[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta hafa auðvitað verið mikil viðbrigði fyrir okkur en allt hefur gengið mjög vel.

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hafa auðvitað verið mikil viðbrigði fyrir okkur en allt hefur gengið mjög vel. Það er frábært tækifæri og reynsla að fá að læra af fólki hjá svona stóru alþjóðlegu fyrirtæki,“ segir Aníta Þórunn Þráinsdóttir sem ásamt Guðrúnu Ölfu Einarsdóttur starfar um þessar mundir að vöruþróun hjá stórfyrirtækinu Nestlé.

Fyrir ári höfnuðu þær Guðrún og Aníta með vöruna sína Frosta skyr í þriðja sæti í Ecotrophelia, evrópskri matvæla-nýsköpunarkeppni háskólanema, sem er jafnframt besti árangur Íslands í keppninni frá upphafi. Frosti skyr hlaut einnig þriðju verðlaun í frumkvöðlakeppninni Gullegginu fyrir ári og í byrjun þessa árs önnur verðlaun í AWE, nýsköpunarhraðli á vegum Háskóla Íslands. „Í kjölfar þessarar velgengni var okkur svo boðið að þróa vöruna okkar í miðstöð Nestlé í Konolfingen í Sviss,“ segir Aníta.

Minni matarsóun og umbúðir

„Já, þetta hefur gerst hratt. Nestlé hafði samband við okkur seinasta sumar og við fluttum út í lok ágúst. Þetta er prógram sem Nestlé byrjaði nýlega með og snýst um að koma vöru frá hugmyndastigi í hillur verslana á sex mánuðum. Þetta hefur gengið mjög vel til þessa, er bæði mikil reynsla og mikil vinna,“ segir Guðrún.

Aníta, 25 ára, og Guðrún, 23 ára, kynntust í námi sínu í matvælafræði við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Aníta stundar nú meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun. En hvað er Frosti skyr?

„Með því að nota frostþurrkun verða til svokallaðar skyrflögur, en þær geta geymst í mörg ár án viðkomu allra rotvarnarefna og þurfa ekki að vera geymdar í kæli. Margir skammtar af skyri verða í einni pakkningu svo við spornum gegn matarsóun og minnkum umbúðir. Það eina sem þarf að gera er að blanda skyrflögum út í vatn og hræra, þá fær maður skyr með nákvæmlega sömu áferð og áður, með sama næringargildi, lykt og allri upplifun. Svo hentar Frosti auðvitað líka í búst og holla þeytinga. Hingað til höfum við verið að nota ofurfæðuna bláa spírulínu til að auka næringargildið í skyrinu og þess vegna er skyrið ljósblátt á lit. Þetta er töluverð nýsköpun á rótgrónu matvæli svo við erum spenntar að sjá viðbrögð Íslendinga,“ segir Aníta.

Þær segja aðspurðar að þar sem þær höfðu þróað Frosta áður en Nestlé bauð þeim í samstarf snúist vinnan ekki um vöruna sjálfa heldur að gera hana tilbúna til sölu. „Fólkið hér hjálpar okkur með markaðshliðina og ýmis tæki og tól sem snúa að henni. Nestlé er með sambönd um allan heim og við dettum beint inn í það tengslanet sem er gríðarlega flott. Við fáum að vera undir verndarvæng fyrirtækisins við þessa þróun en Frosti verður samt alltaf okkar vara. Frosti fer á markað í Evrópu í mars á næsta ári. Það verða valdar nokkrar verslanir á ákveðnu svæði og varan verður til sölu þar í nokkrar vikur. Þá fáum við að sjá hvernig tekið verður í þetta. Hver veit svo nema varan lendi á Íslandi á næsta ári.“

Heilluðu forstjóra Nestlé

Nestlé er stærsta matvælafyrirtæki í heimi og hefur stundum verið umdeilt. Guðrún segir að þær Aníta hafi vissulega hugsað sig tvisvar um þegar tilboðið kom en það hafi á endanum reynst of gott til að hafna. „Það er ótrúlega vel staðið að öllu gagnvart okkur og öll samskipti hafa verið mjög fagmannleg og flott.“

Þær fengu mikla eldskírn í umhverfi stórfyrirtækisins þegar þær mættu til starfa. „Við byrjuðum að vinna hér 1. september og strax fyrsta daginn áttum við að halda kynningu fyrir alls konar fólk úr viðskiptalífinu. Þeim leist svo vel á þetta að í kjölfarið kom Mark Schneider, forstjóri Nestlé, ásamt stjórnarformönnum og félögum sínum, þar á meðal forstjóra Zöru, og kynntu sér Frosta. Hann var mjög spenntur fyrir Frosta skyri og bað um að fá sendar prufur til sín í kjölfarið.“

Hægt er að fylgjast með athafnakonunum þeim Guðrúnu og Anítu á Instagram, @frostiskyr, og á heimasíðunni frostiskyr.net.