Óbóleikari Eydís Franzdóttir.
Óbóleikari Eydís Franzdóttir.
Óbóið og tónskáldin okkar er yfirskrift tónleika í 15:15 tónleikasyrpunni í Breiðholtskirkju í dag laugardag, kl. 15.15.

Óbóið og tónskáldin okkar er yfirskrift tónleika í 15:15 tónleikasyrpunni í Breiðholtskirkju í dag laugardag, kl. 15.15. Þar leikur Eydís Franzdóttir óbóleikari efnisskrá sem saman stendur af fjölbreyttum verkum íslenskra tónskálda fyrir einleiksóbó, ýmist með eða án hljóðupptaka. Verkin eru eftir John Speight, Svein Lúðvík Björnsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Hafdísi Bjarnadóttur, Þuríði Jónsdóttur og Hauk Tómasson og hafa öll verið samin fyrir Eydísi eða frumflutt af henni.

„Á tónleikunum verður frumflutt verk Hauks Tómassonar Flux 2 fyrir óbó og hljóðupptöku. Verkið er samið fyrir 1-8 hljóðfæri; flautu, óbó, klarínett, slagverk, hörpu, píanó, fiðlu, selló og samsetta hljóðupptöku leikna á hljóðfærin. Mögulegt er að flytja verkið sem einleiksverk hvers þessara hljóðfæra eða í öllum mögulegum samsetningum þeirra,“ segir í tilkynningu. Eydís lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í London. „Hún hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi m.a. sem óbóleikari Caput-hópsins og blásaraoktettsins Hnúkaþeys, auk þess að leika með fjölmörgum öðrum hópum. Hún hefur verið frumkvöðull í flutningi nútímatónlistar fyrir óbó og hefur fjöldi innlendra og erlendra tónskálda skrifað verk fyrir hana.“ Tónleikarnir eru um klukkustund að lengd. Miðasala er á tix.is og við innganginn.