Stál í stál Flóttafólk hitar sér mat á hlóðum á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Að baki má sjá gaddavírsgirðingar og vopnaða landamæraverði. Pólverjar hleypa því ekki inn í landið og það getur ekki snúið til baka.
Stál í stál Flóttafólk hitar sér mat á hlóðum á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Að baki má sjá gaddavírsgirðingar og vopnaða landamæraverði. Pólverjar hleypa því ekki inn í landið og það getur ekki snúið til baka. — AFP
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Óttast er að til blóðugra átaka geti komið á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands (Belarus) þar sem mörg hundruð flóttamenn frá Mið-Austurlöndum og Afganistan, þar á meðal stór hópur barna, freista þess að komast til Póllands og þaðan til annarra landa Evrópusambandsins (ESB). Fólkið er að flýja fátækt og stríð í heimalöndum sínum. Stjórnvöld í Minsk í Hvíta-Rússlandi hafa greitt fyrir ferðum þess að landamærunum og jafnvel flutt það með flugvélum áleiðis. Er talið að þetta sé hefndarráðstöfun runnin undan rifjum Alexanders Lúkasjenkós, forseta Hvíta-Rússlands, til að svara fyrir efnahagslegar refsiaðgerðir ESB-ríkja gegn einræðisstjórn hans. Lúkasjenkó er mjög einangraður meðal leiðtoga Evrópu en nýtur þó stuðnings Pútíns, forseta Rússlands.

Mikil fjölgun flóttafólks

Nokkrir mánuðir eru síðan flóttafólk frá Mið-Austurlöndum hóf að safnast saman við landamæri Póllands í Hvíta-Rússlandi. Því hefur síðan fjölgað mikið og spennan magnaðist þegar Hvítrússar fluttu um eitt þúsund flóttamenn að landamærunum í byrjun þessarar viku. Vitað er um átta flóttamenn sem látist hafa vegna vosbúðar og annarra aðstæðna við landamærin. Á hljóðupptökum frá landamærunum hafa skothvellir heyrst en ekki er vitað hvort einhverjir hafa særst. Þá hafa borist fregnir um að pólskir landamæraverðir beiti táragasi á flóttafólkið til að hrekja það á brott og varna því inngöngu í landið.

Pólverjar hafa lengi fylgt harðri stefnu gagnvart flóttafólki sem þar hefur leitað hælis. Hefur ósveigjanleg stefna þeirra sætt gagnrýni annarra ríkja ESB. En talið að Hvítrússar séu nú að spila á þessu spennu.

Pólverjar hafa reist gaddavírsgirðingar til að hindra för flóttamannanna sem Hvítrússar hafa flutt að landamærunum. Fólkið hefur beitt klippum á gaddavírinn en landamæraverðir og hermenn hafa hindrað það í að komast áfram. Það hefst við í tjöldum í skóglendi á milli landanna, aðallega í Kuznica norðarlega við landamærin, og eru aðstæður þess mjög erfiðar, kalt er í veðri og matur af skornum skammti. Fólkið getur ekki snúið til baka því hermenn Hvítrússa varna þeim brottfarar.

Nokkur þúsund flóttamanna hafa komist inn í Pólland um Hvíta-Rússland á undanförnum mánuðum og margir þeirra haldið til Þýskalands og leitað hælis þar. Segja þýsk stjórnvöld um sex þúsund flóttamenn hafi komið þangað eftir að hafa farið um Hvíta-Rússland. Kúrdísk kona frá Írak sagði breska blaðinu Guardian frá því að hún hefði komið til Minsk fyrir milligöngu ferðaskrifstofu sem síðan útvegaði far að landamærum Póllands. Krafist væri allt að þriggja milljóna króna fyrir milligönguna.

Pólverjar segja að um sé að ræða árás á landið og vilja að Evrópusambandið (ESB) og Atlantshafsbandalagið (NATO) skerist í leikinn. Þeir segja að nokkur þúsund flóttamanna til viðbótar séu á leið að landamærunum. Haft er eftir Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, að flóttamennirnir ógni öryggi allra ríkja Evrópusambandsins. Innanríkisráðherra Þýskalands hefur tekið undir þetta og hvatt ESB til að koma Pólverjum til aðstoðar við að verja landamærin.

Stjórn Lúkasjenkós hafnar því með öllu að hún standi á bak við komu flóttafólksins, þótt órækar sannanir séu fyrir því. Forystumenn ESB og NATO hafa skorað á stjórnvöld í Minsk að hætta þessum aðgerðum. Fullyrtu þeir að Hvítrússar notuðu flóttafólkið sem peð í tafli sínu við lýðræðisríkin í Evrópu. Ursula von der Leyen, formaður framkvæmdastjórnar ESB, segir nauðsynlegt að herða refsiaðgerðir gegn Hvíta-Rússlandi.

Fyrir sex árum, árið 2015, komu nær 800 þúsund flóttamenn til Evrópu frá stríðshrjáðum og fátækum löndum við Miðjarðarhafið. Koma þeirra olli gífurlegum usla í álfunni og pólitískri ólgu. Óttast margir að sagan endurtaki sig ef aðgerðir Hvítrússa verði ekki stöðvaðar.