Dagmál
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Engin önnur ríkisstjórn er í kortunum en sú, sem verið er að endurnýja samstarfið hjá, umboð kjósenda hafi verið alveg skýrt um það. Þetta er samdóma álit þeirra Stefáns Pálssonar sagnfræðings og Gísla Freys Valdórssonar ritstjóra. Þeir eru gestir í Dagmálum Morgunblaðsins í dag, streymi sem opið er öllum áskrifendum.
Stefán bendir á það að allar hugmyndir á vinstrivæng um myndun vinstristjórnar hafi byggst á því að Framsókn léti til leiðast sem viljalaust verkfæri, en að vinstriflokkarnir hafi ekki að nokkru reynt að tala til framsóknarmanna. Hins vegar sé eftirtektarvert að eftir kosningar hafi stjórnarandstaðan algerlega haldið sig til hlés og ekki reynt að hreyfa öðrum stjórnarmöguleikum.
Þeir félagar telja ólíklegt að miklar breytingar verði á ráðherraliðinu, þar voru þau Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, og Willum Þór Þórsson, oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, talin líklegustu nýliðarnir.
Rannsókn á meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi telja þeir ólíklega til þess að hafa áhrif á stjórnarmyndun og stjórnarandstaðan að verða fráhverf uppkosningu.