Skúli Lýðsson fæddist á Keldum á Rangárvöllum 7. ágúst 1947. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu 19. október 2021. Móðir hans var Jónína Jónsdóttir, ljósmóðir á Keldum. Faðir Skúla var Lýður Skúlason bóndi á Keldum. Systkini Skúla eru: Svanborg Lýðsdóttir og Jóna Þórunn Lýðsdóttir.

24. ágúst 1969 kvæntist Skúli Drífu Hjartardóttur, f. 1. febrúar 1950, fyrrum alþingismanni og bónda. Drífa er dóttir Hjartar Hjartarsonar og Jensínu Guðmundsdóttur kaupmanna.

Börn Skúla og Drífu eru: 1) Lýður Skúlason, m. Una Guðlaugsdóttir, börn þeirra eru: Viktor Berg og Drífa. 2) Hjörtur Skúlason, m. Ragna Sól V. Steinmüller. 3) Skúli Skúlason, m. Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, börn þeirra eru: Guðmundur og Jón Ari.

Skúli var bóndi á Keldum í 53 ár og rak þar stórbú til haustsins 2021 er hann brá búi. Skúli á langt starf skógræktar og landgræðslu að baki og hlaut landgræðsluverðlaunin 2009, stofnaði kornfélagið Ax og var þar lengstum stjórnarformaður, Skúli var til dánardags í sóknarnefnd Keldnakirkju.

Útförin fer fram frá Keldnakirkju í dag, 6. nóvember 2021, klukkan 14.

Afi hafði alltaf sögur að segja, segja sonarsynirnir. Afi var með hjarta úr gulli, bæta þeir við. Þegar afi hló þá komu tár. Við munum eftir að hafa farið með honum í traktorinn, ná í rúllu og gefa kvígunum, þegar hann hafði enn heilsu til.

Þetta voru stórar holdakvígur. Þær áttu sviðið fyrir framan eldhúsgluggann, en þar var áður svartur sandur sem Skúli og Drífa græddu upp á sinni búskapartíð.

Á hverjum degi bæði vakti Hekla yfir þeim og ógnaði öllu þeirra striti við að verjast sandinum.

Moðið úr fjósinu var keyrt, einni traktorsskúffu á dag, út í hraunið, sem grænkaði á heilli mannsævi.

Þar biðu kvígurnar eftir afa og strákunum, sleiktu út um, mjökuðu sér og stóðu alltaf fyrir gjafagrindinni.

Hann tók við búinu sem barn og skilaði því í ellinni. Hann mætti alltaf snemma en gerði ekki sömu kröfur til annarra. En þó að hann ynni stanslaust, stoppaði aldrei við og hafði oft á orði að hann hefði ekki tíma til að snúa sér við, þá var hann alltaf til staðar. Hann fékk oft tár í augun þegar hann talaði við barnabörnin og var afar stoltur af konunni sinni henni Drífu.

En afi gamli, þú sem hafðir alltaf sögur að segja, hér eru sögur af þér.

Skúli hafði óþrjótandi þolinmæði fyrir öllu lífi. Til dæmis fékk hann eitt árið hund sem var mikið óargadýr. „Það verður að lóga honum!“ sagði fólk. En Skúli sagði „þetta eldist af honum“. Og árin liðu. Á endanum hafði Skúli rétt fyrir sér. Þegar hundurinn var orðinn örkumla af elli, þá róaðist hann skyndilega, hætti að nenna að ganga og dó.

Hann gerði það sem aðrir sögðu að væri ekki hægt. Það var til dæmis almenn skoðun að það væri ekki hægt að rækta sex raða bygg á Suðurlandi. Skúli lét ekki segja sér það, sáði sex raða byggi og fékk toppuppskeru.

Hann fór oft með syni sína til að kveikja í sinu og hélt því áfram eftir að þeir voru flognir úr hreiðrinu. Hann sagðist vera að kveikja í fyrir grasið. Þessu linnti ekki fyrr en bæði lögreglan og slökkviliðið mættu á svæðið. Þá sagði hann svellkaldur að hann hafi verið að fá sér vindil og misst hann í sinuna. Drífa var ekki par ánægð með þetta.

Hann hafði gríðarlegan viljastyrk og þolinmæði og lætur nú eftir sig uppgrætt land, stóran landgræðsluskóg og fjölskyldu sem veit að hún hefur misst mikið.

...

bóndi er bústólpi,

bú er landstólpi,

því skal hann virður vel.

(Jónas Hallgrímsson)

Skúli Skúlason, Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, Guðmundur Skúlason og Jón Ari Skúlason.

Ég hitti afa allt of sjaldan og er það ávallt á stundu sem þessari sem maður hugsar til baka og vildi óska þess að maður hefði gert eitthvað öðruvísi. Hringt eitt símtal í viðbót, farið í eina heimsókn enn. Ég er full eftirsjár að hafa ekki hitt elsku afa minn oftar og fyllist söknuðar.

Afi var frábær maður. Þegar ég hugsa til baka finnst mér eins og ég og hann höfum átt okkar ómeðvitaða einkahúmor sem var sjaldgæfur en dýrmætur. Ein ástkær minning sem ég á um elsku afa er þegar við sátum í kaffitímanum í sveitinni að snæða góðgæti sem amma hafði bakað. Afi tók upp smjörhnífinn, smurði sér brauð en setti hnífinn síðan ofan í sultukrukkuna og tók hann sjálfur ekki eftir því. Skrýtin minning eflaust, en hún lýsir þeim afa sem ég þekkti. Fyndinn maður sem hann var. Eitt það skemmtilegasta sem við afi gerðum saman var að smala. Við smöluðum fénu í sveitinni ótal sinnum og var hann alltaf að passa upp á það að ég hlypi ekki í gilið. Hann sagði mér sögur og röbbuðum við saman um margt og mikið.

Ég elskaði afa minn og ég veit að það var gagnkvæmt. Afi var ekki mikið að tjá tilfinningar sínar en amma var dugleg að segja mér hvað hann talaði fallega um mig og þótti mér mjög vænt um að heyra það. Ég vildi óska þess að ég gæti fengið að hitta afa bara einu sinni enn þar sem langt er síðan ég sá hann og náði ég ekki að kveðja. Þetta er víst gangur lífsins og ég veit að afi er eflaust strax farinn að smala fé og keyra um alla sveitina á traktornum. Takk fyrir allt elsku afi, ég elska þig.

Drífa Lýðsdóttir.

Af bæjarhlaði Keldna sér hátt og vítt um veg. Í hlaðinu er eitt helsta sýnilega djásn Íslandssögunnar, Keldnabærinn og aðrar fornmenjar. Um miðja mynd sjást annars vegar varnargarðar framsækinna forfeðra, grjóthleðslur, til að verjast sandfoki aldanna en hins vegar gleður augað glæsilegur árangur af sóknarleikjum ábúenda, grænar grundir og stækkandi skógur. Lengra upp af ber Heklu við himin og minnir á að stundum má sín lítils vörn okkar. Í austri rís röðull og roðar ský lofthjúpsins, vermir huga og hönd bóndans og gefur döggvuðum gróðri jarðar fjörlausn. Ráðsmennska í þessari tignu veröld er frátekin fyrir þá eina sem eru tilbúnir að vernda og verja það sem er huganum heilagt og hjartanu næst. Slíkir samverkamenn skaparans helga ættjörðina með striti sínu og sinna.

Drifkraftur þeirra var náð sem fékkst fyrir trúnað við sköpunarverkið. Verkfæri þeirra voru arfbornir eiginleikar, eljulund, áræði og seigla. Þetta skýrir hvers vegna liðnar kynslóðir komust í gegnum reglubundnar hamfarir. Að launum uppskáru þær þolinmæði og fyrirheitaþrungnar vornætur og að vakna til verka við hanagal og að njóta sólfagurra daga, sem ilmuðu af töðu og móreyk úr hlóðum bæjanna. Þarna var Skúli Lýðsson. Laun hans voru ekki þessa heims.

Í Skúla kynntist ég fulltrúa veraldar sem var. Hann hafði óbilandi trú og þolinmæði gagnvart landinu, fólkinu og dýrunum. Hann var ekki orðmargur en þeim mun viskuríkari í því sem hann varpaði fram. Til að annast um félagsleg tengsl og áhrif hafði hann heilan þingmann, eiginkonu sína, Drífu Hjartardóttur, sem ítrekað hefur verið valin til forystu um málefni samtíðarinnar, nú síðast er henni var skipað til forsætis í æðstu stjórn þjóðkirkjunnar.

Skúli hafði langtímahugsun og sá landgræðslu sem viðvarandi vinnusemi. Hann var geðgóður og jafnvel þegar hann var orðinn veikur hló hann oft innilega og naut samfélags við fjölskylduna. Hann var mjög vinnusamur en hafði samt nægan tíma fyrir aðra. Þrjóskan var innra með honum og birtist að íslenskum hætti í verkum hans. Hann var enginn diplómat. Hann vissi hvað hann vildi og framkvæmdi það án mikillar umræðu. Hann vildi þó öllum gott og allt fyrir alla gera og gerði mörgum til góða án þess að tala um það eða miklast af.

Í veikindum sínum fylgdist hann vel með því sem efst var á baugi. Fyrst og fremst dvaldi hugurinn við Keldur, fjölskylduna og náttúru landsins. Drífa reyndist honum alla tíð ómetanleg hjástoð og þegar þyngra varð undir fæti gat hann í öllu treyst á hana. Það reyndist honum líkn með þraut.

Sumir kjósa sér byggð í brekkuskjóli, aðrir vilja sjá vítt til og lifa sem lengstan dag í ljósi sólar. Og ekki mun Þorkell máni einn um það íslenskra manna, að vilja að leiðarlokum fela önd sína þeim guði sem sólina skóp. Þeim guði felum við Skúla Lýðsson og minnumst hendingar bóndans Guðmundar Inga Kristjánssonar sem hefði getað verið lífsjátning Skúla.

Þú átt að vernda og verja,

þó virðist það ekki fært,

allt, sem er hug þínum heilagt

og hjarta þínu kært.

Kristinn Ágúst Friðfinnsson og Anna Margrét Guðmundsdóttir.

Kær vinur, félagi og nágranni er látinn.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samskipta okkar Skúla á Keldum. Að leiðarlokum er okkur efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áratuga langa vináttu og heilladrjúgt samstarf og samskipti.

Skúli var gæddur miklum mannkostum, góðum gáfum, einstaklega hógvær og vinafastur, sannur Íslendingur. Hann kom til dyranna nákvæmlega eins og hann var klæddur og tjáði skoðanir sínar umbúðalaust. Líf og störf Skúla tengdust með afgerandi hætti landbúnaði og búskap með kýr og kindur og sannur bóndi og bústólpi. Hann var hafsjór af fróðleik um sögu Keldna og Rangárvalla og var stálminnugur. Það var hrein upplifun að fá að koma til hans með innlenda og erlenda gesti og nema af viskubrunni hans um gömlu húsin á Keldum og sögu jarðarinnar.

Það var mikil gæfa fyrir Skúla þegar Drífa Hjartardóttir kom til sumardvalar á Keldum ung að árum. Þau felldu hugi saman og deildu æviveginum um áratuga skeið. Þau voru miklir höfðingjar heim að sækja og gaman að ræða við þau um þjóðmálin og landið okkar. Þau voru einstaklega dugleg við að rækta Keldnajörðina sem var einstaklega illa leikin af uppblæstri og gróðureyðingu. Saman græddu þau upp og stuðluðu að uppgræðslu í samvinnu við Landgræðsluna þúsundir hektara af örfoka landi og fylgdu því eftir með plöntun á rúmlega tveimur milljónum trjáplantna í hluta af uppgræðslusvæðunum. Segja má að Skúli hafi lifað fyrir jörðina sína og þau hjónin skila henni margfalt betri en þau tóku við henni. Okkur hjónunum er minnisstætt þegar Oddný var eitt sinn að ræða við Jónínu móður Skúla um dugnaðinn og eljuna í syni hennar og þá svaraði hún að bragði. „Drífa er nú líka dugleg.“

Á síðustu árum hefur Skúli barist við illvígan taugasjúkdóm og sýnt einstakt æðruleysi og Drífa hefur barist með honum af ástúð og umhyggju. Skúli var einn minnisstæðasti persónuleiki sem við höfum kynnst og það var okkur heiður að fá að starfa með honum og eiga við hann samskipti. Öll voru þau á einn veg, hann var traustur félagi, hreinn og beinn. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir.

Drífa, börn og fjölskyldur, aðrir ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Við biðjum þeim Guðs blessunar og vottum þeim okkar dýpstu samúð. Megi almættið, sem leiðir okkur og alla þá er hjarta þitt sló fyrir, leiða þig í sólina kæri vinur.

Oddný Sæmundsdóttir, Sveinn Runólfsson.

Með vinsemd og virðingu vil ég minnast Skúla Lýðssonar

Skúli er einn af áhrifavöldum í mínu lífi og minningarnar um Skúla á Keldum eru svo margar ljúfar og góðar, en Skúla kynntist ég fyrst þegar ég réði mig í sumarvinnu á Keldum aðeins 13 ára gamall.

Þrátt fyrir ungan aldur þá sá ég og fann hversu mikill og góður maður Skúli var strax við fyrstu kynni, handartakið þétt og hlýtt, brosið beint frá hjartanu og einstök nærvera.

Fyrir óharðnaðan unglinginn með lítið sem ekkert verksvit þá kenndi Skúli mér réttu handtökin með sinni einstæðu þolinmæði og rólyndi. Eitt af því sem Skúli lagði mikla áherslu á var að öll störf skipta jafn miklu máli, stór eða smá, og að öll verk skuli inna af hendi með natni og virðingu og hef ég búið að þessum auði alla mína ævi.

Frá dvöl minni á Keldum á ég mínar bestu æskuminningar og er ekki hægt að minnast Skúla án þess að hafa Drífu með, því fyrir mér voru þau hjón ein heild.

Hver dagur á Keldum var skemmtilegt ævintýri og leið tíminn þar alltof hratt fyrir borgarbarnið sem vildi helst ekki fara aftur í stórborgina, því á Keldum leið mér alltaf eins og heima.

Eftir þrjú sumur á Keldum tók við ný framtíð, nám og ný vinna, en vinskapurinn sem ég hafði eignast við þau heiðurshjón breyttist aldrei í mínum huga og í hvert skipti sem ég heimsótti Keldur var tilhlökkunin alltaf jafn mikil að hitta Skúla og Drífu.

Þrátt fyrir að samskiptin hefðu minnkað með árunum þá líður vart sá dagur að hugurinn leitaði ekki til Keldna og dvalarinnar þar á bæ og hafa minningarnar frá Keldum ávallt veitt mér jafn mikla gleði og yl í hjarta.

Með þakklæti í huga, vinsemd og virðingu kveð ég Skúla úr þessari jarðvist, en minningarnar um góðan vin geymi ég í hjarta mínu um ókomna tíð.

Elsku Drífa og fjölskylda, votta ykkur mínar allra dýpstu samúð.

Ólafur (Óli) Geir.