Leikskóli Óánægju gætir með álag á starfsfólk með styttri vinnuviku.
Leikskóli Óánægju gætir með álag á starfsfólk með styttri vinnuviku. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Sveitarfélögin eru ekki hress með þessa þróun. Við þurfum einfaldlega að finna flöt á því hvernig við rekum stofnanir sveitarfélaganna í þessu breytta umhverfi sem skapast hefur með styttingu vinnuvikunnar,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Sveitarfélögin eru ekki hress með þessa þróun. Við þurfum einfaldlega að finna flöt á því hvernig við rekum stofnanir sveitarfélaganna í þessu breytta umhverfi sem skapast hefur með styttingu vinnuvikunnar,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sigrún Hulda Jónsdóttir, meðstjórnandi í stjórn Félags stjórnenda leikskóla, vakti í gær máls á erfiðu ástandi sem hefur skapast á leikskólum landsins síðustu misseri. Starfsfólk leikskóla er sagt vera að sligast undan álagi vegna manneklu sem sé tilkomin vegna veikinda, vinnutímastyttingar og fleiri þátta.

„Ég heyri þetta hljóð í sveitarstjórum sem eru að setja saman fjárhagsáætlanir næsta árs. Þeir upplifa mikinn kostnaðarauka, það þarf að mæta þeim aukna kostnaði sem leikskólastigið kallar á,“ segir Aldís. Hún segir að það geti reynst snúið fyrir sveitarfélögin að takast á við breytt umhverfi leikskólanna.

„Í síðustu kjarasamningum var samið um mikla aukningu undirbúningstíma fagmanna. Nú eru tíu tímar ætlaðir í undirbúningstíma deildarstjóra svo dæmi sé tekið og við það bætist fjögurra tíma stytting á viku, sé hún fullnýtt. Það eru um 14 klukkustundir á viku sem verður að leysa innan deildanna. Ég held að það sé óhætt að segja að það er verið að klippa mjög marga klukkutíma úr leikskólastarfinu, sem áfram þarf að manna því dvalartími barnanna hefur ekki styst að sama skapi,“ segir Aldís.

„Við megum ekki missa sjónar á því að full stytting sem samið var um með því að fólk myndi selja frá sér kaffitíma átti ekki að kosta neitt né valda þjónustuskerðingu. Ef sú er raunin verður auðvitað að bregðast við því. Full stytting er um það bil mánuður á ári, það munar auðvitað um það á vinnustöðum. Það var nóg að gera fyrir og álagið hefur því aukist með færri unnum stundum.“

Aldís getur þess einnig að það myndi vitaskuld létta álag á leikskólum ef vistunartími barna yrði styttur. „Mér er ekki kunnugt um að vistunartími barna hafi orðið styttri, átti vinnutímastyttingin ekki líka að vera hjá börnunum?“ spyr hún.

Hún segir að vissulega sé minna af fagmenntuðu fólki við störf á leikskólum en sveitarfélögin hefðu viljað. Hins vegar sé jákvætt að 42% af heildarfjölda starfsmanna séu með einhvers konar menntun sem nýtist í starfinu. „Það er ákveðinn mönnunarvandi í leikskólunum, það gengur illa að fá fólk. Kannski er það að hluta til vegna þess að nú er gefið út leyfisbréf fyrir kennara sem gildir á öllum skólastigum og fyrir vikið hafi einhverjir flutt sig upp á grunnskólastigið til að sækja í fjölbreyttari verkefni og þróa sig í starfi. Ég hefði þó haft trú á að með bættu starfsumhverfi leikskólakennara, meiri undirbúningstíma og styttri vinnuviku, myndu fleiri leikskólakennarar snúa þangað aftur.“