Mynd af verkinu „Álfar“ eftir Andy Warhol með merki Listasafns falsana yfir. Eða kannski mynd af afriti af verkinu.
Mynd af verkinu „Álfar“ eftir Andy Warhol með merki Listasafns falsana yfir. Eða kannski mynd af afriti af verkinu. — AFP
Listasafn falsana nefnist hugarfóstur listasmiðjunnar MSCHF, sem hefur aðsetur í Brooklyn í New York.

Listasafn falsana nefnist hugarfóstur listasmiðjunnar MSCHF, sem hefur aðsetur í Brooklyn í New York. Nýjasta uppátæki MSCHF var að selja 999 eftirlíkingar af teikningu eftir listamanninn Andy Warhol ásamt upprunalegu teikningunni án þess að kaupandinn vissi hvað hann hefði í höndunum.

MSCHF er vitaskuld borið fram „mischief“ og mætti þýða bellibrögð.

Á vefsíðunni museumofforgeries.org segir að MSCHF hafi keypt kúlupennateikningu eftir Warhol frá 1954 á 20 þúsund dollara (2,5 milljónir króna). Myndin er einföld, sýnir þrjár kvenverur dansa og heitir „Álfar“. Fyrir nokkrum árum var sama mynd seld hjá uppboðshúsinu Christie's og fór á 8.000 dollara. Kaupendurnir forrituðu róbóta til að teikna myndina aftur og aftur á blað af sömu stærð og listamaðurinn notaði með sams konar bleki. Pappírinn var síðan meðhöndlaður þannig að ekki sæist munur á honum og pappírnum með upprunalega listaverkinu.

Á vefsíðu þeirra má sjá myndskeið af því hvernig þjarkinn teiknar myndirnar og notast er við ljós, hita, þrýsting og raka til að gera pappírinn ellilegan. Alls voru gerð 999 eintök. Upprunalega verkinu var síðan stungið í bunkann og segjast þeir, sem að gerningnum stóðu, ekki vita hvar það endaði.

„Ég held að gæti forvörður skoðað teikningarnar hlið við hlið gæti hann að lokum fundið upprunalegu teikninguna,“ sagði Kevin Wiesner, félagi í MSCHF, í tölvupósti til AFP. „En það er ólíklegt að það muni nokkurn tímann gerast.“

Teikningarnar þúsund voru síðan seldar á netinu á 250 dollara hver undir yfirskriftinni „Mögulega raunverulegt afrit af „Álfum“ eftir Andy Warhol“ og seldust upp á augabragði. Kaupandinn á mynd, sem gæti verið eftir Warhol, en er þó líkast til eftirmynd.

Á heimasíðu MSCHF segir að tilgangurinn með þessu sé að gagnrýna hugmyndir sem gegnsýri markaðinn um að allt þurfi að vera „upprunalegt“ og „einstakt“. Afrakstur seljendanna eftir gjörninginn er 250.000 dollarar fyrir verk, sem kostaði þá 20.000 dollara.

„Markmið okkar er að „eyðileggja“ teikninguna með því að eyðileggja ábyrgðarkeðjuna,“ sagði Wiesner.

Á heimasíðunni segir að listaheimurinn með stóru A-i sé mun uppteknari af upprunavottunum en fagurfræði. Það hafi ítrekað sannað sig með sölu á hugmynda-, eða konseptverkum, sem séu seld fyrst og fremst sem skjöl og skrásetning.

Sem dæmi um það er salan á stafræna verkinu „Hvunndagar“ eftir listamanninn Bleeper eða Michael Winkelman sem seldist á 60 milljónir dollara fyrr á árinu og kaupandinn fékk í hendur vottorð í bálkakeðjunni um að hann ætti hið upprunalega verk. Hver sem er getur hins vegar prentað verkið út þótt ekki eigi hann upprunavottorð.

Á heimasíðunni segir enn fremur að með upprunavottun séu líf og tímar tiltekins verks skrásett, hver hafi átt það, hvar það hafi verið sýnt og hverjum selt. Þetta hafi getið af sér heila atvinnugrein forvarða og rannsakenda.

„Með því að falsa „Álfana“ í bunkum höfum við rústað slóð upprunavottunarinnar,“ stendur þar. „Þótt það sé óskemmt höfum við komið í veg fyrir að í framtíðinni megi treysta á sannleiksgildi verksins. Með því að grafa nálina í nálahrúguna höfum við gert frummyndina að jafnmikilli fölsun og allar eftirlíkingarnar okkar.“

Listasmiðjan MSCHF var stofnuð árið 2016 og hún tekur iðulega fyrir listaverk eða söluvöru. Í vor gerði hún „Satansskóinn“ í samstarfi við rapparann Lil Nas X. Sett voru í sölu 666 sérhönnuð pör af svörtum Nike Air Max 97-skóm. Á þeim var fimm arma stjarna úr bronsi, vers úr Biblíunni um fall Satans og dropi af mannablóði, sem blandað hafði verið saman við rautt blek í sólanum.

Nike höfðaði mál vegna brots á vörumerkjarétti. MSCHF gerði sátt við íþróttavöruframleiðandann og kallaði inn skóna, sem seldir höfðu verið.