Á heimleið? Barcelona þarf að reiða fram fimm milljónir evra fyrir Xavi.
Á heimleið? Barcelona þarf að reiða fram fimm milljónir evra fyrir Xavi. — AFP
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur Barcelona ekki kynnt Xavi Hernández til sögunnar sem nýjan knattspyrnustjóra enn sem komið er þar sem félagið vilji ekki greiða þá upphæð sem félag hans í Katar, Al-Sadd, vill fá fyrir að gefa hann lausan.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur Barcelona ekki kynnt Xavi Hernández til sögunnar sem nýjan knattspyrnustjóra enn sem komið er þar sem félagið vilji ekki greiða þá upphæð sem félag hans í Katar, Al-Sadd, vill fá fyrir að gefa hann lausan.

Marca, AS og Mundo Deportivo sögðu öll í gær að samkvæmt heimildum úr röðum Barcelona vildi félagið ekki greiða fimm milljónir evra sem Katarbúarnir hafi krafist að fá fyrir Xavi.

Mundo Deportivo hefur eftir Sergi Barjuán, bráðabirgðastjóra Barcelona, að málið sé ekki í höfn. „Al-Sadd hefur skýrt frá þessu en ekki Barcelona. Við verðum að bíða þess að báðir aðilar séu klárir. Við erum í góðu sambandi,“ sagði Barjuán.

Samkvæmt því sem Al-Sadd segir á Twitter snýst málið um að Barcelona greiði þá upphæð sem er tilgreind í samningi Xavi við félagið, sem greiða þurfi til að fá hann lausan frá því. Al-Sadd hefur þegar þakkað Xavi fyrir störf hans hjá félaginu og óskað honum góðs gengis.

„Xavi skýrði okkur fyrir nokkrum dögum frá áhuga sínum á að geta farið til Barcelona á þessum erfiða tíma sem uppeldisfélag hans gengur nú í gegnum. Við skiljum það og ákváðum að standa ekki í vegi fyrir honum,“ sagði Turki Al-Ali, framkvæmdastjóri Al-Sadd.