Efnilegur Ísak Bergmann Jóhannesson spyrnir boltanum í fyrri leik A-landsliðsins gegn Rúmeníu í undankeppni HM 2022 í september á þessu ári.
Efnilegur Ísak Bergmann Jóhannesson spyrnir boltanum í fyrri leik A-landsliðsins gegn Rúmeníu í undankeppni HM 2022 í september á þessu ári. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lenti í Búkarest í Rúmeníu á mánudag þar sem liðið mun mæta heimamönnum í J-riðli undankeppni HM 2022 á fimmtudag. Enginn í hópnum reyndist smitaður af kórónuveirunni við komuna.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lenti í Búkarest í Rúmeníu á mánudag þar sem liðið mun mæta heimamönnum í J-riðli undankeppni HM 2022 á fimmtudag. Enginn í hópnum reyndist smitaður af kórónuveirunni við komuna.

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi landsliðsins undanfarið ár og hefur árangurinn ekki verið í ætt við það sem verið hefur þegar liðið komst á EM 2016 og HM 2018, auk umspils fyrir HM 2014 og EM 2020.

„Þetta er búin að vera risabrekka en maður lærir mest í þeim og vonandi er kominn betri taktur í þetta hjá okkur. Þegar nýtt lið er í smíðum þarf að búa til ákveðna tengingu á milli manna og mér finnst hún vera að koma,“ sagði Ísak á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í gær.

„Addi [Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari] talar oft um stór skref hjá leikmönnum og við erum að taka þau núna. Það mun kannski taka einhvern smá tíma en þetta lið getur orðið mjög gott, ég er sannfærður um það,“ bætti Ísak við.