Reynsla Argentínumaðurinn þaulreyndi Nicolás Richotti með boltann í leiknum gegn Tindastóli í Njarðvík í úrvalsdeild karla í gærkvöldi.
Reynsla Argentínumaðurinn þaulreyndi Nicolás Richotti með boltann í leiknum gegn Tindastóli í Njarðvík í úrvalsdeild karla í gærkvöldi. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í gærkvöldi.

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í gærkvöldi. Eftir tap gegn Grindavík í síðustu umferð komst Tindastóll aftur á beinu brautina með sigri í Njarðvík og sá um leið til þess að heimamenn í Njarðvík máttu þola þriðja tap sitt í röð í deildinni.

Gestirnir af Sauðárkróki byrjuðu leikinn frábærlega og leiddu með 11 stigum, 28:17, að loknum 1. leikhluta. Í 2. leikhluta tóku heimamenn leikinn alfarið yfir og jöfnuðu metin áður en fyrri hálfleikurinn var úti, 41:41. Gífurlegt jafnræði var með liðunum stærstan hluta síðari hálfleiks þar sem Tindastóll leiddi með aðeins þremur stigum, 65:62, að loknum 3. leikhluta. Agaður 4. leikhluti Stólanna, þar sem Njarðvík náði mest að minnka muninn niður í fjögur stig, leiddi hins vegar til þess að gestirnir unnu að lokum sterkan 83:74-sigur.

Javon Bess var stigahæstur hjá Tindastóli með 22 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var öflugur með tvöfalda tvennu; 15 stig og 10 fráköst. Fotios Lampropoulos var stigahæstur Njarðvíkinga með 18 stig.

Grindavík aftur á toppinn

Grindavík vann þá öruggan 100:84-sigur á nýliðum Breiðabliks í Grindavík í deildinni í gærkvöldi og fór með honum aftur á topp deildarinnar.

Tónninn var strax gefinn í fyrri hálfleik þegar Grindavík leiddi 30:19 að loknum 1. leikhluta. Eftir að hafa leitt með 15 stigum, 59:44, í leikhléi keyrðu Grindvíkingar áfram yfir Blika og náðu mest 27 stiga forystu, 76:49, í 3. leikhluta. Eftir það náðu Blikar að laga stöðuna nokkuð en skaðinn var skeður.

Ivan Aurrecoechea fór einu sinni sem oftar á kostum í liði Grindavíkur og skoraði 28 stig. Skammt undan var Kristófer Breki Gylfason sem átti einnig frábæran leik og skoraði 26 stig fyrir Grindavík. Sinisa Bilic var öflugur í liði Breiðabliks og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 20 stig og tók 10 fráköst.