Auður Auður Eir Guðmundsdóttir er fædd 10. nóvember 1951 á Miklubraut 1 í Reykjavík og ólst þar upp fram á fjórða aldursár hjá Helgu móðurömmu sinni.
„Árið 1955 komu foreldrar mínir frá námi og fluttust þá út á Seltjarnarnes og bjó ég þar fram til ársins 1990. Ég var þó alltaf mjög nákomin Helgu ömmu minni og má segja að hún hafi alið mig upp til jafns við foreldra mína. Seltjarnarnesið var á þessum árum mjög strjálbyggt og í raun sveit. Rétt fyrir ofan Útgarð var stórbýlið Nes þar sem Skúli Thorarensen rak stórt kúabú. Tvær af dætrum bústjórans voru miklar vinkonur mínar og ég því heimagangur í Nesi frá 1960 til 1966 og tók þar þátt í öllum verkum sem við máttum koma nálægt. Í næstu húsum fyrir sunnan mig voru nágrannar okkar með kindur og hænur, stórt trésmíðaverkstæði og stórir kartöflugarðar voru á öllum lóðum enda þær stærri en nú.
Mest fékk ég að kynnast sveitinni annars vegar á Grund í Skorradal þar sem við amma mín komum á hverju sumri til stuttra heimsókna og dvala og síðan á hverju sumri á Æsustöðum í Eyjafirði þar sem ömmubróðir minn var bóndi, líka stuttar dvalir frá 1955 til 1967.“
Auður tók landspróf í Gaggó Vest, Vonarstræti og varð stúdent 1971 frá MR. Um miðjan síðasta áratug tók Auður diplómanám í viðskipta- og rekstrarfræðum við Endurmenntun HÍ og lauk því með góðri 1. einkunn. Síðan hóf hún nám á eigin vegum í leiðsögn 2008 hjá endurmenntun og var í fyrsta hópi háskólamenntaðra leiðsögumanna sem útskrifaðist 2010, líka með góða 1. einkunn. Árin 1995 til 1997 stundaði hún nám í ítölsku hjá Paolo Turchi og lauk sex áföngum með 1. verðlaunum. Á fyrsta áratugnum tók hún síðan nokkra áfanga í frönsku við endurmenntun HA.
Eftir námið 1971 hóf Auður störf hjá Útvegsbanka Íslands. „Á þessu tímabili hóf ég tvisvar nám hjá HÍ en hætti eftir fyrsta misseri. En bankinn menntaði mig upp í framtíðarstarfsmann, eins og það var kallað. „Meginstarfsferill minn var hjá bankanum og þar gekk mér vel alveg þar til ég missti heilsuna árið 1998.“ Auður var aðalféhirðir ÚÍ fram að sameiningu bankanna, í ársbyrjun 1990, var deildarstjóri í þjónustudeild Íslandsbanka frá 1990 og síðan við útibúaþjónustu hans til 1993 og var þjónustustjóri Íslandsbanka í Hafnarfirði 1994-2000. Auður var leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn á Akureyri, einkum af skemmtiferðaskipum, 2009-2017 á vegum SBA og var líka leiðsögumaður á eigin vegum.
„Um 1980 fór ég að vinna með maka mínum við kvikmyndagerð, m.a. var ég aðstoðarframkvæmdastjóri við Snorra Sturluson, RÚV 1980, Jón Odd og Jón Bjarna, Norðan átta hf. 1981 og Á hjara veraldar; Kristín Jóhannesdóttir 1982. Að auki vann ég við bókhald og handritsskriftir fyrir ýmis kvikmyndaverkefni.“
Auður hefur alla tíð verið mjög virk í félagsmálum og stjórnmálafélögum allt fram til ársins 2011. Hún sat í stjórn Heimdallar 1969-70, var formaður Æskulýðsráðs Seltjarnarness 1977-81, sat í varastjórn og stjórn Sambands íslenskra bankamanna 1987-95 og var þar ritari, var fulltrúi SÍB í samstarfsnefnd um Reiknistofu bankanna og sat í ýmsum fleiri nefndum. Auður sat í stjórn Norðurlandsdeildar Gigtarfélags Íslands á árunum 2005-2011. Hún var einu sinni í framboði til bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi 1978. „Ég hef tekið þátt í einum gönguhóp 1992-1997, Göngum aftur, og síðan erum við hjónin hluti af svarthvítafélagi gamalla sjónvarpsmanna.“
Ritstörf Auðar hafa verið töluverð, að mestu leyti tengd kennslu í Bankamannaskólanum og síðar við fræðslu starfsmanna Íslandsbanka 1986-1998. Viðurkenningar hafa flestar verið tengdar því starfi sem og starfi Auðar sem aðalféhirðir ÚÍ.
„Helstu áhugamál mín hafa verið í gegnum tíðina mikil fræðsluþörf, bókalestur með megináherslu á sögu, landafræði, félagsmál og tungumál. Þar með fylgir áhugi á ferðalögum og alls konar fræðsla tengd áfangastöðum. Mestur áhugi hefur verið á Suður-Evrópu og Suður-Asíu.
Fjölskylda
Eiginmaður Auðar er Helgi Kristínarson Gestsson, f. 4.1. 1949, viðskiptafræðingur og fv. lektor við Háskólann á Akureyri. Þau gengu í hjónaband 22.1. 1972 og hafa búið frá 2000 á Akureyri, í Möðruvallastræti 2. Foreldrar Helga voru hjónin Gestur Þórðarson, f. 6.9. 1907, d. 21.2. 1984, lengst af gjaldkeri hjá I. Brynjólfsson & Kvaran, og Kristín Helgadóttir, f. 17.3. 1916, d. 11.9. 2007, kaupkona og eigandi Sápuhússins hf.Börn Auðar og Helga eru 1) Jón Gestur Helgason, f. 6.10. 1974, viðskiptafræðingur, framkvæmdastjóri tölvufyrirtækisins Eniak ehf. á Akureyri, en kona hans er Gerður Ringsted. Dóttir hans er Rebekka Rut Jónsdóttir, f. 17.8. 1999 og m.h. er Bjarki Gíslason. Dóttir þeirra er Marín Eva, f. 7.9. 2021. Sonur Gerðar er Daði Guðvarðarson og k.h. er Fanney Björg Björnsdóttir. Börn þeirra eru Freysteinn Ari og Ágústa Eva. 2) Kristín Helgadóttir, f. 24.5. 1976, viðskiptafræðingur hjá Sparisjóði Höfðhverfinga, en fyrrverandi maður hennar er Sigurður Hrafn Þorkelsson og eru börn þeirra Birta Eir, f. 16.6. 1999, Helgi Hrafn, f. 23.3. 2005, og Gísli Freyr, f. 12.11. 2007.
Systkini Auðar eru Guðmundur Kristinn Guðmundsson, f. 9.1. 1955, bús. í Regina í Kanada; Helga Kristín Guðmundsdóttir, f. 25.12. 1955, sjúkraliði í Reykjanesbæ; Þórdís Guðmundsdóttir, f. 19.8. 1968, listamaður og rafeindavirki í Kópavogi.
Foreldrar Auðar voru Guðmundur Jónsson, f. 13.11. 1929, d. 11.11. 2010, píanóleikari í Reykjanesbæ, og Hulda Auður Kristinsdóttir, f. 13.2. 1932, d. 24.9. 2000, viðskiptafræðingur og gæðastjóri hjá Fiskistofu. Seinni kona Guðmundar var Ingibjörg Þorbergs, söngkona og tónskáld.