Kópavogur Framkvæma á fyrir 5,5 milljarða á næsta ári. Nýir skólar byggðir og miklar gatnaframkvæmdir. Íbúatalan fer yfir 40.000.
Kópavogur Framkvæma á fyrir 5,5 milljarða á næsta ári. Nýir skólar byggðir og miklar gatnaframkvæmdir. Íbúatalan fer yfir 40.000. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Kópavogsbær gerir ráð fyrir 89,3 milljóna rekstrarafgangi hjá samstæðu bæjarins og 13,7 milljóna afgangi í A-hluta, samkvæmt fjárhagsáætlun 2022 sem var birt í gær. Skattar verða áfram lækkaðir.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Kópavogsbær gerir ráð fyrir 89,3 milljóna rekstrarafgangi hjá samstæðu bæjarins og 13,7 milljóna afgangi í A-hluta, samkvæmt fjárhagsáætlun 2022 sem var birt í gær. Skattar verða áfram lækkaðir. Lagt er til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,212% í 0,2%. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði mun lækka úr 1,47% í 1,44%. Útsvar verður óbreytt 14,48%. Sorphirðugjald hækkar vegna meiri kostnaðar við sorphirðu og sorpeyðingu. Á móti lækka vatnsskattur og holræsagjöld.

„Við höfum reynt að halda skynsamlega á málum,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Hann sagði að ekki sé gert ráð fyrir óreglulegum tekjum í fjárhagsáætluninni. Stefnt er að úthlutun fjölbýlishúsalóða fyrir um 500 íbúðir í seinni hluta Glaðheimahverfis. Tekjur af lóðasölunni verða notaðar til að lækka vaxtaberandi skuldir.

„Þetta mun laga reksturinn og bæta afkomuna. Við munum ekki þurfa að taka nema mjög lítið af lánum til framkvæmda. Það lítur út fyrir að vaxtaberandi skuldir hækki nánast ekkert,“ sagði Ármann.

Gert er ráð fyrir að íbúum Kópavogs fjölgi um 2,5% og að þeir verði orðnir rúmlega 40.000 í árslok. Fjölgunin tengist mest nýjum íbúðum á Kársnesi og í Smára 201.

Kópavogsbær ætlar að framkvæma fyrir 5,5 milljarða á næsta ári. Bygging nýs Kársnesskóla vegur þungt auk þess sem nýr leikskóli rís samhliða. Verja á 3,6 milljörðum í það verkefni á næstu þremur árum og þar af tveimur milljörðum á næsta ári. Byggja á nýjan leikskóla við Skólatröð og er áætlað að um 250 milljónir fari í hann árið 2022. Verja á um 1.280 milljónum í nýbyggingu leikskóla á næstu þremur árum. Þá á að setja um 350 milljónir í að klára endurbætur á Kórnum. Ætlunin er að setja 1,7 milljarða í gatnagerð og tengd verkefni á næsta ári.