Bjarni Guðráðsson fæddist 13. janúar 1935 á Skáney í Reykholtsdal. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 31. október 2021.

Foreldrar hans voru Guðráður Davíðsson og Vigdís Bjarnadóttir búendur á Skáney. Byggðu þau síðar nýbýlið Nes úr Skáneyjarjörð og ólst Bjarni þar upp frá níu ára aldri.

Bjarni var annar í röð þriggja systkina. Bragi var elstur, f. 1932, d. 2011, og Helga, f. 1936, gift Eyjólfi Sigurjónssyni og eru þau búsett í Reykholtsdal.

Bjarni giftist Sigrúnu Einarsdóttur, f. 1935, d. 2017, frá Kletti í Reykholtsdal árið 1956. Börn þeirra eru: 1. Sigurður, f. 1955, kvæntur Vöku Kristjánsdóttur. 2. Einar, f. 1958, 3. Sigrún, f. 1959. 4. Sigríður, f. 1960. 5. Helga Björk, f. 1969, sambýlismaður Birgir Hlíðar Guðmundsson. Barnabörn Bjarna og Sigrúnar eru fimmtán og barnabarnabörnin eru orðin tuttugu og sjö.

Bjarni og Sigrún hófu búskap 1955 í Gróf í Reykholtsdal en fluttu að Nesi 1957 og bjuggu þar sína búskapartíð, voru með kúabúskap en síðar ferðaþjónustu og golfvöll.

Bjarni lauk landsprófi frá Héraðsskólanum í Reykholti árið 1951. Síðar fór hann í tónlistarnám og starfaði sem kórstjórnandi og organisti í Reykholtskirkju til fjölda ára. Bjarni vann ötullega að félagsmálum sveitarinnar og héraðsins. Hann sat í hreppsnefnd, var í forystu Búnaðarsambands Borgarfjarðar og vann þar að stóru ritverki, Byggðir Borgarfjarðar, sem kom fyrst út 1989. Bjarni stýrði byggingarnefndum bæði fyrir félagsheimilið Logaland og síðar fyrir Reykholtskirkju og Snorrastofu. Hann lagði allan sinn metnað í uppbyggingu nýrrar Reykholtskirkju og Snorrastofu og bar mikinn hlýhug til staðarins allt til dauðadags.

Útför Bjarna fer fram frá Reykholtskirkju í dag, 6. nóvember 2021, klukkan 11.

Hvað ungur nemur gamall temur

einkennir þig með okkur þremur.

Verkvit og vinnusemi okkur kenndi,

vináttan þín hafði engan endi.

Með tónlist og traktor í túnfæti,

tölum við um þig með þakklæti.

Biðjum að heilsa ömmu heitinni

hvíldu í friði, afi okkar í sveitinni.

Þín barnabarnabörn,

Tómas Breki, Helga Jara

og Salka Karen.

Það var erfitt að frétta af skyndilegu andláti Bjarna, því hann var hress og kátur þegar við sáumst síðast í september sl.

Bjarni var afskaplega hlýr og góður. Hann var listrænn, hæfileikaríkur, metnaðarfullur og atorkusamur.

Allt það sem hann afrekaði á sinni ævi munu aðrir eflaust telja upp.

Ég þakka kærlega fyrir ljúfa viðkynningu og að hafa átt hann að vini.

Ég er viss um að Sigrún hans hefur tekið vel á móti honum.

Börnum, öðru skyldfólki og vinum votta ég innilega samúð mína.

Hulda Kolbrún Guðjónsdóttir.

Með Bjarna Guðráðssyni bónda og organista í Nesi í Reykholtsdal er genginn merkur forystumaður. Við kynntumst á öndverðum vetri árið 1978 er eg tók við Reykholtsprestakalli. Það var ómetanlegt fyrir ungan og óreyndan prest að njóta leiðsagnar hans um tón og kirkjusöng. Þar var hann allt í senn: Framsækinn, kröfuharður og um leið íhaldssamur á stíl og fagurfræði. Líklega „moduleraði“ hann að hætti afa sín og fermöturnar hans endurómuðu grallarasönginn sem við innleiddum á ný í Reykholti.

Hann varð organisti Reykholtskirkju eftir Kjartan Sigurjónsson. Þar sem sýnt var að torvelt yrði að fylla skarð hans tók Bjarni að nema organleik og söngfræði hjá Hauki Guðlaugssyni á Akranesi.

Í bernsku ólst hann upp hjá afa sínum og ömmu á Skáney, Bjarna Bjarnasyni og Helgu Hannesdóttur, en þau voru samvalið menningarfólk: Bjarni fyrsti organisti við Reykholtskirkju eftir nám við Dómkirkjuna í Reykjavík. Hann kom með frá þeirri námsdvöl árið 1901 fyrsta harmonium kirkjunnar. Hann starfaði við kirkjur prestakallsins næstu 70 árin. Auk kirkjusöngsins þjálfaði Bjarni karlakórinn Bræðurna sem sungu saman á Skáney dögum saman. Þegar Bjarni stálpaðist og var meira með foreldrum sínum í Nesi, mótaðist hann við búskaparáhuga og elju Guðráðs, föður síns og mennt Vigdísar, móður sinnar, sem alla ævi ávaxtaði heimanfylgju sína frá Skáney, hugsjónina um ræktun lands og lýðs. Þegar Bjarni tók síðan við búi þar hafði hann sjer við hlið konu sína, Sigrúnu Einarsdóttur. Þau voru samvalin um dugnað, framtakssemi og myndarskap á stórbúi sínu í Nesi. Búskapur var mjög á hendi Sigrúnar eftir því sem fjelagsstörf og menningarmál hlóðust á Bjarna.

Bjarni tók við Hvanneyrarkirkju árið 1985. Kórar Reykholts- og Hvanneyrarkirkna undir stjórn Bjarna voru kvaddir að ýmsum menningarviðburðum í hjeraði. Var góð undirstaða og gömul rækt í kórunum sem undir handarjaðri hans urðu að Reykholtskórnum, sem fyrir löngu er orðin hjeraðsprýði. Bjarni tók við Söngbræðrum eftir Sigurð á Kirkjubóli og leiddi Freyjukórinn á leið.

Hann var formaður byggingarnefndar Reykholtskirkju – Snorrastofu og oddviti sóknarnefndar um hríð; vakti yfir öllum verkþáttum til hins ýtrasta, enda sjálfur reyndur framkvæmdamaður; afburða verkmaður, jafn hagur á trje, járn og grjót, aðgætinn, nákvæmur og vandvirkur. Svo fylgdi hann Snorrastofu úr hlaði og var þar fyrsti stjórnarformaður. Eftir hann liggja í Reykholti margvísleg handarverk: Stjettar, hleðsla við sáluhlið og uppsetning listaverka í kirkjugarði og framan við kirkju og er þá fátt eitt nefnt.

Það var hamingja Bjarna að njóta eiginkonu og fjölskyldu, sem reyndist honum bakjarl í trúnaðarstörfum í þágu samfjelagsins. Óeigingirni þeirra og þolinmæði báru uppi verkin hans sem eru mikil og fjölbreyttari en flestra samtíðarmanna. Var hann þó af kynslóð sem skilur eftir sig stórvirki. Þau hjónin skipa öndvegi meðal afbragðsmanna í stjett bænda og búaliða um sína daga.

Við Dagný og fjölskylda okkar þökkum þeim farsæla samfylgd og trausta vináttu og biðjum minningu þeirra blessunar um leið og við felum niðja Bjarna og Sigrúnar og aðra ástvini Guði. Honum sje þökkin tjáð.

Geir Waage, pastor emeritus í Reykholti.

Kveðja frá Reykholtskórnum

Bjarni Guðráðsson bóndi í Nesi er fallinn frá. Hann var einnig organisti við Reykholtskirkju sem og fleiri kirkjur í Borgarfirði og stjórnaði kórum í héraði.

Á níunda áratug síðustu aldar leiddi hann kóra Hvanneyrar- og Reykholtssókna til samstarfs. Undir hans stjórn hafa þessir kórar sungið við mörg hátíðleg tækifæri. Þar má nefna heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja og sendiherra sem og íslenskra fyrirmanna. Þá hefur kórinn sungið við mjög margar útfarir. Nafnið Reykholtskórinn kom síðar.

Bjarni hóf nám í orgelleik þegar hann var kominn á fertugsaldur og náði þar góðum árangri enda áhuginn brennandi, kjarkurinn og þrautseigjan óbilandi.

Hann hafði til að bera frábæra tónheyrn, smekkvísi og vandvirkni við kórstjórn sem og ótrúlega eljusemi. Ekki hikaði hann við að ráðast í flutning á erfiðum kórverkum og bar ávallt óbilandi traust til okkar kórfélaganna í þeim efnum. Hann ferðaðist með kórnum til Færeyja 2002. Til Noregs 2004 og svo til Bandaríkjanna og Kanada árið 2007. Hann lét af kórstjórn árið 2011 þá 76 ára að aldri og taldi að nú væri nóg að gert við kórstjórn. Við kórfélagarnir í Reykholtskórnum viljum að leiðarlokum færa Bjarna hugheilar þakkir fyrir allt hans óeigingjarna starf með okkur. Hvíli hann í friði. Minningarnar lifa.

F.h. Reykholtskórsins,

Þorvaldur Jónsson.

Með fáeinum orðum vil ég minnast Bjarna Guðráðssonar í Nesi sem andaðist á lokadegi síðasta mánaðar. Ég hef stundum lýst Bjarna með þeim hætti að hann hafi verið eins og jarðýta í lægsta gír og lága drifinu, að þá stæðist engin hindrun sem fram undan væri. Þannig beitti hann sér af fylgni þegar þess þurfti með, en án fyrirgangs. Um árabil, fyrir og eftir 1980, áttum við samleið í stjórn Búnaðarsambands Borgarfjarðar þar sem hann gegndi formennsku. Níundi áratugurinn og raunar lengur var umbrotatími í íslenzkum landbúnaði sem og í þjóðlífinu yfirleitt. Komið var á takmarkandi framleiðslustjórnun í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, kallað var eftir nýjum búgreinum, hvatt til nýsköpunar og búháttabreytinga. Í þessum efnum kom mjög til kasta búnaðarsambandanna. M.a. beitti Bjarni sér fyrir stofnun Búnaðarsamtaka Vesturlands sem höfðu það að markmiði að bændur á Vesturlandi gætu átt kost á sérhæfðari ráðgjöf með tilliti til nýbúgreina. Segja má að þarna hafi orðið til vísir að því sem síðar varð með stofnun Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sem í dag veitir bændum sérhæfða ráðgjöf eftir búgreinum á landsvísu. Sjálfur var Bjarni frumkvöðull og hafði byggt nýtt fjós löngu fyrr með nýju fyrirkomulagi sem bændum víða að þótti forvitnilegt að gera sér ferð til að skoða. Síðar, eftir að eiginlegu ævistarfi við kúabúskap lauk, breytti hann túnunum í golfvöll. Það er ekki ofsagt að hann hafi verið framtakssamur.

Um það leyti sem Bjarni kom að Búnaðarsambandinu var ákveðið að ráðast í ritun búnaðar- og byggðasögu héraðsins undir heitinu Byggðir Borgarfjarðar. Leitað var til Bjarkar Ingimundardóttur með ritstjórn en Bjarni tók að sér umsjón með verkinu að öðru leyti. Margir aðrir komu þar við sögu einnig, við ritun efnis og fleira, héraðsmenn vítt og breitt sem og starfsfólk Búnaðarsambandsins. Ég hygg að það hafi verið á ögurstundu að í þetta verk var ráðizt og að framlag Bjarna hafi reynzt gifturíkt. Hafandi verið formaður ritnefndarinnar tel ég mér það skylt að minna á þetta og árétta sérstaklega þakkir fyrir óeigingjarnt framlag Bjarna til útgáfunnar.

Ég get ekki látið ógert að minnast á þátt Bjarna og samvinnu þeirra sr. Geirs Waage við endurreisn Reykholtsstaðar sem fræðaseturs og sem „staðar“. Þar hygg ég að einnig hafi verið komið að ögurstundu með að hefjast handa; réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Mikið lán það. Það mun sannast æ betur eftir því sem tíminn líður. En það verður jafnframt áskorun eftirkomenda að halda merkinu á lofti.

Hér verður látið staðar numið þótt fjölmargt sé ótalið af því sem Bjarni fékkst við á sinni ævigöngu. Hann kom víða við. En hann gekk götuna ekki einsamall. Hans lífsförunautur, samverkamaður og bakhjarl var Sigrún Einarsdóttir. Hún var ekki sótt yfir lækinn. Þau voru sveitungar. Þeirra ganga saman tók meira en sextíu ár en Sigrún lézt árið 2017. Blessuð sé minning þeirra beggja. Afkomendum þeirra öllum sendum við Guðrún Ása okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón G. Guðbjörnsson.

Við fráfall góðs vinar setur mann jafnan hljóðan og minningarnar hrannast upp. Ég kynntist heiðursmanninum og öðlingnum Bjarna þegar ég fluttist að Reykholti og gerðist kennari við héraðsskólann. Sá kunningsskapur hófst þá og varð fljótt að vináttu sem entist alla stund síðan.

Bjarni var trygglyndur maður og við ræddum margt saman þótt leiðir skildu er ég fluttist frá Reykholti 1975. Samstarf okkar á Reykholtsárunum var á tónlistarsviðinu í Reykdælakórnum og í Reykholtskirkju. Hann gerðist nemandi minn í orgelleik og hélt áfram því námi hjá Hauki Guðlaussyni. Hann varð síðan eftirmaður minn við Reykholtskirkju sem organisti og söngstjóri og gegndi því starfi lengi.

Bjarni var á margan hátt eldhugi og lyfti mörgu Grettistaki, var forgöngumaður margra framfaramála í dalnum og studdi af alefli allt sem horfði til þroska og betri menningar.

Þegar menn vildu selja gamla Dómkirkjuorgelið gekk Bjarni frá kaupum á því, gamla Frobenius-orgelinu sem var hljóðfæri Páls Ísólfssonar. Hann kom því í geymslu heima í Nesi og gekk síðan í að byggja nýja kirkju í Reykholti. Allt tókst þetta með ágætum og orgelið var sett upp í nýju kirkjunni sem reynst hefur ágætasta hljómhús þar sem gamla orgelið nýtur sín. Fyrir okkur sem á þetta orgel lærðum er þetta hið mesta ævintýri að leika á það, nú er það farið að hljóma miklu betur en þar sem það áður var.

Afi hans, Bjarni Bjarnason í Skáney, hafði verið organisti Reykholtskirkju í 70 ár.

Bjarni Guðráðsson réðist sem organisti Reykholtskirkju og gegndi því starfi með prýði.

Það var jafnan gott að koma að Nesi, bæði heimilin Guðráðs og Vigdísar og Bjarna og Sigrúnar.

Fjölskyldunni votta ég mína dýpstu samúð og okkar hjóna´

Blessuð sé minning Bjarna Guðráðssonar.

Kjartan Sigurjónsson.