Íronía „Húmorinn og íronían gera sitt gagn, draga úr viðbjóðnum og dreifa þannig huganum,“ segir í dómi um nýjustu glæpasögu Lilju Sigurðardóttur.
Íronía „Húmorinn og íronían gera sitt gagn, draga úr viðbjóðnum og dreifa þannig huganum,“ segir í dómi um nýjustu glæpasögu Lilju Sigurðardóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lilju Sigurðardóttur. JPV útgáfa 2021. Innbundin, 313 bls.

Margir spennusagnahöfundar víða um veröld hafa fjallað um mansal í bókum sínum og tekist misjafnlega að ná utan um viðbjóðinn og ástæður hans, eins og gengur. Lilja Sigurðardóttir er með íslenskan vinkil á vandamálinu í Náhvítri jörð og getur brosað framan í heiminn að loknu góðu verki.

Að sumu leyti er Náhvít jörð sjálfstætt framhald af tveimur spennusögum Lilju, Helkaldri sól , sem kom út 2019, og Blóðrauðum sjó frá því í fyrra. Áróra er enn að leita að systur sinni, vinnan hefur forgang hjá Daníel, Áróra hrífst af honum og hann hefur taugar til hennar en samskiptin eru gjarnan skemmtilega misskilin. Lady Gúgúlú er á sínum stað, tengsl Helenu við Söru eru í föstum skorðum, hún er umhyggjusöm, þegar hún vill svo við hafa en föst fyrir og ákveðin þegar á þarf að halda. Gömul kynni rifjast upp en mynd helstu persóna verður samt stöðugt skýrari og þær gefa æ meira af sér.

Sagan er spennandi. Lilja skrifar vel þéttan og úthugsaðan texta. Skýringar hennar á umhverfi og líðan eru á stundum hreint afbragð samanber byrjun sögunnar. Ljóðrænar myndlíkingar segja sína sögu og engum dylst munurinn á frænkunum Elínu, sem malar eins og köttur, og Áróru, sem urrar eins og rándýr. Samræðurnar eru líka eðlilegar og grípandi í heilsteyptri frásögn.

Húmorinn og íronían gera sitt gagn, draga úr viðbjóðnum og dreifa þannig huganum. Skotið á aðallækninn í golfi er hárbeitt og hamborgaraárátta Daníels vísar á veikan blett. Á þessum vettvangi hefur Áróru verið líkt við Lisbeth Salander og ljóst að á Teslunni er hún komin fram úr Stellu Blómkvist á silfurfáknum, svo enn ein kvenhetjan sé nefnd í þessu samhengi. Sergei á Yaris á heldur ekkert í hana, en Ari á Benz á hugsanlega framtíð fyrir sér. Meiri spurning er um fyrrverandi tengdamóður Daníels á Range Rover.

Ljóst er að Lilja er á góðri siglingu og í því sambandi kemur sundsprettur Lárentínusar í köldu vatni um miðjan vetur spánskt fyrir sjónir. Það flokkast samt frekar sem yfirsjón en vel ígrunduð aðgerð og þegar á heildina er litið er Náhvít jörð ekki aðeins góð spennusaga heldur gott innlegg í mikilvæga umræðu um græðgi, glæpi og fordóma.

Steinþór Guðbjartsson

Höf.: Steinþór Guðbjartsson