Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Eftir Gunnar Björnsson: "Sjálfur lagði Lúther ofuráherslu á að skilja það frá, sem beinlínis snertir boðskapinn um endurlausnina í Kristi."

Í lúthersku kirkjunni má greina þrjár meginstefnur, að því er varðar kenninguna. Í fyrsta lagi ber að nefna þá, sem byggir á Biblíunni sem mælistiku, og kennd hefur verið við píetisma, og var sú ekki óalgeng á Norðurlöndum og er jafnvel enn. Í öðru lagi eru þeir, sem helst vilja taka mið af siðbótarfrömuðinum sjálfum, persónu hans og ummælum, og mun óhætt að segja, að í engri kirkjudeild kristninnar fari manneskja með svo stórt hlutverk sem Lúther í þessu falli. Sem dæmi má nefna, að til skamms tíma heyrðist varla svo stólræða af þýskum prédikunarstóli, að nafn Lúthers væri þar ekki nefnt. Í þriðja lagi er svo hin játningabundna lútherska, sem byggist einkum á lúthersku játningarritunum fimm: Postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni, Aþanasíusar-játningunni, Ágsborgarjátningunni og Fræðum Lúthers hinum minni. Hér eru dregin skýr mörk á milli persónubundinna skoðana Lúthers á kenningunni og hinnar opinberu kenningar lútherskrar kirkju. Þessa stefnu rekumst við á í stranglúthersku kirkjulífi.

„Það, sem boðar Krist“

Ekki álíta lútherskir allt í Biblíunni jafngott og gilt. Lúthersmenn vilja því einbeita sér að því og gefa nánar gætur, hvert sé hryggjarstykkið eða höfuðinnihaldið í hinni helgu bók. Sjálfur lagði Lúther ofuráherslu á að skilja það frá, sem beinlínis snertir boðskapinn um endurlausnina í Kristi, eða eins og hann orðaði það: „Was Christum treibt“ eða það sem boðar Krist og það, sem hann var í lífi og dauða. Ýmislegt annað á blaðsíðum Biblíunnar taldi hann lítilvægara og skipta minna máli. Af þessari reglu leiðir, að samkvæmt lútherskum skilningi er ekki hægt að slá föstu einhverju atriði í kenningu ellegar kirkjusiðum með því einu að vísa í ákveðið vers í Biblíunni. Það er einungis unnt að renna stoðum undir kennisetningar eða kirkjusiði með því að sýna fram á, að þetta standi í rökréttu sambandi við kenninguna um hjálpræðið í Kristi. Þetta er það, sem játningaritin kalla „að vera í samræmi við fagnaðarerindi Krists“. Þessi afstaða til Ritningarinnar er öll önnur en sú, sem við verðum áskynja til að mynda hjá bókstafstrúarmönnum. Í hinni þýsku útgáfu Ágsborgarjátningarinnar, 7. grein, segir efnislega, að þá sé sakramentunum veitt rétt þjónusta, þegar menn séu sammála um kenningu fagnaðarerindisins. Merking þeirra orða er öll önnur en sú sem vart verður hjá bókstafstrúarmönnum, sem telja, að við þjónustu sakramentanna beri að líkja sem mest eftir því, hvernig menn fóru að í öndverðu, þannig að altarissakramentisins skuli menn neyta sitjandi eða jafnvel liggjandi, ellegar að einungis beri að skíra fullorðna, af því að svo hafi verið gert á tímum Nýja testamentisins. Nokkrar síðustu kynslóðir lútherskra guðfræðinga hafa raunar tekið undir söguskýringu sértrúarhópa á kirkjusiðum frumkirkjunnar, án þess þó að hafa af þeirri ástæðu viljað breyta kvöldmáltíðar-rítúalinu ellegar afnema barnaskírn. Þeir hafa þar með haft kórrétta afstöðu til lúthersks biblíuskilnings. Lúthersk nálgun á Biblíunni útheimtir ekki, að farið sé nákvæmlega og í einu og öllu eftir tilteknu ritningarversi, heldur hitt, að menn séu sammála meginhugsun Ritningarinnar um hjálpræðið.

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Gunnar Björnsson