Brúin Sænskur landamæravörður á Eyrarsundsbrúnni gætir þess að enginn komist yfir í desember 2020. Lokanir á landamærum norrænu ríkjanna voru mikið ræddar á þingi Norðurlandaráðs í vikunni.
Brúin Sænskur landamæravörður á Eyrarsundsbrúnni gætir þess að enginn komist yfir í desember 2020. Lokanir á landamærum norrænu ríkjanna voru mikið ræddar á þingi Norðurlandaráðs í vikunni. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norrænt samstarf Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Eitt af því sem helst var rætt á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í Kaupmannahöfn í vikunni, var hvernig norrænu ríkin hefðu brugðist við heimsfaraldrinum, og hvernig mætti bæta úr þeim veikleikum á norrænu samstarfi sem þar hefðu komið í ljós.

Norrænt samstarf

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Eitt af því sem helst var rætt á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í Kaupmannahöfn í vikunni, var hvernig norrænu ríkin hefðu brugðist við heimsfaraldrinum, og hvernig mætti bæta úr þeim veikleikum á norrænu samstarfi sem þar hefðu komið í ljós.

Þar má meðal annars nefna skort á samhæfðum viðbrögðum, auk þess sem margir lentu í vanda, þegar ríkin fóru eitt af öðru að loka landamærum sínum, og skipti þá engu þó að viðkomandi væri t.d. búsettur í Malmö í Svíþjóð og þyrfti að sækja vinnu til Kaupmannahafnar í Danmörku eða öfugt.

Bertel Haarder, fráfarandi forseti ráðsins, sagði að Norðurlöndin hefðu almennt séð staðið sig vel og tekið margar réttar ákvarðanir, en þó hefðu sumar verið ekki „eins réttar“ eða jafnvel slæmar. Vísaði Haarder m.a. til nýlegrar skoðanakönnunar, á vegum ráðsins, sem sýndi að aðeins einn af hverjum tíu íbúum norrænu ríkjanna teldu að löndin hefðu unnið vel saman í faraldrinum.

Almannavarnir til ráðherranna

Norræna ráðherranefndin fékk Jan-Erik Enestam, fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands, til þess að skoða þau mál, og kynnti hann drög að tillögum sínum á þinginu, en endanlegar tillögur verða lagðar fram síðar í þessum mánuði.

Enestam leggur þar meðal annars til að samstarfsráðherrum Norðurlanda verði falin ábyrgð á norrænu samstarfi um almannavarnir. Segir í drögunum að skortur sé á skýrri og árangursríki pólitískri stjórnun norræns samstarfs um almannavarnir, og að sést hafi í faraldrinum að pólitískar ákvarðanir hafi verið teknar að „miklu leyti án nokkurs samráðs eða samhæfingar milli norrænna stjórnvalda“. Þar mætti því bæta úr, annars vegar með því að stofna sérstaka ráðherranefnd, og hins vegar með því að veita samstarfsráðherrunum óskoraða ábyrgð á málaflokknum, og mælir Enestam með þeirri leið.

Enestam leggur einnig til að stofnuð verði norræn almannavarnasveit, en verkefni hennar yrði m.a. að „þróa samstarf um viðvaranir, greiningar og bráðabirgðasviðsmyndir víða um heim sem gætu leitt til ýmiss konar hættu“, sem og „að skilgreina og uppfæra stöðugt sviðsmyndir fyrir almannavá, til að mynda heimsfaraldra, óveður, flóð, skógarelda, stórfellda fólksflutninga og strauma flóttafólks“, á sama tíma og sveitin myndi einnig uppfæra áætlanir og handbækur fyrir þær sviðsmyndir.

Enestam leggur einnig til að Norðurlöndin auki áherslu á almannavarnir í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Segir í drögum hans að Norðurlöndin séu of lítil hvert um sig til að standa að öflugum almannavarnabúnaði og hagsmunagæslu með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem nú eiga sér stað í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Enestam leggur því til að spár um strauma og stefnur, greiningar, sviðsmyndagreiningar og almannavarnir í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum verði langtímaverkefni norræns samstarfs, með því markmiði að Norðurlöndin geti í sameiningu aukið árangursríkar almannavarnir og hagsmunagæslu á þessu svæði.

Ferðavottorð og vinnulöggjöf

Enestam leggur einnig til að innleitt verði samnorrænt ferðavottorð, en slíkt vottorð myndi veita fólki sem uppfyllir ákveðin skilyrði rétt til að ferðast á milli Norðurlandanna þegar ferðafrelsi er takmarkað af ófrávíkjanlegum aðstæðum.

Önnur tillaga Enestams snýr að því að löggjöf og tvíhliða samningar milli Norðurlandanna verði nútímavæddir. Bendir hann á að á sumum landamærasvæðunum séu engir samningar í gildi á þessum sviðum, og þeir samningar sem fyrir eru hafi ekki verið aðlagaðir að vinnumenningu nútímans. Norðurlandabúar sem búi í einu landi en starfi í öðru geti því lent í vandræðum ef þeir ætli að vinna heiman frá sér í stað þess að fara til vinnu.

Nútímavæðingu löggjafarinnar væri þá ætlað að koma til móts við þarfir íbúa og atvinnurekenda í vinnumenningu nútímans með sveigjanlegri samsetningu ferða yfir landamæri og fjarvinnu og um leið að taka tillit til nútímalegra lífshátta þegar íbúar og fjölskyldur geta búið í tveimur eða fleiri norrænum löndum.

Sameiginleg innkaup á bóluefni

Tvær af tillögum Enestams snúa að viðbúnaði gegn faröldrum, en hann leggur annars vegar til að Norðurlöndin hefji tilraunaverkefni um sameiginleg innkaup á bóluefni gegn inflúensu, en tilgangurinn væri að undirbúa sameiginleg innkaup ríkjanna á öðrum bóluefnum, ásamt öðrum lækningatækjum og búnaði, til að búa í haginn fyrir heilbrigðisvá framtíðarinnar. Ástæða þessa er sú að Norðurlöndin séu lítil hvert um sig á heimsmarkaði á sviði lækningatækja og búnaðar og megi sín lítils við samningaborðið.

Enestam leggur einnig til að Norðurlöndin kanni möguleika á að koma sér upp sameiginlegum viðbúnaðarbirgðum af lækningatækjum og búnaði ásamt vörum sem mikil þörf yrði á með stuttum fyrirvara samkvæmt sviðsmynd um hættuástand. Ástæða þessa er sú að í faraldrinum hafi komið í ljós að birgðastaða ríkjanna á ýmsum vörum hafi ekki verið eins góð og menn héldu, og heimsmarkaðurinn fyrir hluti eins og hlífðarbúnað hafi „hitnað um of“. Þá hafi norrænu ríkin mátt sín lítils við samningaborðið, hvert í sínu lagi.