[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Staðan á FIDE Grand swiss-mótinu í Riga bendir ótvírætt til þess að nú sé komin fram á skáksviðinu stjarna sem hefur burði til þess að hampa heimsmeistaratitlinum einhvern tímann í náinni framtíð.

Staðan á FIDE Grand swiss-mótinu í Riga bendir ótvírætt til þess að nú sé komin fram á skáksviðinu stjarna sem hefur burði til þess að hampa heimsmeistaratitlinum einhvern tímann í náinni framtíð. Hinn 18 ára gamli Írani, Alireza Firouzja, sem teflir nú undir fána Frakka virðist ekki hafa neinn áhuga á því að ganga í það hræðslubandalag sem myndast hefur meðal annarra keppenda í námunda við toppinn sem raða inn jafnteflunum. Hefur vinningsforskot þegar þrjár umferðir eru eftir af mótinu: 1. Firouzja 6 ½ v. (af) 2.- 11. Vachier-Lagrave, Caruana, Predke, Shirov, Korobov, Vitiugov, Sevian, Howell, Oparin og Anton 5 ½ v.

Allt getur allt gerst á lokasprettinum og í gær beið Firouzja sú prófraun að tefla við Caruana og var með svart.

Íranar hafa sótt hratt fram á skáksviðinu undanfarin ár en klerkaveldið þar í landi bannaði taflmennsku árið 1979. Banninu var aflétt stuttu síðar. Firouzja gat ekki sætt sig við harðlínu sem m.a. birtist í því að Írönum hefur verið meinað að mæta til leiks gegn Ísraelsmönnum á skákmótum. Hann flutti til Frakklands með fjölskyldu sinni. Lítum á einn sigur hans í Riga:

FIDE Grand Swiss; 8. umferð:

Alireza Firouzja – Krishnan Sasikiran

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3 O-O 6. O-O d5 7. exd5 Rxd5 8. He1 Bg4 9. Rbd2 Rb6 10. h3 Bh5 11. Bb3!?

Nýjasti snúningurinn. Algengara er 11. Bb5.

11. ... Kh8 12. Re4 Rd7 13. Bd5 f5?

Býður riddaranum inn til e6. Sasikiran var ákveðinn í því að láta skiptamun af hendi.

14. Reg5 h6 15. Re6 Df6 16. Rxf8 Hxf8 17. d4! e4

Ekki 17. ... exd4 18. He6! og vinnur.

18. dxc5 Rde5

Þetta var hugmyndin en Firouzja finnur einfalda lausn.

19. Rxe5! Bxd1 20. Rd7 Dd8 21. Bxc6 He8 22. Hxd1 bxc6 23. Bf4

Hvítur hefur tvo hróka og tvo létta fyrir drottninguna sem er kappnóg. En kúnstin er að halda niðri öllu mótspili.

23. ... Dh4 24. Bxc7 e3 25. fxe3 Hxe3 26. Hd4 De7 27. Bf4 He2 28. b4 De8 29. Hf1 De6 30. Hf2 Hxf2 31. Kxf2 Dxa2 32. Bd2 De6 33. c4 a6 34. Bf4 De7 35. b5 axb5 36. cxb5 De6 37. b6 Db3 38. Kg1 g5 39. Bd2 g4

40. Hb4!

Ryður b-peðinu braut.

40. ... Dd1+ 41. Kh2 g3+ 42. Kxg3 f4+ 43. Kh2

– og svartur gafst upp.

Hjörvar Steinn Grétarsson hefur náð góðri viðspyrnu eftir slaka byrjun. Var nálægt því að vinna sína þriðju skák í röð á fimmtudaginn og var með 3 vinninga í 86.-96. sæti. Hann tefldi við Indverjann Gukhesh í gær og hafði svart.

Vignir Vatnar efstur í Uppsala

Vignir Vatnar Stefánsson vann glæsilegan sigur á Uppsala young champions, öflugu ungmennaskákmóti sem lauk á miðvikudaginn. Vignir hlaut 7 vinninga af 9 mögulegum, taplaus. Jafn honum að vinningum en lægri á stigum var íranski stórmeistarinn Aryan Gholami. Vignir varð efstur ásamt Degi Ragnarssyni á Uppsala-mótinu 2016, þá aðeins 13 ára, og árið 2018 varð Hilmir Freyr Heimisson einn efstur.

Mótið var það best skipaða sem fram hefur farið í Uppsala en keppendur voru 38 talsins. Frammistaða Vignis skýtur honum í 7. sæti á íslenska stigalistanum.

Hilmir Freyr Heimisson náði einnig góðum árangri í Uppsala og varð í 4. – 7. sæti og hækkaði um 37 elo-stig. Hann sigraði nýlega á skákmóti í Danmörku og hefur greinilega öðlast styrk alþjóðlegs meistara.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson helol@simnet.is