Læknar vigta stúlkubarn í Madagaskar. Landið er í hópi þeirra fátækustu í heimi og hefur enga burði til að bregðast við langvarandi þurrkatímabili.
Læknar vigta stúlkubarn í Madagaskar. Landið er í hópi þeirra fátækustu í heimi og hefur enga burði til að bregðast við langvarandi þurrkatímabili. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Playa del Carmen ai@mbl.is Loftslagsbreytingum er kennt um yfirvofandi hungursneyð í Madagaskar. En kannski sýnir vandinn þar hve brýnt það er að fórna ekki hagsæld og lífsgæðum í baráttunni við sveiflur í veðurfari.

Stundum læt ég mig dreyma um að segja skilið við blaðamannsstarfið og gerast í staðinn heimsins glæsilegasti diplómati. Í draumórunum hef ég fjárfest í glerfínum tvíhnepptum jakkafötum og þeytist á milli funda um allan heim: friðarviðræður hér, neyðaraðstoð þar, og nokkur kokteilboð inn á milli. Kaffi og kökur með Lagarde í dag, og kvöldstund í Bolshoi-leikhúsinu með Pútín á morgun.

En ég þarf ekki annað en að skoða fréttamyndir frá fundum alþjóðastofnana til að átta mig á að blaðamennskan er ekki svo slæm, og tvíhneppt jakkaföt geta farið að virka eins og spennitreyja þegar hlýða þarf á löng og innihaldsrýr ræðuhöld, eða sitja hvern fundinn á fætur öðrum þar sem ekki tekst að koma neinu í verk.

Þess vegna var ég ekki hissa þegar upptaka birtist af steinsofandi Joe Biden á COP26-loftslagsráðstefnunni í Glasgó fyrr í mánuðinum. Á myndskeiðinu má heyra í ræðumanni sem ávarpar ráðstefnugesti og lýsir því yfir að viðburðurinn sé einhver sá mikilvægasti í allri mannkynssögunni, en Biden er með hugann við eitthvað annað og nær að dotta í hér um bil 30 sekúndur, eða þar til aðstoðarmaður stekkur til og vekur forsetann svo að lítið ber á.

Mig grunar að margir ráðstefnugestir í Glasgó hefðu gjarnan viljað hreiðra um sig í mjúku rúmi á uppi á hótelherbergi frekar en að hlýða á ræðuhöldin, fullkomlega meðvitaðir um hvers konar sirkús loftslagspólitíkin er orðin.

Blessað bensínið

Endrum og sinnum nota ég þennan vikulega pistil minn í ViðskiptaMogganum til að veita lesendum annars konar sýn á loftslagsmálin. Ég er dauðþreyttur á að fjalla um þennan málaflokk en á ekki annarra kosta völ því ekkert gengur að fá stjórnmálamenn og fjölmiðla til að nálgast loftslagsvandann af yfirvegun og raunsæi. Daglega dynja á okkur stríðsfyrirsagnir um að allsherjar hamfarir séu yfirvofandi vegna útblásturs frá bílum, verksmiðjum og flugvélum og grípa verði til róttækra aðgerða tafarlaust.

Það væri til mikilla bóta ef mönnum á borð við Alex Epstein væri réttur hljóðneminn á ráðstefnum eins og þeirri sem nýlega lauk í Glasgó, en hann er höfundur metsölubókarinnar The Moral Case for Fossil Fuels . Í bókinni bendir Epstein á að við verðum alltaf að hafa það sem útgangspunkt að aðgerðir í þágu loftslagsins og náttúrunnar bitni ekki á velferð, heilsu og hamingju jarðarbúa. Hann varar við að hvað svo sem við gerum þá má það ekki leiða til þess að orkuframboð minnki, eða að orkuverð hækki.

Í nýlegu viðtali sem Epstein veitti í tengslum við COP26 benti hann á að ef við skoðum heildarmyndina er ekki að sjá að æsifréttir um yfirvofandi hamfarir eigi við rök að styðjast. Þvert á móti hefur lífið á jörðinni aldrei verið betra, og mannkyninu aldrei stafað minni hætta af ógnarkröftum náttúrunnar.

Epstein minnir þannig á að hlutfallslega hefur dauðsföllum af völdum veðurtengdra náttúruhamfara fækkað um 98% á undanförnum hundrað árum, og eigum við það fyrst og fremst að þakka vaxandi hagsæld sem drifin hefur verið áfram af notkun jarðefnaeldsneyta. Ef markmiðið er að bæta lífskjör og lífslíkur fólks – og ekki síst hjálpa þeim sem búa í dag við lökustu kjörin – er aðgengi fólks að orku algjört lykilatriði og í flestum heimshlutum eru einu kostirnir sem nokkurt vit er í kjarnorka annars vegar og jarðefnaeldsneyti hins vegar.

Ríkar þjóðir ráða betur við áföllin

Fjölmiðlar um allan heim vita mætavel að hamfarafréttir um loftslagsbreytingar fá marga smelli. Þeir létu því ekki sitt eftir liggja dagana í kringum loftslagsráðstefnuna og birtu dramatískar greinar og myndskeið sem áttu að sýna að heimsendaspárnar eru þegar farnar að rætast og loftslagsbreytingar byrjaðar að valda þjáningu og hörmungum.

Beindist kastljósið einkum að Madagaskar þar sem langvarandi þurrkar hafa valdið því að landið er núna á barmi hungursneiðar. Fréttamaður Sky flaug með tökuliði sínu yfir hálfan hnöttinn til að sýna áhorfendum heima í stofu hvernig þessi fallega eyja er að skrælna upp. Benti hún á hversu ósanngjarnt það hlýtur að vera að land þar sem fólk er svo fátækt að það hefur sama sem ekkert sótspor – sárafáir eiga bíl og aðeins 15% landsmanna hafa aðgang að rafmagni – þurfi að gjalda fyrir veðurfarsbreytingar sem hljóta að vera afleiðing útblásturs frá öðrum löndum. Um leið og myndavélinni var beint að vannærðum og fárveikum börnum sagði fréttamaðurinn að Madagaskar gæti orðið fyrsta ríki heims sem þyrfti að glíma við hungursneið af völdum loftslagsbreytinga.

En það sem fréttirnar frá Madagaskar skauta yfir er að þurrkar og uppskerubrestur eru ekki óþekkt fyrirbæri í þessu sárafátæka Afríkulandi. Alla síðastliðna öld hafa íbúar eyjunnar þurft að glíma við reglubundna þurrka og fæðuskort og á 9. áratugnum var ástandið síst skárra en nú þó að í það skiptið hafi ekki hvarflað að neinum að skella skuldinni á útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Ef Alex Epstein hefði verið með í för hefði hann verið vís til að teyma fréttamann Sky á fund stjórnmálafræðinga og hagfræðinga til að spyrja hvers vegna íbúar Madagaskar eru svo fátækir að nokkur þurr ár setja stóran hóp landsmanna í lífshættu. Hann myndi væntanlega líka spyrja heimamenn hvort myndi gera þeim meira gagn: að draga úr útblæstri á heimsvísu, eða leita leiða til að margfalda landsframleiðslu á mann.

Nálgun Epsteins er í takt við það sem Björn Lomborg hefur predikað: það ætti að gefa loftslagsbreytingum gaum en himnarnir eru ekki að hrynja og mun brýnni vandamál þarfnast úrlausnar. Leiðir til að auka hagsæld ættu að vera í forgangi, m.a. vegna þess að því ríkari sem þjóðir eru því auðveldara eiga þær með að aðlagast hvers kyns sveiflum í veðurfari.

Til að sklija betur hvaða máli hagsældin skiptir er ágætt að rifja upp mikla hitabylgju sem reið yfir heimsbyggðina árið 1911. Í norðausturhluta Bandaríkjanna fór hitastigið upp í 44°C og áætlað að þar hafi um 2.000 manns látið lífið vegna hitans. Enn verra var ástandið í París þar sem hitabylgjan varði í 70 daga og kostaði um 40.000 manns lífið. Þökk sé þeim efnahagslegu framförum sem hafa átt sér stað síðastliðna öld myndi enginn þurfa að óttast annan eins fjölda dauðsfalla í hitabylgju í Bandaríkjunum eða Evrópu í dag. Fólk einfaldlega kveikir á viftu eða ræsir loftkælinguna, vippar sér svo inn í eldhús og blandar sér einn ískaldan móhító til að gera hitann bærilegri.

Í ríkari heimi þar sem nóg er af orku eru kuldaköst, hitabylgjur, þurrkatímabil og millimetrahækkun sjávarmáls fyrst og fremst til ama, en ekki meiri háttar hamfarir sem ógna lífi fólks og setja samfélagið allt úr skorðum.

Að nálgast vandann eins og Borlaug

Ég er ekki frá því að það hafi mátt greina smá vonarglætu í umfjölluninni um COP26-ráðstefnuna. Sirkúsinn er enn í fullum gangi en æ oftar má heyra í skynsemisröddum sem benda á að nálgast verði loftslagsmálin með öðrum hætti. Hér og þar hefur mátt sjá greinar sem benda á að þær lausnir sem lagðar hafa verið til eru meingallaðar, og ávinningurinn ekki í neinu samræmi við kostnaðinn.

Kannski er það að renna upp fyrir fólki að diplómatar í fínum jakkafötum munu ekki leysa vandann, heldur kemur lausnin frá fólki af allt annarri sort:

Mér kemur til hugar Bandaríkjamaður sem fæddist inn í bláfátæka bændafjölskyldu í Iowa árið 1914. Honum þótti stritið á býlinu óþolandi og dreymdi um að gerast atvinnumaður í íþróttum, en besta leiðin til að láta drauminn rætast var að komast að hjá háskóla með öflugt íþróttastarf. Norman Borlaug gat látið það eftir sér að setjast á skólabekk því að árið 1917 hafði Henry Ford sett á markað nýja gerð af ódýrri dráttarvél sem gat – þökk sé sprengihreyflinum – afkastað á við sex dráttarklára.

Nema hvað Borlaug reyndist miklu betri námsmaður en íþróttamaður og endaði á að útskrifast með doktorsgráðu í plöntusjúkdómum og erfðafræði, og var í framhaldinu ráðinn til starfa hjá Rockefeller-sjóðnum til að reyna að bæta uppskeru mexíkóskra hveitibænda. Til að gera langa sögu stutta tókst Borlaug að fjórfalda hveitiframleiðslu Mexíkó og með sömu aðferðum stjórjókst hveitiræktun í Bandaríkjunum, Indlandi og Pakistan. Því næst sneru Rockefeller- og Ford-sjóðirnir bökum saman og fengu Borlaug til að leiða kynbætur á hrísgrjónaplöntunni og var útkoman þrefalt betri uppskera.

Hefur verið áætlað að með framlagi sínu hafi Borlaug beint og óbeint bjargað að minnsta kosti sex hundruð milljónum mannslífa. Er leitun að þeim einstaklingi sem hefur gert mannkyninu meira gagn.

Ef hópurinn sem kom saman í Glasgó fyrr í mánuðinum hefði verið beðinn að leysa sama verkefni og Borlaug hefði útkoman væntanlega verið margra síðna sáttmáli um að bjarga heiminum frá fæðuskorti með því að þvinga fólk til að borða minna. Því næst hefðu ráðstefnugestir fagnað góðu dagsverki með því að halda sjálfum sér veglega veislu.