Nýja varðskip Landhelgisgæslunnar, Freyja, kemur til heimahafnar sinnar á Siglufirði í dag. Það lagði af stað frá Rotterdam fyrr í vikunni en þyrla frá Gæslunni mun koma til móts við skipið í dag og fylgja því til hafnar.
Einnig mun björgunarskipið Sigurvin fylgja Freyju síðasta spölinn, auk fleiri skipa Landsbjargar, og þá mun bílalest viðbragðsaðila aka frá Strákagöngunum til Siglufjarðar á meðan nýja varðskipið siglir eftir firðinum.
Freyja mun leggjast að Hafnarbryggju um kl 13. Þar taka á móti skipinu Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, og fleiri gestir. Bæjarbúar eru einnig boðnir velkomnir en að lokinni blessun skipsins og ræðuhöldum verður Freyja almenningi til sýnis til kl. 16.
Varðskipið er smíðað árið 2010, er 86 metra langt og 20 metra breitt, og gegndi fyrstu árin þjónustu fyrir olíuiðnaðinn. Heimahöfn þess verður Siglufjörður.