[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurbjörn Hreiðarsson var í gær ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu. Hann endurnýjar þar með kynnin við Ólaf Jóhannesson aðalþjálfara liðsins, en þeir unnu saman hjá Val frá 2014 til 2019 og unnu þar til fjölda titla í sameiningu.
Sigurbjörn Hreiðarsson var í gær ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu. Hann endurnýjar þar með kynnin við Ólaf Jóhannesson aðalþjálfara liðsins, en þeir unnu saman hjá Val frá 2014 til 2019 og unnu þar til fjölda titla í sameiningu. Við sama tilefni var tilkynnt að Belginn Robin Adriaenssen sé nýr styrktar- og þolþjálfari knattspyrnudeildar félagsins og að Fjalar Þorgeirsson hafi framlengt samning sinn sem markmannsþjálfari karlaliðsins.

*Telma Ívarsdóttir , markvörður kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, er sá markvörður sem hefur varið flest skot hingað til í Meistaradeild Evrópu. Hefur hún varið 22 skot í sjö leikjum á tímabilinu, þ.e. fjórum leikjum í undankeppni og þremur í riðlakeppni. Í þessum leikjum hefur hún fengið á sig sjö mörk og haldið markinu sínu hreinu einu sinni. Í gær varði hún fjögur skot í markalausu jafntefli gegn Kharkiv í B-riðlinum.

*Körfuknattleiksdeild Þórs á Akureyri hefur samið við tvo leikmenn fyrir átökin fram undan í efstu deild karla í körfuknattleik. Bandaríski framherjinn Reggie Keely skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið en hann er 204 sentimetrar á hæð og lék í Slóveníu á síðustu leiktíð. Þá er svissneski bakvörðurinn Jeremy Landenbergue genginn til liðs við Akureyringa. Þórsarar hafa ekki farið vel af stað í Subway-deildinni, en liðið er án stiga í neðsta sæti deildarinnar eftir fyrstu fimm umferðirnar.

*Bandaríska knattspyrnukonan Carli Lloyd lagði skóna á hilluna á mánudag eftir farsælan 22 ára feril. Lloyd er 39 ára gömul og varð tvívegis heimsmeistari með bandaríska landsliðinu.