Stuart Austin var plötusnúður á Óðali 1975. Þegar sagt var frá ráðningu hans í Morgunblaðinu var klykkt úr með orðunum „enda þykja fáir Íslendingar koma til greina í svo vandasamt starf“.
Stuart Austin var plötusnúður á Óðali 1975. Þegar sagt var frá ráðningu hans í Morgunblaðinu var klykkt úr með orðunum „enda þykja fáir Íslendingar koma til greina í svo vandasamt starf“. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Á tónlistarsíðu Morgunblaðsins í nóvember 1976 var umsjónarmanni mikið niðri fyrir út af því að skemmtistaðir tækju erlenda plötusnúða fram yfir innlenda. Poppopnan nefndist Slagbrandur og skrifaði umsjónarmaðurinn undir því nafni.

Á tónlistarsíðu Morgunblaðsins í nóvember 1976 var umsjónarmanni mikið niðri fyrir út af því að skemmtistaðir tækju erlenda plötusnúða fram yfir innlenda. Poppopnan nefndist Slagbrandur og skrifaði umsjónarmaðurinn undir því nafni.

„Það sem fer í taugarnar á Slagbrandi í þessu sambandi er það, að staðirnir skuli endilega þurfa að „troða upp“ með útlendinga í starfi plötusnúða,“ skrifaði hann. „Maður skyldi ætla að íslendingur þekkti betur til fótaburðar og tónlistarsmekks samlanda sinna eins og dæmið um blökkumanninn Charlie sannar áþreifanlega: Maðurinn hreinlega skildi ekki „þjóðarkarakter“ íslendinga og drykkjusiði, en þessi atriði eru samofin tónlistarsmekk. Starfið getur fjandakornið ekki verið svo erfitt eða flókið að það krefjist einhverrar sérþekkingar. Þvert á móti virðist Slagbrandi þetta vera „létt verk og löðurmannlegt“ (eins og Grettir mælti forðum). Er mörlandanum nú ekki lengur treystandi til að setja hljómplötur á fón eða velja lög sem eru íslenskum snapshúsagestum samboðin?? – Hví þá ekki alveg eins og að ráða þýska útkastara, franska matreiðslumenn eða ítalska þjóna?? Slagbrandi er spurn.“