Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Engin veiðigjöld hafa verið greidd af loðnu á þessu ári en verð á loðnuafurðum var óvenju hátt fyrstu mánuði ársins og nam heildarútflutningur 16,4 milljörðum króna fyrstu fimm mánuðina þegar magnið var aðeins 26 þúsund tonn. Nú er að hefjast ein stærsta loðnuvertíð í tvo áratugi þar sem íslensk skip fá að veiða rúmlega 600 þúsund tonn en engin veiðigjöld verða greidd af þeim fiski sem landað er fyrir árslok.

Ástæðan er að gildandi stuðull til útreikninga álagningar veiðigjalda tekur mið af ári sem engin loðna var veidd sökum loðnubrests. Þess vegna verða ekki innheimt nein veiðigjöld fyrir loðnu sem veidd hefur verið frá og með 1 . janúar 2021 til og með 31. desember 2021. Þetta staðfestir Fiskistofa.

Til grundvallar álagningu veiðigjalds eru gerðir svokallaðir þorskígildisstuðlar í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Lögin kveða á um að reikna skuli þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl.

Þorskígildin eru reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem hlutfall af verðmæti slægðs þorsks. Þar sem loðnubrestur var tvö ár í röð er þorskígildisstuðull loðnu fyrir árið 2021 einfaldlega 0,00.

Aðra sögu er að segja af næsta ári. Vegna þess að hæsta verð sem fengist hefur fyrir loðnuafurðir fékkst á árinu verður stuðullinn fyrir næsta ár 0,36 sem er þrefalt hærri þorskígildisstuðull en árin 2020, 2019 og 2018. Verða því innheimt töluvert há veiðigjöld af loðnu sem veidd er frá og með 1. janúar næstkomandi til og með 31. desember 2022.