Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Eftir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson: "Hvernig dettur borgaryfirvöldum í hug að bjóða íbúum og umhverfi við Bústaðaveg og nærliggjandi svæði upp á þessa fráleitu skipulagstillögu?"

Það sem einkennt hefur skipulagsstefnu borgarinnar síðustu árin er tillitsleysi og yfirgangur gagnvart íbúum víðsvegar í borginni og rótgrónu umhverfi þeirra. Þetta upplifa borgarbúar, ekki síst þeir sem ferðast reglulega um borgina. Nú nýlega voru kynntar tillögur meirihluta borgarstjórnar, sem hann kýs að nefna „vinnutillögur á frumstigi“, um nýja byggð við Bústaðaveginn, milli Grensásvegar og Réttarholtsvegar, þ.e. um 17 byggingar þétt meðfram Bústaðaveginum og ekki síst þétt við núverandi gróna byggð á þessu svæði.

Fráleit skipulagstillaga

Hvernig dettur borgaryfirvöldum í hug að bjóða íbúum og umhverfi við Bústaðaveg og nærliggjandi svæði upp á þessa fráleitu skipulagstillögu. Ljóst er að meirihlutanum líður illa með þá staðreynd að nánast einungis hafa verið byggðar háreistar blokkarbyggingar í Reykjavík undanfarin ár og nú eigi að bæta úr því með skipulagstillögunni við Bústaðaveg. Einungis örfáum lóðum hefur verið úthlutað eða byggingarréttur seldur undir sérbýli á þessu kjörtímabili sem senn lýkur. Fyrirliggjandi tillögur um ofurþéttingu byggðar snúa ekki eingöngu að Bústaðavegi. Ekki tekur betra við þegar meirihlutinn sýnir nú hugsanleg áform um afar þétta uppbyggingu háhýsa meðfram Miklubraut og Háaleitisbraut.

Alvarleg gagnrýni

Skipulagstillögur um byggingu 17 2ja hæða húsa við Bústaðaveg hafa lítillega verið kynntar íbúum á nærliggjandi svæðum, sem hafa almennt lagst mjög ákveðið gegn þessum áformum borgaryfirvalda. Fullyrt hefur verið af hálfu borgarinnar að aðallega einsleitur hópur íbúa í Fossvogshverfi, 60 ára og eldri, hafi tjáð sig um tillögur að uppbyggingunni við Bústaðaveg og gagnrýnt hana alvarlega. Nú eigi að kynna hana yngri aldurshópum sérstaklega.

Meirihluti borgarstjórnar undir forystu þeirra fjögurra flokka sem nú stjórna borginni ber að sjálfsögðu alla ábyrgð á þessum tillögum. Fjölmargir íbúar í Fossvogshverfi hafa þegar gagnrýnt tillögurnar alvarlega, ekki einungis íbúar 60 ára og eldri í hverfinu. Full ástæða er til að minna á að 60+ eru um 30% þeirra sem hafa kosningarétt í Reykjavík.

Er gagnrýni íbúa 60 ára og eldri ómarktæk?

Það er auðvitað þýðingarlaust í augum borgaryfirvalda að hlusta meir á íbúa 60+ í hverfinu og nú á sérstaklega að kynna málið fyrir yngri íbúum. Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur fram til þessa ekkert gert með gagnrýni og andmæli íbúa yfirleitt. Það þekkja íbúarnir við Furugerði 23 og einnig íbúar í Skerjafirði sem mótmæltu harðlega fyrirhugaðri byggingu 700 íbúða milli flugvallar og eldri byggðar í Skerjafirði. Ekkert tillit var tekið til mótmæla þeirra.

Megináhersla meirihlutans á byggingu íbúða í fjölbýli

Borgarstjóri lýsti því yfir í viðtali við Ríkisútvarpið nýlega að metfjöldi íbúða væri í byggingu á þessu ári í Reykjavík eða u.þ.b. 1.100 íbúðir. Ekki kom fram á hvaða byggingarstigi þessar íbúðir væru en langflestar þeirra í fjölbýli. Árið 1988 var lokið við að byggja 1.277 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, þar af tæplega 900 íbúðir í Reykjavík, sem skiptist nokkuð jafnt í sérbýli og fjölbýlishús. Þetta var fyrir 33 árum. Frá og með árinu 1982 til og með árinu 1994 var úthlutað lóðum fyrir rúmlega 5.500 íbúðir undir íbúðarhúsnæði í Reykjavík, þar af um 2.700 í fjölbýli og 2.800 í sérbýli. Borgarstjóri kynnti nýlega áform borgarinnar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni næsta áratuginn. Þar er fyrst og fremst um að ræða byggingu íbúða í fjölbýli, víða í hávöxnum íbúðaturnum og þéttleiki byggðarinnar afar mikill, eins og dæmin sýna þegar víða í borginni. Á svipuðum tíma kynntu borgaryfirvöld íbúum í Bústaðahverfi tillögu að ofurþéttingu byggðar við Bústaðaveginn. Vonandi verður þessari árás meirihlutans á Bústaðaveginn hrundið. Baráttan er rétt að byrja.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson