Herdís Anna Jónasdóttir í hlutverki Víólettu í óperunni La Traviata, sem sýnd verður í Hofi á Akureyri næstu helgi.
Herdís Anna Jónasdóttir í hlutverki Víólettu í óperunni La Traviata, sem sýnd verður í Hofi á Akureyri næstu helgi. — Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir
Óperan La Traviata eftir Verdi verður sett upp á Akureyri 13. og 14. nóvember.

Þegar óperan La Traviata var frumflutt í Feneyjum í mars árið 1853 bauluðu áhorfendur og daginn eftir skrifaði tónskáldið, Giuseppi Verdi, bréf til vinar síns og var í öngum sínum: „La Traviata féll í gærkvöldi. Var það mér að kenna eða söngvurunum? Tíminn mun leiða það í ljós.“

Þegar La Traviata, sem merkir hin fallna kona, var næst sett upp rúmu ári síðar ætlaði allt að ganga af göflunum vegna fagnaðarláta og hefur óperan reynst ein sú vinsælasta í sögunni. Fáar óperur hafa verið færðar jafn oft upp og hún.

Um næstu helgi verður La Traviata í uppsetningu Íslensku óperunnar sett á fjalirnar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Óperan verður sýnd 13. nóvember og vegna mikillar eftirspurnar var bætt við aukasýningu í Hofi sunnudaginn 14. nóvember klukkan 16. Óperan er flutt í Hörpu nú um helgina.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar, að uppsetningin marki tímamót í íslenskri menningarsögu og ávinningurinn af henni fyrir listalíf landsfjórðungsins sé ómetanlegur.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sér um tónlistina í Eldborg og Hofi undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Önnu-Mariu Helsing. Í sýningunni eru einnig dansarar og 30 manna kór Íslensku óperunnar. Herdís Anna Jónasdóttir fer með hlutverk Víólettu í óperunni.