu 1993. Það er ekki nóg með að hún hafi komið vísindaskáldsögum á bókmenntakortið, heldur skrifaði hún um kynþáttafordóma, kynusla og aðlögunarhæfileika mannkyns á undan öllum öðrum, spáði fyrir um bandarísk stjórnmál og fjallaði um loftslagshamfarir og lyfjaiðnaðinn, nokkuð sem talar svo sannarlega til okkar í dag. Og viti menn, það er framhald, Parable of the Talent kom út rétt fyrir aldamótin. Það er líklega sú bók sem ég iða hvað mest í skinninu eftir að lesa, en það er svo merkilegt að það eru erfiðustu bækurnar sem tala hvað mest til mín, þær sem ógerningur er að leggja frá sér á sama tíma og tilfinningarnar velkjast um í rússíbana upp á líf og dauða. Og lýsi ég því hér með yfir vilja til að þýða báðar bækur Butler, ef hugrakkur útgefandi skyldi vera að lesa þessi orð.