Diðrik segir mikla vöntun á fólki með bakgrunn í hönnun leikja og notendaviðmóts.
Diðrik segir mikla vöntun á fólki með bakgrunn í hönnun leikja og notendaviðmóts. — Morgunblaðið/Eggert
Gaman hefur verið að fylgjast með íslenska tölvuleikjageiranum vaxa og dafna. Eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa náð að komast á kortið er Porcelain Fortress og gengur fyrirtækinu vel að nema land í leikjamarkaði PlayStation, Nintendo Switch, PC og Mac.

Gaman hefur verið að fylgjast með íslenska tölvuleikjageiranum vaxa og dafna. Eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa náð að komast á kortið er Porcelain Fortress og gengur fyrirtækinu vel að nema land í leikjamarkaði PlayStation, Nintendo Switch, PC og Mac. Diðrik Steinsson framkvæmdastjóri segir framtíðina bjarta og standa vonir til að sækja aukið fjármagn inn í reksturinn til að gulltryggja starfsemina næstu þrjú til fjögur árin.

Hverjar eru helstu áskoranirnar

í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskoranir í rekstri Porcelain Fortress tengjast því hversu erfitt er að fá fólk með réttu reynsluna í störf hjá fyrirtækinu, en við vorum að enda við að ná að fylla þar í skarðið. Gerð tölvuleikja krefst þess að teymi séu sett saman af fólki með breiða sérþekkingu og ef ekki væri fyrir tengsl starfsmanna værum við örugglega enn þá að kljást við að ná þeirri þekkingu inn sem upp á vantaði.

Eins og gengur og gerist er fjármagnshliðin alltaf stór áskorun í rekstri ungra fyrirtækja. Fyrsti leikur fyrirtækisins náði nægum vinsældum til að við þurfum minna að reiða okkur á utanaðkomandi aðstoð í gegnum fjármögnun og styrki.

Hver var síðasta ráðstefnan

sem þú sóttir?

Ég fór á Pax East-ráðstefnuna í Boston árið 2020, en þar ætlaði ég að vera gestur og skoða önnur leikjafyrirtæki og það sem þau eru að gera, ásamt öðrum úr teyminu. Endaði á því að leikurinn okkar var valinn einn af mest spennandi „indie“-leikjunum árið 2020 á ráðstefnunni og var okkur því úthlutaður bás. Við enduðum á að sitja á básnum okkar nánast allan tímann.

Hvaða bók hefur haft mest

áhrif á hvernig þú starfar?

Sjálfsævisaga Arnolds Schwarzeneggers, Total Recall , hefur haft mikil áhrif á hvernig ég hugsa. Kenndi mér að hlusta ekki á gagnrýnisraddir, og að það sem virðist ómögulegt er bara hindrun ef maður er nógu þolinmóður.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég umkringi sjálfan mig fólki sem er klárara en ég sjálfur. Og hlusta, og les bækur.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég stunda yoga þegar ég get en Tómas hjá Yoga Shala opnaði huga minn í þeim efnum.

Hvert væri draumastarfið ef þú

yrftir að finna þér nýjan starfa?

Myndhöggvari. Það var alltaf draumur hjá mér að verða myndhöggvari og ef ég hefði ekki kynnst klárustu mönnum sem ég hef hitt (sem eru vinnufélagar mínir í dag og meðstofnendur) sem deildu ástríðunni á tölvuleikjagerð væri ég örugglega meira listamegin í dag

Hvað myndirðu læra ef þú fengir

að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég myndi sækja um að komast að hjá LHÍ til að læra grafíska hönnun og einbeita mér að því að sérhæfa mig í UI-hönnun. Finnst það heillandi.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Kostirnir eru hversu mikill eldmóður er falinn í fólkinu sem við höfum hér en á móti standa gallarnir líka á því hversu fá við erum og hversu lítið er af reynslu í greininni.

Það sem helst hefur vantað upp á er fólk með bakgrunn í hönnun leikja og notendaviðmóts en í dag er ekki hægt að stunda slíkt nám á efri stigum háskóla hér á landi nema að mjög takmörkuðu marki.

Miðað við að tekjur af sölu tölvuleikja eru orðnar meiri en heildartekjur kvikmynda, tónlistar og sjónvarpsþátta virðast fáir átta sig á tækifærunum í að yfirfæra þekkinguna sína í þá átt. Það virðist þó eitthvað vera breytast á næstunni varðandi námið en ég hef í starfi mínu í stjórn IGI, ásamt góðum hópi, ýtt á skólana hérlendis að bjóða upp á frekara nám tengt tölvuleikjagerð á efstu stigum.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Orkuna fyrir daginn fæ ég frá krökkunum mínum sem ýta mér líka áfram á erfiðistímum. Drengurinn minn ýtir við mér að teikna meira en hann er gríðarlega fær á því sviði, og dóttir mín sýnir mér á hverjum degi virði þess að vera fimur, í formi og til í allt, en hún er sterkasta manneskja sem ég þekki.

Ég spila líka tölvuleiki til að fá innblástur og spila Dungeons and Dragons með góðum hópi af vinum til að fá til baka þá orku sem tapast í raunveruleikanum.

Hvaða lögum myndirðu breyta

ef þú værir einráður í einn dag?

Ég myndi setja í lög að launahæsti starfsmaður fyrirtækis gæti í mesta lagi verið með 20% hærri laun en sá með lægstu launin.

Hin hliðin

Nám: Stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2005; Háskóli Íslands, BA í japönsku máli og menningu 2012; diplóma í keramíkhönnun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík 2012; meistaragráða í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2015. Í stjórn IGI, Samtaka leikjaframleiðenda, frá 2019.

Störf: Stofnaði og rak vinnustofuna Postulínsvirkið 2012 til 2014. Framkvæmdastjóri Mure 2014 til 2017. Framkvæmdastjóri Porcelain Fortress ehf. frá 2018.

Áhugamál: Tölvuleikir, leirlist, teikning og að spila með krökkunum.

Fjölskylduhagir: Á tvö tíu ára börn: Huga Stein og Kristrúnu Áróru.